Allan Heiðar Sveinbjörnsson Friðriksson fæddist 24. apríl 1937 á Akranesi. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 22. febrúar 2024 í faðmi fjölskyldunnar.
Foreldrar hans voru Friðrik Jón Ásgeirsson Jóhannsson trésmiður, fæddur á Auðkúlu við Arnarfjörð 28.11. 1913, d. 9.9. 1998 og Eva Laufey Eyþórsdóttir, f. 27.2. 1918, d. 9.9. 1957, húsmóðir á Akranesi.
Allan ólst upp hjá langömmu sinni, Sesselju Sveinsdóttir, f. 6.2. 1876, d. 13.8. 1956, og Sveinbirni Oddssyni bókaverði, f. 8.11. 1885, d. 6.8. 1965.
Systkini Allans, sammæðra, eru Halldóra Engilbertsdóttir, f. 18.7. 1940; Sesselja Sveinbjörg Engilbertsdóttir, f. 29.7. 1942; Guðrún Engilbertsdóttir, f. 23.2. 1944; Hugrún Engilbertsdóttir, f. 8.7. 1946; Guðjón Engilbertsson, f. 12.2. 1955, d. 15.8. 2023.
Systkini Allans, samfeðra, eru Guðmundur Jóhann, f. 27.11. 1934, d. 21.3. 1986; Dista, f. 14.11. 1936, d. 16.1. 1937; Annie Bjargfeld, f. 30.3. 1939, d. 5.4. 1985; Hrafn Vestfjörð, f. 9.5. 1940; Kristján Friðrik, f. 26.10. 1945; Bjarney Jónína, f. 26.8. 1948; Jóhanna Björk, f. 2.1. 1951; Gils, f. 6.1. 1953; Bjarni Ásgeir, f. 29.5. 1956; Guðmunda, f. 23.1. 1958, d. 26.1. 1958.
Allan kvæntist 24.4. 1959 Kristínu Jónsdóttur, f. 17.11. 1939, d. 16.2. 2018. Foreldrar hennar voru Jón Guðmundsson, trésmíðameistari frá Guðnabæ á Akranesi, f. 24.12. 1906, d. 27.7. 1965, og Sigurrós Guðmundsdóttir, matráðskona frá Sigurstöðum Akranesi, f. 22.6. 1912, d. 27.9. 1990.
Börn Allans og Kristínar eru Jón Heiðar, f. 9.12. 1958, forstöðumaður Byggðasafnsins í Görðum, Akranesi, kvæntur Heiðrúnu Janusardóttur, verkefnastjóra hjá Akraneskaupstað, og eru börn þeirra Sigríður Hrund, Hjalti Heiðar og Harpa, barnabörn eru 6, Sesselja Laufey, f. 30.4. 1961, húsmóðir á Akranesi, gift Sigurbirni Hafsteinssyni pípulagningameistara og eru börn þeirra Hafsteinn Mar, Villimey Kristín Mist og Hrafnkell Allan, barnabarn eitt, Sigurrós, f. 18.5. 1963, matráður hjá Ístaki, gift Steindóri Óla Ólasyni, verkstjóra hjá Ístaki, og eru börn þeirra Maren Rós, Eva Laufey Kjaran, Guðmundur Jóhann og Allan Gunnberg, barnabörn 11, Sveinbjörn, f. 8.12. 1968, innkaupastjóri hjá Globus, kvæntur Lísbet Einarsdóttur framkvæmdastjóra og eru börn þeirra Daði, Allan Heiðar, Andri og Dagmar, barnabörn 4.
Allan var í Barnaskóla Akraness, stundaði nám við Gagnfræðaskóla Akraness og Iðnskólann á Akranesi þar sem hann lagði stund á trésmíðanám og lauk sveinsprófi 1962 og meistaraprófi nokkrum árum síðar.
