Viðar Sandholt Guðjónsson fæddist í Reykjavík 9. júlí 1937. Hann lést 8. febrúar 2024 á Nesvöllum í Reykjanesbæ.

Foreldrar hans voru Ágústa Steinunn Ágústdóttir Ward, f. 29. október 1914, d. 8. júlí 2005, og Guðjón Jens Sandholt Björnsson, f. 18. júní 1912, d. 24. mars 1987. Uppeldisfaðir hans var Paul Thomas Ward, f. 31. desember 1914, d. 6. nóvember 1976.

Systir Viðars var Rannveig Guðjónsdóttir, f. 15. nóvember 1933, d. 25 desember 2017.

Maki Viðars var María Valborg Guðmundsdóttir, f. 17. september 1936.

Börn þeirra: 1) Guðmundur Viðarsson, fæddur 1. janúar 1964, maki Bente Høge, barnsmóðir Margrét Hjartardóttir. Börn hans eru Hjörtur Viðar, maki Katla Margrét Ásmundsdóttir og eiga þau fjögur börn, María Ósk, maki Helgi Grétar Gunnarsson og eiga þau þrjú börn, og Ágúst Aron, sem á eitt barn. 2) Páll Tómas Viðarsson, f. 18. apríl 1966, maki Björg Hreinsdóttir, dóttir þeirra er Dagbjört Eva.

Viðar starfaði sem verkstjóri í vöruhúsi á vellinum.

Hann stundaði badminton hjá TBR og hreppti nokkra Íslandsmeistaratitla.

Útför Viðars fer fram frá Keflavíkurkirkju klukkan 13 í dag, 5. mars 2024.

Elsku afi.

Það er svo óraunverulegt að þú sért farinn og þung sorgin sem fylgir því að geta ekki hitt þig aftur og tekið spjallið um daginn og veginn, þú varst mér sem besti vinur og algjör klettur í lífi mínu. En það að horfa til baka og líta á allt sem við höfðum og allar þær minningar sem við áttum saman og munu lifa um ókomna tíð fyllir mann af svo miklu þakklæti að hafa fengið allan þennan tíma með þér. Afi, þú varst kletturinn okkar allra, þú varst alltaf tilbúinn að hlusta, þú varst alltaf til staðar, sýndir öllu áhuga á því sem við vorum að gera hverju sinni og studdir. Alveg frá því að ég fæddist hefur þú verið stór hluti af lífi okkar systkina og vorum við svo heppin að eiga allar þessar ömmu- og afahelgar í Suðurgarðinum í Keflavík þar sem við áttum okkar kósýhelgar í ömmu- og afadekri. Hjá þér og ömmu voru allir alltaf velkomnir og öllum tekið svo vel enda þekktir þú nánast alla okkar vini frá barnæsku. Þú hafðir miklar áhyggjur af því að ég ætlaði aldrei að ná mér í neina konu þegar ég mætti aðeins með vini í heimsókn en ég gerði betur og fann þessa æðislegu konu og bætti við fjórum krílum í barnabarnabarnahópinn sem öll voru svo heppin að fá að kynnast langafa sínum. Þú sýndir svo mikið hvað þér var annt um öll börnin í kringum þig og lést þig aldrei vanta á sýningar eða keppni á meðan heilsan leyfði. Það er svo ótrúlega margt sem þú hefur kennt mér og þvílíkur herramaður sem þú varst, þú varst alltaf flottastur þegar maður fylgdist með þér hafa þig til fyrir fundi eða aðra viðburði, hvað þú varst alltaf vel til hafður og ég var alltaf svo montinn af þér og ömmu. Þú og amma áttuð alveg einstaklega fallegt og traust hjónaband og þú gast svoleiðis toppað þig á hverju einasta ári þegar kemur að rómantíkinni, þið voruð svo heppin að hafa hvort annað. Takk fyrir allt, elsku afi minn. Þín verður sárt saknað og mun minning þín skína bjartast í hjörtum okkar allra.

Hjörtur Viðar Guðmundsson.

Þín verður sárt saknað elsku afi minn. Gullfallega sál sem var alltaf til staðar fyrir okkur.

Það er svo ljúft að hugsa til allar góðu minningarnar með þér og er ég mjög þakklát fyrir hversu margar þær eru og að langafa börnin hafi fengið að kynnast þér svo vel. Þú hafðir alltaf svo mikin áhuga á öllu sem við vorum að gera og alltaf svo stoltur af okkur. Mættir á alla íþróttaviðburði hjá mér og svo á fimleikasýningar hjá barnabarna börnunum. Fylgdist vel með hvernig þeim gengur í körfuboltanum. Komst svo reglulega í heimsókn í búðina mína sem þú varst svo stoltur af. Enda varst þú orðin einn af best klæddu karlmönnunum á Suðurnesjum eftir allar heimsóknirnar í Marion.

Það var alltaf stutt í hlátur með þér enda með bestu „afa brandarana“!

