Gunnar Ingi Jóhannsson
Gunnar Ingi Jóhannsson
„Ég held að það blasi við að þessar kröfur gangi að þessu sinni óþarflega langt og menn hafi ekki haft yfirsýn yfir hvað þeir hafi verið að gera kröfu í,“ segir Gunnar Ingi Jóhannsson hæstaréttarlögmaður í samtali við Morgunblaðið, en…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Ég held að það blasi við að þessar kröfur gangi að þessu sinni óþarflega langt og menn hafi ekki haft yfirsýn yfir hvað þeir hafi verið að gera kröfu í,“ segir Gunnar Ingi Jóhannsson hæstaréttarlögmaður í samtali við Morgunblaðið, en hann fjallaði um nýjustu kröfugerð ríkisins í óbyggðamálum á fundi hjá Bændasamtökunum í gær.

Tilefni fundarins var kröfugerð sem nær til allra eyja, skerja og annarra landfræðilegra eininga fyrir ströndum Íslands sem ofansjávar eru á stórstraumsfjöru.

Aðeins örfáar stærri eyjar við landið eru undanskildar í kröfugerðinni.

Það er fjármálaráðherra sem gerir kröfurnar fyrir hönd ríkisins og segir Gunnar Ingi að ráðherrann geti breytt kröfugerðinni hvenær svo sem hann kýs.

„Viðbrögð fjármálaráðherra um að biðja Óbyggðanefnd um að endurskoða kröfugerðina eru ekki réttur póll í hæðina. Ráðherrann getur gert það sjálfur,“ segir Gunnar Ingi og segir ekki blasa við af hverju sumar eyjar og sker séu talin þjóðlenda en aðrar á sama svæði ekki.

„Nú á eftir að leggja fram gögn þeirra sem telja til réttinda í málunum,“ segir hann og telur að í mörgum tilvikum sé augljóst að verið sé að gera kröfur sem aldrei hefði átt að gera.

„Ríkið hefur ekki endilega riðið feitum hesti frá þessum málum undanfarið,“ segir Gunnar Ingi. » 16

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson