Jóhanna S. Ingólfsdóttir fæddist 6. apríl 1953 í Reykjavík. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 21. febrúar 2024.

Foreldrar hennar voru Ásta Hauksdóttir Sigurz, húsmóðir, f. 21. september 1931 á Akureyri, d. 7. september 2014, og Ingólfur Sigurz, fulltrúi borgarfógeta, f. 10. júní 1928 í Reykjavík, d. 13. júlí 1994.

Bræður hennar eru: Skúli Eggert Sigurz, f. 18. desember 1951, eiginkona hans er Ingunn Þóra Jóhannsdóttir. Ingólfur Ingólfsson, f. 11 febrúar 1957, eiginkona hans er Dhaiane Pacheco Cardoso. Sigurður Haukur Sigurz, f. 22. nóvember 1967, eiginkona hans er Björg Eyjólfsdóttir. Sammæðra: Magnús Reynisson, f. 30. desember 1947, eiginkona Sigríður Jóhanna Tyrfingsdóttir.

Jóhanna ólst upp í Reykjavík en þegar hún var 17 ára vaknaði útþráin og hún fór til Englands til að læra ensku og vinna. Þar var hún í nokkra mánuði uns hún kom heim aftur, góð í ensku. Hún vann á Borgarspítalanum eftir heimkomuna.

Eftir tvítugsaldurinn tók útþráin að kræla á sér aftur. Þá voru heimilisvinir frá Ameríku í heimsókn og buðu henni að koma með út í fæði og gistingu á meðan hún væri að koma sér fyrir. Hún þáði gott boð og bjó í New York um tíma. Hún giftist Robert McDonald og þau bjuggu í Saint Augustine í Flórída. Þar keyptu þau veitingahús og gerðu upp og ráku við góðan orðstír. Panta þurfti borð með margra daga fyrirvara. Þau skildu síðar. Hún bjó í Los Angeles í nokkur ár og síðustu árin í Ameríku bjó hún í New Orleans. Hún kunni vel við sig í blús og annarri góðri músík.

Eftir að Jóhanna flutti aftur heim til Íslands vann hún í fatahreinsun sem hún svo keypti og rak í nokkur ár. Hún bjó með Ástu móður sinni í Búlandi 31 allt þangað til hún lést árið 2014. Hún var mikill dýravinur og átti alltaf eina eða tvær kisur og var dugleg að fóðra smáfuglana þegar jarðbönn voru.

Útför Jóhönnu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 5. mars 2024, kl. 13.

Það er komið að kveðjustundinni, Didda frænka hefur kvatt þessa jarðvist.

Fyrsta minningin um Diddu er peysa sem hún sendi mér frá Ameríku, ljósgul með alls kyns litum útsaumi. Á þeim tíma þótti merkilegt að fá pakka frá útlöndum og það var alltaf hátíðlegt þegar ég fór í peysuna.

Didda, eins og hún var alltaf kölluð, bjó um langt skeið í Ameríku og var mikill ævintýraljómi yfir því þó lífið hafi sjálfsagt ekki alltaf verið dans á rósum.

Endrum og eins sendi hún pakka við mikinn fögnuð og í heimsóknum til Íslands hittumst við stundum. Eftir að ég fullorðnaðist og flutti að heiman vorum við duglegar að skrifast á og stundum sendi ég henni nammi og þá, eins og hún sagði, sofnaði hún með súkkulaðislefuna út á kinn.

Árið 1997 fór ég ásamt Víði og Einari Ágústi í „roadtrip“ til Ameríku og stoppuðum við hjá Diddu í nokkra daga í New Orleans en þar bjó hún í franska hverfinu. Það var vel að okkur búið og gerði hún allt sem hún gat til að heimsóknin yrði sem ánægjulegust.

Eftir að Didda flutti aftur heim til Íslands fyrir 25 árum heyrðumst við og sáumst oftar. Oft sátum við niðrí Búlandi, drukkum neskaffi og spjölluðum um heima og geima.

Hún hafði gaman af tónlist og átti talsvert af hljómplötum sem hún svo gaf mér þegar hún flutti úr Búlandinu. Hún var mikill dýravinur, átti alltaf ketti og oft voru nágrannakettirnir komnir í mat til þeirra mæðgna, það var ekkert tros í þeim matardöllunum. Allir voru velkomnir til Diddu, bæði menn og dýr.

Ég enda þessa kveðju á textabroti eftir Þorstein Eggertsson sem Rúnar Júl. vinur hennar söng:

Það er nógur tími til að hugs´um

dauðann eftir dauðann.

Ég syng bar´um lífið

og syngdu með mér.

Hvíl í friði kæra frænka,

Ásta Magnúsdóttir.