Fannst alltaf svo ljúft að hlusta á þig spila á trompetið sem þú hafðir svo mikla ástríðu af. Og þú ætlaðir að æfa þig í sumar og spila í brúðkaupinu okkar Helga sem þú varst orðin svo spenntur að mæta í. Ég mun sakna þin svo mikið þennan dag en ég tek frá sæti fyrir þig og ég veit að þú verður með okkur í anda. Þér fannst voða fyndið og gaman að því að ég hafi nælt mér í mann frá Akranesi sem spilaði badminton eins og þú gerðir svo vel! Þú og Helgi gátuð spjallað heilmikið saman með ykkar sameiginlega áhugamál. Þakklát að hann hafi fengið að kynnast þér og þeim góða manni sem í þér bjó.

Æskuminningarnar voru góðar. það var alltaf svo gott að koma til ömmu og afa í Keflavík. Svo mikil hlýja og ást sem tók á móti manni heima hjá ykkur. Var heppin að fá ömmu og afa helgar aðra hvora helgi. Þetta var minn griðarstaður þar sem ég gat verið ég sjálf og talað um allt og ekkert. Og það besta sem gat komið fyrir mig var að flytja til Keflavíkur og geta verið til staðar fyrir ykkur síðustu ár eins og þið voruð til staðar fyrir mig mín fyrstu ár. Mig er búið að kvíða þessum degi lengi að þurfa að kveðja þig elsku afi minn þú ert búin að vera mín stoð og stytta í gegnum lífið. En það er svo margt sem þú hefur kennt mér sem mun nýtast mér í gegnum lífið og fyrst og fremst er það kærleikur, virðing og trú.

Takk fyrir allt elsku afi ég mun alltaf halda minningu þinni lifandi og ég veit að þú munir halda áfram að passa uppá okkur. Og ég lofa að passa uppá Ömmu fyrir þig sem þú elskaðir svo mikið og sýndir mér að sönn ást er til. Svo mikil vinátta, virðing og umhyggja alltaf á milli ykkar.

Minning þín mun lifa í hjörtum okkar elsku afi.

Þín

María Ósk.

Maja og Viðar. Þessi orð hafa ávallt haft yfir sér ævinýrablæ í lífi okkar systra. Persónur í leikjum bernsku okkar fengu nöfnin Maja og Viðar, ekki síst í Barbie-leik. Enda voru þau Maja og Viðar glæsilegust, skemmtilegust og fallegust jafnt að utan sem innan. Maja móðursystir okkar og Viðar maðurinn hennar hafa verið órjúfanlegur hluti af lífi okkar með kærleika sínum, jákvæðni og gleði. Þó að við ættum dásamlega foreldra voru þau okkur einnig sem foreldrar. Mikill samgangur og vinátta hefur alltaf verið á milli fjölskyldnanna og náin tengsl. Heimili þeirra og faðmur hefur ávallt verið okkur opinn. En nú sér Maja okkar á bak Viðari sínum, Viðar er fallinn frá. Hann var búinn að segja að hann ætti þá ósk að fara á undan henni. Hann fékk þá ósk uppfyllta.

Við höfum oft heyrt söguna af því þegar Viðar var búinn að taka eftir stúlkunni föngulegu í garðinum í Barmahlíð 55, þar sem hin rúmlega tvítuga María bjó hjá foreldrum sínum. Viðar bjó þá í næstu götu eða í Stigahlíðinni. Eitt kvöldið tók móðir hans eftir því að stúlkan var á leið á dansleik í Lídó sem var hinum megin við Miklubrautina. Viðar dreif sig á staðinn og bauð Maju upp í dans. Þar með hófst lífsdansinn þeirra bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Maja og Viðar voru miklir dansarar og æfðu dans árum saman hjá Heiðari Ástvaldssyni og voru lengi í dansklúbbi með fleiri hjónum. Auðvitað voru þau glæsilegust á gólfinu. Nú dansa þau ekki meir að sinni.

Viðar var mjög hæfileikaríkur maður. Auk þess að vera dansari mikill spilaði hann á trompet og fleiri hljóðfæri og var í lúðrasveitum á yngri árum. Hann átti nokkur hljóðfæri og spilaði gjarnan fyrir okkur. Hann var jafnframt mikill íþróttamaður og spilaði og keppti í badminton árum saman. Viðar varð margfaldur Íslandsmeistari í tvíliðaleik karla í badminton.

Hann hlaut gullmerki Badmintonsambands Íslands árið 1997. Hann tók ríkulegan þátt í uppbyggingu starfsins hjá TBR, m.a. við byggingu hússins í Laugardalnum. Þegar þau Maja fluttu til Keflavíkur þá byggði hann upp badmintonstarf fyrir ungmenni þar. Viðar var jafnframt virkur félagi í Frímúrarahreyfingunni.

En Viðar var umfram allt mikill öðlingur og vandfundinn er eins vandaður maður og Viðar. Þau voru einstaklega samhent hjón, þau Maja og Viðar. Ástin sem þau báru hvort til annars og virðingin fór ekki fram hjá neinum. Þau voru sem eitt í 63 ár.

