Sviðsljós
Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Ég held að það blasi við að í mörgum tilvikum verði ríkið gert afturreka með þessar kröfur, en þá þarf auðvitað að halda uppi vörnum. Þess utan eru önnur eignarréttindi augljós þarna, eyjarnar hafa verið nýttar til beitar og annars. Ég held að það sé ekki mikil yfirsýn yfir það hjá þeim sem þessar kröfur gera, hvað verið er að gera kröfu í,“ segir Gunnar Ingi Jóhannsson hæstaréttarlögmaður í samtali við Morgunblaðið, en hann ræddi kröfugerð ríkisins í eyjar, hólma og sker á fundi í Bændasamtökunum í gær.
Gunnar Ingi fór yfir það á fundinum hvað felst í kröfugerð ríkisins, hvaða gögnum bændur geti safnað til að styðja kröfur sínar um eignarréttindi o.fl. Bændasamtökin álíta að flestir bændur sem land eiga að sjó muni þurfa að bregðast við kröfum ríkisins.
Eignarréttur jarða skýlaus
Gunnar Ingi segir ljóst að kröfugerðin sé mjög umfangsmikil og að margir landeigendur sem áður hafa átt aðild að óbyggðamálum verði nú kallaðir að borðinu á ný.
„Það hlýtur að vera krafa margra landeigenda að hinar ýmsu eyjar og sker tilheyri þeim jörðum sem þeir eiga og hafa jafnvel verið til umfjöllunar hjá nefndinni áður,“ segir Gunnar Ingi og nefnir að í mjög mörgum tilvikum sé eignarréttur jarða skýlaus á eyjum, hólmum og skerjum.
„En þessar kröfur eru gerðar með fremur einföldum hætti, þ.e.a.s. það er gerð krafa í allar eyjar og sker við landið fyrir utan örfáar sem taldar eru upp. Rökstuðningurinn er með þeim hætti að ríkið telur sig ekki geta gert þetta með öðrum hætti og má nánast ráða það af henni að þetta sé gert til einföldunar fyrir ríkið. En fyrir vikið hlýtur ríkið að vera að gera kröfur í eitthvað miklu meira en það á tilkall til,“ segir Gunnar Ingi.
En hvers á fólk að gjalda sem verður að grípa til varna til að sanna eignarrétt sinn á því sem það á?
„Þetta hefur verið gegnumgangandi og ríkið hefur ekki endilega riðið feitum hesti frá þessum málum undanfarið og það er ljóst að í mörgum tilvikum er verið að gera kröfur sem aldrei hefði átt að gera. Í þessu tilviki má segja að það blasi við,“ segir Gunnar Ingi og vísar til þess að svo virðist sem ríkið geri kröfu til allra eyja og skerja nema aðrir geti sýnt fram á skýlausan eignarrétt sinn á þeim.
Hlutlaus úrskurðaraðili
Óbyggðanefnd á að vera hlutlaus úrskurðaraðili í þessum málaflokki og ákveður sjálf hvaða svæði eru tekin fyrir, í þessu tilviki eyjar og sker sem eru síðasti hluti þess lands sem ekki hefur enn verið tekinn fyrir. Að svo gjörðu er ríkinu boðið að lýsa sínum kröfum sem það hefur nú gert.
Ríkið ákvað að gera kröfu um að allar eyjar og sker sem upp úr standa á stórstraumsfjöru séu eign þess, nema í undantekningartilvikum sem eru sérstaklega nefnd. Síðan er þeim sem telja sig eiga réttindi boðið að lýsa sínum kröfum og er sú vinna að hefjast. Síðan á óbyggðanefnd að afla gagna og leggja mat á málin og skera úr um hvar eignarrétturinn liggur, þ.e. tekur afstöðu með öðrum hvorum málsaðilanum. Séu menn ekki sáttir við þá niðurstöðu hafa þeir sex mánuði til að höfða dómsmál en fjöldi slíkra mála hingað til er um hundrað talsins.
Það sem kallað er „nauðsynlegur“ kostnaður einstaklinga og lögaðila vegna hagsmunagæslu er greitt úr ríkissjóði samkvæmt mati óbyggðanefndar sem þarf þó ekki að þýða að allur kostnaður verði greiddur. Komi mál til kasta dómstóla stendur gjafsókn til boða, en ekki er víst að hún nái til alls kostnaðarins.
Fáar eyjar undanskildar
Gunnar Ingi segir ekki margar eyjar og sker undanþegin í kröfu ríkisins.
„Á Breiðafirði eru þær 26 en eins og menn vita eru eyjarnar þar óteljandi. Síðan eru þetta ein til tvær eyjar fyrir hverjum landshluta sem eru undanskildar,“ segir hann.
Af eyjum úti fyrir Reykjavík segir Gunnar Ingi einungis Engey og Viðey undanskildar kröfu ríkisins, en gerð sé krafa um að allar aðrar eyjar í námunda við þær séu þjóðlenda. Þar má m.a. nefna Akurey, Þerney og Lundey. Í Skagafirði er gerð krafa í Drangey en ekki Málmey. Í Ísafjarðardjúpi eru bæði Æðey og Vigur undanþegnar kröfunni, en gerð krafa í Borgarey.
Þá segir hann ríkið ásælast fjölda eyja í Borgarfirði, þ. á m. Brákarey sem þó er landtengd Borgarnesi. Á Vopnafirði eru þrír hólmar utan við hafnarmynnið sem tengjast höfninni og varnargarðar hafa verið lagðir út í, en eigi að síður sé gerð krafa í þá, að sögn Gunnars Inga.
Loks má nefna að ríkið lætur ekki þarna við sitja. Nýlega var frá því sagt í Morgunblaðinu að ríkið ásældist 11 hektara túnbleðil í landi Brekku í Borgarfirði, fyrir þá sök eina að því er talið er, að túnið kallast Kerlingarhólmi.