Allan vann í nokkur ár við trésmíðar hjá tengdaföður sínum Jóni Guðmundssyni frá Guðnabæ, Akranesi, en starfaði síðan sjálfstætt til ársins 1976. Þá hóf hann störf hjá Ístaki, lengst af sem verkstjóri þar til hann lét af störfum árið 2007. Allan kom að mörgum verkefnum hjá Ístaki og þar má helst nefna Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, Hrauneyjafossvirkjun, Ráðhúsið í Reykjavík, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og við olíuhöfnina í Örfirisey svo fátt eitt sé nefnt.
Útför hans fer fram frá Akraneskirkju í dag, 5. mars 2024, klukkan 13.
Streymt verður frá athöfninni:
https://www.akraneskirkja.is
Pabbi okkar elskulegur er fallinn frá. Stoð okkar og stytta í gegnum tíðina. Við minnumst hans með kærleika og ást, mannsins sem lék sér við okkur í æsku, kenndi okkur margt og elskaði af öllu sínu stóra hjarta. Söknuður okkar er sár.
Við minnumst pabba sem einstaks manns; hlýr, skemmtilegur, örlátur og einstaklega stríðinn. Gat verið langrækinn, enda í nautsmerkinu. Ef eitthvað bjátaði á hjá okkur systkinunum eða þurfti að fara í einhverjar framkvæmdir var hann mættur og fór ekki fyrr en allt var komið í lag.
Við minnumst hans frá æskuheimilinu, Sunnubraut 20, þar sem hann var oft með okkur í útileikjum, brennibolta, yfir o.fl. Bjó til svell fyrir okkur svo að við gætum rennt okkur á skautum, smíðaði mark fyrir okkur svo að við gætum spilað fótbolta og gerði við brotnar rúður í hverfinu þegar illa fór í þeim leik. Við minnumst hans frá Reynigrund 24, sem hann og mamma byggðu. Þar var oft gestkvæmt og glatt á hjalla. Þá var sumarbústaðurinn, Guðnabær í Ölveri, griðastaður þeirra, en bústaðinn byggðu þau og ræktuðu lóðina upp af mikilli natni. Þangað var gott að heimsækja þau og aldrei var neinum ofaukið. Helst vildu þau hjónin hafa alla hjá sér, alltaf.
Pabbi hafði brennandi áhuga á fótbolta. Spilaði í yngri flokkum með Kára á Akranesi og einnig með ÍA. Fór á flesta þá leiki sem hann gat, hvort sem þeir voru heima- eða útileikir. Horfði á enska boltann og studdi sitt lið, Arsenal. Á 80 ára afmælinu fórum við systkinin með hann til Englands á Arsenal-leik þar sem hann skemmti sér konunglega þrátt fyrir að hann væri ekki hrifinn af öllum lestarferðunum.
Hjónaband pabba og mömmu var mjög gott alla tíð. Dans, gleði, hlátur og ást. Það var því mikill missir fyrir okkur öll þegar hún kvaddi þennan heim árið 2018. Í veikindum hennar hafði pabbi verið henni sem stoð og stytta og vék varla frá henni alla hennar sjúkralegu. Nú eru foreldrar okkar sameinaðir á ný, dansa, hlæja og vaka yfir okkur öllum eins og þau gerðu svo vel í lifanda lífi.
Við munum alltaf sakna hlýju þinnar en minningin um þig mun ylja okkur um ókomna tíð. Við erum innantóm og hol að innan og dagarnir eru ögn litlausari og grárri þegar þín nýtur ekki við.
Blessuð sé minning þín, elsku pabbi okkar.
Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabbi minn
vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.
En minning þín hún lifir í hjörtum okkar hér
því hamingjuna áttum við með þér.
Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú
þökkum allt sem af þér gafstu,
okkar ástir áttir þú.
Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund
og gaman var að koma á þinn fund.
Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til
nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.
Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn
þá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.
Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut
gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.
Og ferðirnar sem fórum við um landið út og inn
er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.
(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)
Ástarkveðja,
Jón Heiðar, Sesselja Laufey, Sigurrós og Sveinbjörn.
