Jón Daníelsson fæddist á Blönduósi 5. mars 1949 og ólst upp á Tannstöðum í Hrútafirði. „Mamma var úr Blöndudalnum og taldi sig sennilega öruggari á Blönduósi. Pabbi átti bara vörubíl og fékk lánaðan jeppa hjá bræðrunum á Tannstaðabakka til að sækja konuna og frumburðinn. Mér var sagt að ég hefði verið hafður í smjörlíkiskassa í þessum fyrsta bíltúr ævinnar. Ferðin tókst giftusamlega en pabbi sagði mér seinna að sér hefði ekki liðið vel á leiðinni yfir Hrútafjarðarháls, þegar þar reyndist komin blindhríð.“
Jón byrjaði snemma að hjálpa til við bústörf og byggingar, enda var faðir hans á þessum tíma að húsa jörðina upp af miklum krafti. „Hann byrjaði á fjárhúsi 1955 og dubbaði mig þá upp í handlangara, sex ára gamlan. Næstu árin risu fleiri byggingar og ég var eiginlega orðinn útlærður múrari þegar ég byrjaði í Reykjaskóla haustið 1964.
Annars varð skólagangan kannski dálítið skrautleg. Ég ákvað að taka fjórða bekk utan skóla og fékk mér vinnu við kennslu á Laugarbakka. Mig langaði sem sé til að eignast bíl. Launin voru þó ekkert svimandi há og til viðbótar gekk mér aldeilis ljómandi vel að eyða þeim. Ég var þess vegna nánast alveg blankur þegar ég fór til Akureyrar um vorið til að taka prófin.
En mér tókst nú samt að kaupa bíl. Það var Ford Junior árgerð 1946, og eigandinn féllst á að láta hann fyrir tvo brúsa af sénever að viðbættum ökutúr. Við skrifuðum undir, fórum í ríkið, þar sem ég, talsvert undir löglegum aldri, fjárfesti í umsömdu kaupverði og síðan keyrði ég fyrrverandi eiganda og tvo vini hans víðs vegar um Eyjafjarðarsvæðið meðan þeir voru að drekka andvirðið. Að því loknu skilaði ég þeim öllum til síns heima og var orðinn bíleigandi, bara nokkuð rogginn.
Ég tók 5. bekk í MR en sneri norður aftur og útskrifaðist með gömlu bekkjarfélögunum 1970. Ég var heldur trassafenginn þennan síðasta vetur og mátti þakka fyrir stúdentsprófið, enda var meðaleinkunnin ekki beinlínis til fyrirmyndar.“
Jón hefur fengist við ýmislegt á starfsævinni en lengst af þó einkum blaðamennsku og þýðingar. „Ég vann líka margvísleg önnur störf og býsna ólík, einkum framan af ævinni. Ég hef verið hákarlasjómaður, kennari, kokkur á togara, sauðamaður, skólastjóri, strætóbílstjóri, leigubílstjóri, búandkarl, háseti, bókavörður og sitthvað fleira. Ég get því með fullum sanni kallað mig fyrrverandi hitt og þetta. Síðustu 25 árin hef ég aðallega fengist við þýðingar. Bækurnar eru orðnar nokkuð margar, en skemmtilegast hefur mér fundist að þýða greinar í Lifandi vísindi, sem ég hef nú gert í rúman aldarfjórðung. Það starf hefur líka orðið til þess að ég lærði á endanum mestallt það sem ég sveikst um að læra í menntaskóla. Og það var nokkuð mikið.“
Drjúgur hluti af tíma Jóns hefur líka farið í félagsstörf af ýmsum toga. „Mér hefur stundum fundist það vera einhvers konar álög á mér að geta aldrei mætt á fund án þess að vera settur í einhverja stjórn, nefnd eða ráð. Aðeins einu sinni hef ég þó lent í kosningu. Það var í Íslendingafélaginu í Stokkhólmi þar sem ég var settur hálfnauðugur í formannsframboð, en fólkið sem atti mér út í þetta sá til þess að ég hafði sigur með 57 atkvæðum gegn 7. Megnið af fullorðinsárunum hef ég verið í einhvers konar félagsstörfum og það hefur mér þó lærst á þessu stússi að vinna er ævinlega miklu skemmtilegri ef hún er ólaunuð. Það er fátt sem veitir manni meiri ánægju en sjálfboðaliðastörf.“
Nú titlar Jón sig opinberan starfsmann án vinnuskyldu, sem hann segir mun virðulegri titil en ellilífeyrisþegi.
Fjölskylda
Eiginkona Jóns er Marion McGreevy hársnyrtimeistari frá Norður-Írlandi, f. 27.9. 1954. Þau eru nú búsett í Reykjavík.
Börn Jóns með fyrstu konu sinni, Jónínu Rannveigu Snorradóttur f. 18.3. 1951, d. 20.2. 2008, eru: 1) Daníel Snorri, f. 21.3. 1971, forritari. Maki: Hulda Dagmar Ragnarsdóttir, f. 20.7. 1979, gjörgæsluhjúkrunarfræðingur. Dætur þeirra eru Eva Jónína, f. 2011, og Eydís Björk, f. 2016. 2) Sigurbjörg Jónsdóttir, f. 23.3. 1975, kvikmyndaklippari og Edduverðlaunahafi 2014.
Dóttir Jóns með Ásdísi Baldvinsdóttur, f. 11.12. 1951, er 3) Sara Jónsdóttir, f. 18.2. 1977, starfar í fjármáladeild veitufyrirtækis Álaborgar í Danmörku. Maki: Sigurður Heiðar Helgason, f. 3.10. 1978. Börn þeirra eru Patrik Nói, f. 2008, og Elva Kamilla, f. 2010.
Sonur Jóns með annarri konu sinni, Steinunni Aldísi Helgadóttur, f. 20.8. 1952, er 4) Börkur Ingi, f. 20.11. 1980, lögmaður. Maki: Björk Varðardóttir kennari, f. 18.9. 1985. Sonur þeirra er Breki Fannar, f. 2021, en fyrir átti Börkur Ingi dótturina Dagrúnu Sól, f. 2000, með Sigrúnu Elvu Ársælsdóttur, f. 7.6. 1980.
Sonur Jóns og Marion er 5) Vilhjálmur Séamus, f. 15.7. 1994, sölumaður. Dóttir hans með Natalíu Eniku Scheving er Aþena Marey, f. 2019.
Systkini Jóns: Sigurður Daníelsson, f. 6.11. 1950, d. 9.9. 1995, Ingibjörg Daníelsdóttir, f. 5.6. 1953, fv. starfsmaður Vegagerðarinnar, gift Guðmundi Sigurbirni Einarssyni, fv. sjómanni og bónda, Daníel Sveinn Daníelsson, f. 26.6. 1957, fv. húsasmiður, og Þorgrímur Gunnar Daníelsson, f. 7.1. 1964, sóknarprestur á Grenjaðarstað, kvæntur Mjöll Matthíasdóttur kennara.
Foreldrar Jóns voru hjónin Konkordía Sigurbjörg Þorgrímsdóttir, f. 2.6. 1922 í Brúarhlíð í Blöndudal, d. 2.6. 2005, og Daníel Daníelsson, f. 23.11. 1914 á Tannstöðum, d. 30.7. 2003. Þau bjuggu á Tannstöðum í Hrútafirði í 40 ár, frá 1948 til 1987.