Ljósmynd Hreindýrið er í aðalhlutverki á sýningu Stephens á Höfn.
Ljósmynd Hreindýrið er í aðalhlutverki á sýningu Stephens á Höfn. — Ljósmynd/Stephen Stephensen
Ljósmyndarinn Stephen Stephensen hefur opnað sýningu í Listasafni Svavars Guðnasonar á Höfn í Hornafirði. Sýningin ber yfirskriftina Rangifer Tarandus en það mun vera latneska heitið yfir hreindýr

Ljósmyndarinn Stephen Stephensen hefur opnað sýningu í Listasafni Svavars Guðnasonar á Höfn í Hornafirði. Sýningin ber yfirskriftina Rangifer Tarandus en það mun vera latneska heitið yfir hreindýr. Í tilkynningu segir að Stephen hafi fylgt hreindýraveiðimönnum eftir á veiðum á Lónsöræfum. „Svarthvítar ljósmyndirnar sýna heim sem hreindýr og veiðimenn deila saman, og eru í senn dulúðlegar og átakanlegar. Sumar þeirra eru blóðugar þannig að áhorfandinn sér inn í hjörtu, kynfæri og þarma, aðrar færa mann nær rómantískri ægifegurð öræfanna,“ segir í kynningartexta.

Á sýningunni er einnig hljóðverk sem Stephan skapaði með Sigtryggi Baldurssyni ásláttar­hljóðfæraleikara, en á plötunni Jerúsalem endursköpuðu þeir hljóðheim hreindýrsins með skinnhljóðfærum.

Stephan er bæði tónlistarmaður og ljósmyndari. Hann lærði ljósmyndun við Icart í París en er einna þekktastur fyrir aðkomu sína að hljómsveitinni GusGus.