Að hryggjast og gleðjast
hér um fáa daga,
að heilsast og kveðjast.
– Það er lífsins saga.
(Páll J. Árdal)
Í dag kveð ég kæran tengdaföður og afa barnanna minna, afa Allan. Káti glaði Allan sem var hvers manns hugljúfi, fjölskyldu sinni stoð og stytta, greiðvikinn og hjálpsamur, góður dansari og afar tapsár í spilum. Fjölskyldumynstur Allans var afar flókið. Hann ólst upp hjá langömmu sinni Sesselju sem var fædd 1877 og yngstu bræður hans voru fæddir 1955 og 1956. Það er erfitt að setja sig í spor þess sem elst ekki upp hjá foreldrum sínum en ég er viss um að þar liggur ástæða þess að Allani var mjög annt um fjölskylduna sína, hlúði að henni og bar hag hennar fyrir brjósti og hafði mikla ánægju af þegar öll fjölskyldan kom saman. Hann og Stína áttu fallegt og gott hjónaband og dönsuðu saman í gegnum lífið. Þau voru samhent og samstiga í öllu því sem þau tóku sér fyrir hendur. Í sumarhúsinu í Ölveri áttu þau gæðastundir og nutu sín hvort sem þau voru ein að stússast í bústaðnum eða garðinum eða með börnin eða barnabörnin hjá sér. Allan hlúði að Stínu sinni þegar hennar kraftar þrutu og missir hans var mikill þegar hún kvaddi fyrir sex árum síðan. Eins og Stína átti Allan skjól á hjúkrunarheimilinu Höfða síðustu misserin og fékk þá líka til baka frá afkomendum sínum ástina og umhyggjuna sem hann hafði veitt þeim í gegnum lífið.
Ég kveð kæran tengdaföður með virðingu og þakklæti.
Heiðrún Janusardóttir.
Í dag kveðjum við elskulegan tengdaföður minn og vin Allan Heiðar Sveinbjörnsson. Hans er sárt saknað á okkar heimili, hans fölskvaleysi var einstakt og ljúfmennskan honum eðlislæg. Í gegnum tíðina störfuðum við oft saman, bæði í hinum ýmsu verkum Ístaks og ófáum stundum hjálpaði hann mér við smíðar á okkar heimilum. Við áttum okkar bílskúrsumræður og sagði hann mér frá hinum ýmsu tímum úr sínu lífi. Minntist hann með hlýju á tíma sinn í sveit í Borgarfirði hjá góðu fólki og líkaði honum sveitastörfin vel. Einnig sagði hann mér ýmsar sögur af sjómennsku sinni og kímdi þegar hann sagði frá félögunum um borð sem stundum migu yfir borðstokkinn í átt að Snæfellsjökli og göspruðu „Sjáðu á mér skökulinn Jökullinn“. Hann starfaði til fjalla við byggingu Sigölduvirkjunar og síðar Hrauneyjafossvirkjunar. Þar líkaði honum einnig vel og voru þeir smiðir kallaðir mótadjöflar sem hentu upp mótum með dugnaði og hörku á örskotsstundu.
Eiginkona Allans og tengdamóðir mín, Kristín Jónsdóttir, lést eftir erfið veikindi í febrúar 2018 og var það honum mikill harmur og fannst mér hann aldrei verða samur maður eftir það, einsemdin reyndi á hann en hann bar sig vel. Barnabörnin elskaði hann og þau hann, oft er þau komu í heimsókn til okkar og hann sat ekki í stólnum sínum spurðu þau strax, hvar er afi?
Og nú sest hann ekki í stólinn sinn framar og við eftirlifendur höfum minningararnar til að muna og sakna góða mannsins sem hann var.
Ég veit hann er hvíldinni feginn og segi að lokum, hvíl í Guðs friði og hjartans þakkir fyrir allt og allt, elsku vinurinn minn.
Steindór Óli Ólason.
