Jón Friðhólm Friðriksson fæddist 10. apríl 1954. Hann lést 16. febrúar 2024.

Útför Jóns fór fram 29. febrúar 2024.

Elsku hjartans bróðir minn, komið er að kveðjustund! Mikið er erfitt að setjast niður og skrifa minningarorð um þig þar sem fráhvarf þitt er svo óraunverulegt. Þegar ég fæddist varst þú 10 ára og þegar þú eignaðist fyrsta soninn hann Jónas var ég 10 ára. Þar var ég svo heppin að fá að passa hann á sumrin og ófáar minningar um hann í kerru spígsporandi um göturnar. Öll eigum við stórafmæli á árinu og Jónas eftir nokkra daga og stundum töluðum við um að halda stórafmæli saman þar sem einungis þrír dagar eru á milli okkar systkinanna. Strákarnir þínir hafa ávallt skipað stórann sess í mínu lífi og vona ég svo sannarlega að svo verði áfram.

Síðustu tuttugu ár frá því Teddi kom inn í mitt líf höfum við átt mikið af fallegum og góðum samverustundum. Þið náðuð svo vel saman. Fyrst og fremst í sveitinni okkar þar sem þið Alma byggðuð ykkur sumarhús steinsnar frá okkar. Þegar hún svo kvaddi vegna veikinda fyrir fjórum árum urðu samverustundirnar ennþá fleiri og þú fékkst að fljóta með í bústaðinn okkar. Þar áttum við margar góðar stundir og oft mikið hlegið.

Veiði var eitt af því sem þú elskaðir og fórum við í nokkrar ferðir saman ásamt því að veiða með Tedda á bökkum Brúarár síðustu árin. Sumarhúsið ykkar seldir þú fyrir þremur árum en lést ekki staðar numið heldur keyptir þér land við Hvítársíðu og hófst þá á ný bygging lítils sumarhúss. Ótrúlegur! Endalaust eitthvað að sýsla og elskaðir alla samveru með þínum nánustu.

Ótal minningar koma í hugann þessa dagana og ávallt sé ég þig brosandi fyrir mér enda mjög brosmildur að eðlisfari. Í tæp níu ár tókstu á við ólæknandi veikindi þín af æðruleysi og sagðir alltaf að þetta væri verkefni. Öll héldum við samt að þú fengir meiri tíma, þú ætlaðir að gera svo margt.

Fyrir mánuði síðan áttum við systkinin einstaka samveru og héldum þorrablót hérna heima hjá okkur. Skellt var í myndatöku af okkur öllum en ekki óraði mig fyrir því að þetta væri síðasta samverustundin okkar allra saman. Elsku besti bróðir, takk fyrir allt í blíðu og stríðu og ég bið almáttugan guð að styrkja strákana þína og fjölskyldur þeirra. Nú hafa þeir misst báða foreldra sína. Minning þín er ljós í lífi okkar.

Horfinn, farinn héðan,

svo hljótt er allt um stund.

Við horfum öll til himins,

er hinsta sofnum blund.

Þá kvaddur kær er bróðir,

er kvikan alltaf sár,

þú enda varst hér alltaf,

öll hin liðnu ár.

Og hvar sem þurfti hjálpar,

þín hönd var komin þar

og fyrir vini og frændur,

sem fastur punktur var.

En líf þitt var allt vinna

og vandlát höndin er,

hvort húsin byggði og báta,

eða bitill myndir sker.

Þér list í blóð var borin,

og blýanturinn rann,

á hvítan hrjúfan pappír,

þín hönd fram myndir spann.

En oft var lífið erfitt,

og oft var lífið glatt,

en alltaf áfram haldið,

þó erfitt væri og bratt.

Er bróðir svefns þér bíður,

útbreidda himinsæng

og bjartir englar brosa

og blaka svölum væng.

Þeir vagga veikum bróður,

í væran svefn og þá,

þú eigir eilíft ljósið

og athvarf himnum á.

(Sigr. Guðný Jónsdóttir)

Þín systir

Fanney.