Við munum sakna gleðinnar sem fylgdi Viðari, hlátursins, húmorsins og græskulauss grínsins. Við munum sakna kærleikans, umhyggjunnar og tryggðarinnar. Við munum varðveita minningu hans og halda á lofti því sem hann stóð fyrir. Við munum umvefja elsku Maju okkar. Minning þín verður ljós í lífi okkar elsku Viðar. Heimurinn er fátækari án þín. Takk fyrir allt.

Sigríður Rafnsdóttir, Margrét Júlía Rafnsdóttir.

Viðar Guðjónsson var eiginmaður ömmusystur okkar, Maríu Guðmundsdóttur. María, eða Mæja, eins og hún er alltaf kölluð, er yngri systir ömmu okkar heitinnar, Kristínar Guðmundsdóttur.

Þrátt fyrir að Mæja og Viðar séu ekki amma okkar og afi má eiginlega segja að þau hafi alltaf komið fram við okkur og sinnt okkur eins og þau væru það. Þau gáfu okkur alltaf jóla- og afmælisgjafir og mættu alltaf í öll afmæli og aðra fögnuði svo lengi sem þau höfðu heilsu til – alltaf með bros á vör og þá hlýju, bjartsýni og náungakærleika sem var og er svo djúpstæður í þeim báðum.

Viðar var einstaklega góður, hlýr og glaðlyndur maður. Við munum aldrei gleyma hans einstaklega eftirminnilega hlátri. Í boðum, þar sem var mikill kliður eins og svo oft er, var alltaf hægt að heyra í Viðari þegar hann skellti upp úr á sinn einstaka máta. Eiginlega má segja að hlátur hans hafi einkennt öll fjölskylduboð okkar frá því að við munum eftir okkur.

Það var alltaf mikið tilhlökkunarefni fyrir okkur að koma í heimsókn til Mæju og Viðars í Keflavík, hvort sem tilefnið var jólaboð, afmæli eða eitthvað annað. Brauðtertur, smákökur, marengstertur og heitt súkkulaði voru iðulega á boðstólum ásamt öðrum kræsingum.

Það er okkur öllum innblástur í okkar hjónaböndum hvað Mæja og Viðar hafa elskað hvort annað mikið allt sitt líf. Hvað þau hafa sinnt hvort öðru og komið fram hvort við annað af einstakri virðingu og aðdáun. Þau hafa ásamt öðrum kennt okkur hvað það er mikilvægt að rækta fjölskyldutengslin, sjá það góða í fólkinu okkar og hafa gaman af lífinu. Það ættu allir að reyna að vera eins og Mæja og Viðar.

Við munum aldrei gleyma þér elsku Viðar. Þín verður sárt saknað.

Harpa Steinunn Steingrímsdóttir, Rafn Steingrímsson, Orri Steinar Steingrímsson.

Viðar Guðjónsson, badmintonleikmaður Tennis- og badmintonfélags Reykjavíkur (TBR) til margra áratuga, er látinn, 86 ára gamall. Viðar lék badminton á vegum félagsins og komst í fremstu röð keppenda á Íslandi. Hann var góður einliðaleiksspilari og komst m.a. í úrslit á Íslandsmóti, en bestum árangri náði hann í tvíliðaleik. Viðar varð Íslandsmeistari í tvíliðaleiknum 1967, 1968 og 1971 ásamt félaga sínum Jóni Árnasyni, sem er látinn. Þá unnu þeir félagarnir til margra gull- og silfurverðlauna saman á öðrum badmintonmótum.

Æfingar TBR á þessum árum í badminton fóru fram í mörgum íþróttahúsum borgarinnar. Má nefna helst Valsheimilið, Álftamýrarskóla og svo Laugardalshöll eftir að hún var tekin í notkun.

Ég kynntist Viðari á þessum æfingum og varð þeirrar „ánægju“ aðnjótandi að vera oft og einatt „tekinn í bakaríið“ af þessum karli, sem mér fannst hann þá vera. Svo harður sem Viðar var á leikvellinum, þá var hann ljúfmenni hið mesta utan vallar. Hann var manna kátastur, hló smitandi hlátri og undirtók þá hláturinn í öllu húsinu. Hann hafði þægilega nærveru og var jafnan á léttu nótunum í allri umræðu. Og þau hjónin, Viðar og María, voru flott saman. Þau mættu bæði á fjölmargar TBR-hátíðir, uppábúin og dragfín. Þá geislaði af þeim glæsileikinn.

Viðar hlaut gullmerki TBR 1978 fyrir afrek sín á keppnisvellinum og svo var hann gerður að heiðursfélaga TBR 2004.

Viðar flutti til Keflavíkur 1988 enda starfaði hann þar um árabil. Þar tók hann þátt í uppbyggingarstarfi Badmintondeildar Keflavíkur í mörg ár, bæði sem stjórnarmaður og þjálfari. Eftir að Viðar flutti úr Reykjavík fækkaði ferðum hans til okkar í TBR. Samt kom hann stundum í kaffi og þá var spjallað vítt og breitt um badmintonið, gamla daga og margt annað sem okkur datt í hug. Nú er þessum ferðum lokið. Ég sakna góðs vinar og félaga. Fjölskyldu Viðars færi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigfús Ægir
Árnason.