Elsku afi minn góði, mikið á ég eftir að sakna þín, hlátursins og stríðninnar.
Umhyggjan og ástin sem þið amma gáfuð okkur var einstök. Ég á ykkur allt að þakka, þið voruð svo stór partur af lífi mínu og stórar og góðar fyrirmyndir. Ég ylja mér við góðu minningarnar. Sú elsta er eflaust að þú varst með mig í fanginu, rérir og raulaðir lagið Rósin sem minnir mig alltaf á þig, þú raulaðir þetta síðast nálægt mér í Ölveri með Kristían minn í fanginu, mér þótti vænt um það. Strákarnir mínir voru ekki síður heppnir að fá að eiga ykkur ömmu að, þið voruð þeim ofsalega dýrmæt og einstaklega góð. Þið voruð alltaf tilbúin fyrir okkur öll og hefðuð vaðið eld og brennistein fyrir fólkið ykkar. Steindór minn hafði ykkur lengi vel einn fyrir sig og naut þess að vera hjá ykkur. Hann átti það til að detta í allskonar karaktera og þegar hann vildi fá takka á magann til að vera eins og Kalli á þakinu þá varstu ekki lengi að finna tappa af djúsflösku og sauma hann á smekkbuxur, drengurinn var himinlifandi. Þú varst svo einstaklega handlaginn og hjálpsamur, þú varst mættur eldsnemma á morgnana ef eitthvað þurfti að gera eða dytta að. Einnig þegar ég byrjaði að búa, þá komstu til að parketleggja og vissir að enginn gerði það betur og vildir aldrei sjá neitt fúsk, allir sem þig þekktu vissu hvað þú varst fær á þínu sviði og hvaða mann þú hafðir að geyma. Ég var heppin að fá að vinna á sama stað og þú með nokkrum samstarfsmönnum þínum. Þeir þreyttust ekki á að segja mér hvað þú værir flinkur smiður og fór ekki á milli mála hve mikils metinn þú varst þar. Stríðni þín barst í tal og þá var hlegið dátt.
Ég fékk oft að heyra af fallegasta danspari landsins. Á árshátíðum Ístaks var fólk agndofa yfir ykkur ömmu sem stiguð glæsilegan dans við hvert tilefni svo eftir var tekið. Þið elskuðuð músík og oftar en ekki tókuð þið sporið í stofunni ef það kom gott lag á fóninn. Þegar ég gifti mig kom ekki annað til greina en að þú leiddir mig með pabba upp að altari enda voruð þið amma mér sem aukaforeldrar. Á konudaginn færðir þú öllum stelpunum í fjölskyldunni blóm, líka þeim sem voru ekki lengur í fjölskyldunni, það lýsir þér ágætlega. Amma litla fékk alltaf túlípana sem hún kunni ekkert mikið að meta en þér þóttu þeir fallegir og þar við sat. Þú varst þver og ákveðinn og það skín sannarlega af börnunum þínum líka. Þú gast espt börnin upp, strítt þeim og hlegið en varst ekkert upp rifinn af hávaðanum sem á eftir kom, yfirleitt heyrðist á bakvið þig frá ömmu, „Æ, Allan minn, láttu ekki svona“.
Daginn áður en þú kvaddir okkur tókstu utan um mig með stóru vinnumannshöndunum þínum og mikið var gott að kúra aðeins í hálsakotinu þínu. Ég gat þar sagt þér hvað ég elskaði þig mikið og þakkað fyrir að hafa átt akkurat þig fyrir afa, ég átti samt ekki von á því þarna að daginn eftir værir þú farinn frá okkur. Innst inni vonaði ég þegar ég kyssti þig í hinsta sinn að þú myndir bregða mér og værir bara að hrekkja okkur, en svo var ekki, þarna hafði amma komið að sækja ástina sína.
Mér finnst lífið tómlegt án ykkar en er svo þakklát fyrir allt sem ég átti í ykkur. Ég átti ekki bara ömmu og afa í ykkur, þið voruð mér svo mikið meira en það. Ég trúi að þið dansið nú saman á ný og fylgist með okkur öllum og passið og upp á ríkidæmi ykkar. Ég varðveiti allar minningarnar og ylja mér við þær alla tíð.
Þangað til næst, elsku afi minn, vertu stilltur.
Ég elska þig.
Þín,
Maren Rós Steindórsdóttir (Mæsa)
Þá er hann elsku afi okkar farinn frá okkur. Þó að hann sé horfinn á braut munum við alltaf ylja okkur við kærar minningar sem við eigum um afa Allan. Hann var hress og kátur, hjálpsamur og greiðvikinn, algjör ljúflingur, en samt ákaflega stríðinn (og tapsár) á góðlátlegan hátt. Þær voru ófáar stundirnar sem hann nýtti til þess að gleðja okkur með því að láta ömmu bregða þar sem hún var í rólegheitunum að elda mat, en bætti það samt upp með því að grípa um hana og taka við hana léttan dans um eldhúsið, þar sem þau elskuðu bæði að dansa.
Samverustundirnar í sumarbústaðnum í Ölveri standa mikið upp úr, en þar byggði afi sér fallegan bústað þar sem fjölskyldan eyddi mörgum gæðastundum saman. Afi elskaði að spila við okkur, og skipti þar engu máli hvað var spilað. Það var alltaf gaman í kringum afa, sérstaklega þar sem spilastokkur var nálægt. Þegar hann var ekki upptekinn við að spila við okkur eða í göngutúrum um Ölver naut hann sín við að dytta að bústaðnum eða garðinum, og var einstaklega laginn við útskurði og alls kyns smíðar.
Engihjallinn kemur okkur einnig í huga, þar sem við fórum oft í helgarheimsóknir til afa og ömmu, þar sem stjanað var við okkur allan tímann, og var alltaf leiðinlegt að kveðja þegar heim var farið. Við vissum að afi og amma myndu standa í glugganum á annarri hæðinni og veifa okkur bless þar til bíllinn var kominn í hvarf, sem okkur þótti ákaflega vænt um.
Nú ertu farinn, elsku afi. Takk fyrir allar góðu stundirnar og minningarnar sem við eigum um þig. Nú getur þú dansað við ömmu í sumarlandinu alla daga fram á nótt. Við söknum þín og elskum, takk fyrir allt, farðu í friði.
Þín barnabörn,
Hafsteinn Mar, Villimey Kristín Mist og
Hrafnkell Allan.
Elsku afi Allan okkar.
Nú ertu kominn til ömmu og við vitum að núna líður þér vel. Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur. Það var svo notalegt að vera með ykkur ömmu Stínu. Við eigum svo margar og góðar minningar með ykkur. Við elskuðum að vera hjá ykkur á Hagaflöt, leika okkur, fá grjónagraut, ískex og ísblóm. Spila við ykkur og með þér á munnhörpu, fara með ykkur ísrúnt upp í Ölver, þar leið okkur svo vel. Þú skutlaðir og sóttir okkur stundum í skóla og leikskóla og bauðst alltaf upp á grænt ópal okkur fannst það ekkert gott en við fengum okkur samt af því að það varst þú. Það var svo gott og dýrmætt þegar þið komuð til okkar til Noregs, við nutum þess að hafa ykkur hjá okkur í nokkrar vikur og allar góðu stundirnar heima hjá ömmu Rósu, við munum hugsa til þín í bleika stólnum alltaf. Við áttum svo góðar stundir með þér og fyrir það erum við þakklátir.
Elsku afi, við munum alltaf geyma þig í hjartanu okkar og hugsa með hlýju til þín. Takk fyrir allt, fljúgðu hátt, elsku afi. Þú knúsar ömmu Stínu frá okkur.
Við elskum þig.
Þínir
Steindór Mar., Kristían Mar., Daníel Mar og Baltasar Mar.