Þýskaland Alfreð Gíslason verður í sjö ár með þýska landsliðið ef allt fer samkvæmt áætlun. Liðið varð í fjórða sæti EM á þessu ári.
Þýskaland Alfreð Gíslason verður í sjö ár með þýska landsliðið ef allt fer samkvæmt áætlun. Liðið varð í fjórða sæti EM á þessu ári. — AFP/Ina Fassbender
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar nýr samningur Alfreðs Gíslasonar við þýska handknattleikssambandið rennur út 28. febrúar árið 1997 hefur hann þjálfað í Þýskalandi í heila þrjá áratugi. Að því tilskildu að Þýskaland tryggi sér sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar, en…

Baksvið

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Þegar nýr samningur Alfreðs Gíslasonar við þýska handknattleikssambandið rennur út 28. febrúar árið 1997 hefur hann þjálfað í Þýskalandi í heila þrjá áratugi.

Að því tilskildu að Þýskaland tryggi sér sæti á Ólympíuleikunum í París í sumar, en samningurinn sem Alfreð undirritaði í gær er háður því skilyrði að liðið komist í gegnum undankeppnina sem leikin er núna um miðjan mars.

Alfreð var ráðinn landsliðsþjálfari Þýskalands í febrúar 2020, eftir að hann hafði tekið sér stutt frí frá handboltanum frá því í júní 2019 þegar hann hætti störfum hjá Kiel.

Hann hefur stýrt þýska liðinu á fimm stórmótum en það endaði í 12. sæti heimsmeistaramótsins í Egyptalandi 2021, í sjötta sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó sama ár, í sjöunda sæti Evrópumótsins í Ungverjalandi og Slóvakíu árið 2022, í fimmta sæti heimsmeistaramótsins í Svíþjóð og Póllandi árið 2023 og svo í fjórða sæti á Evrópumótinu í Þýskalandi í janúar á þessu ári.

Erfitt frá sigrinum 2007

Þjóðverjar urðu heimsmeistarar árið 2007, á móti þar sem Alfreð var hársbreidd frá því að koma landsliði Íslands í undanúrslit. Frá þeim tíma hafa Þjóðverjar aðeins tvisvar fengið verðlaun á stórmóti, í bæði skiptin undir stjórn Dags Sigurðssonar árið 2016 þegar Þjóðverjar urðu Evrópumeistarar og fengu síðan silfur á Ólympíuleikunum í Ríó.

Að öðru leyti hefur það verið hlutskipti þýska liðsins að vera á bilinu fjórða til tólfta besta landslið heims síðustu 17 árin. Hlutverk Alfreðs nú er að reyna að breyta því, freista þess að komast upp á milli Dana, Frakka, Spánverja og Svía sem hafa verið fjórar sterkustu þjóðirnar með fáum undantekningum á síðari árum.

Hann er með spennandi kynslóð í höndunum, en í hópnum hjá Alfreð á nýafstöðnu Evrópumóti voru nokkrir af heimsmeisturum Þjóðverja í U21 árs liðum á síðasta ári. Leikmenn sem Þjóðverjar binda miklar vonir við að komi þeim aftur í allra fremstu röð.

Glæsilegur ferill

Það kom ekki á óvart að Þjóðverjar leituðu til Alfreðs árið 2020. Hann á að baki glæsilegan feril í Þýskalandi, sérstaklega árin ellefu hjá Kiel, frá 2008 til 2019, þar sem liðið varð sex sinnum þýskur meistari, sjö sinnum bikarmeistari, tvívegis Evrópumeistari og einu sinni heimsmeistari.

Snemma á ferlinum hafði Alfreð sýnt hvað í honum bjó þegar Magdeburg varð þýskur meistari árið 2001 undir hans stjórn og Evrópumeistari árið eftir.

Hann hefur þjálfað tvö önnur félög í Þýskalandi, Hameln árin 1997 til 1999 og Gummersbach árin 2006 til 2008.

En Alfreð þarf að byrja á því að komast í gegnum undankeppni Ólympíuleikanna 14. til 17. mars, annars er samningurinn fallinn úr gildi. Þýskaland verður á heimavelli í sínum riðli, í Hannover, og mætir Alsír 14. mars, Króatíu 16. mars og Austurríki 17. mars en tvö af þessum fjórum liðum vinna sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum.

Hann þarf sem sagt að glíma við Dag Sigurðsson, einu sinni sem oftar, en Dagur tók á dögunum við liði Króata. Ef allt fer að óskum gætu þeir félagarnir mæst enn á ný á Ólympíuleikunum í París í sumar.

Höf.: Víðir Sigurðsson