Esjan hefur mikið aðdráttarafl til útivistar og mikill fjöldi fólks gengur á fjallið árið um kring. Ljóst er að á seinasta ári fóru fleiri tugir þúsunda á Esjuna. Samkvæmt teljara Ferðamálastofu fóru samtals 114.295 fram hjá teljara við bílastæðið neðan Þverfellshorns á árinu 2023. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu Skógræktarfélags Reykjavíkur en Esjuhlíðar eru meðal útivistarsvæða sem eru í umsjón skógræktarfélagsins.
Í umfjöllun skógræktarfélagsins segir að flestir hafi farið á einum degi á Esjuna þann 5. júlí í fyrra samkvæmt talningunni eða alls 3.927.
Hafa ber hugfast að talningin gefur ekki nákvæma mynd af fjölda vegfarenda, þar sem teljarinn getur talið sama einstaklinginn oftar en einu sinni ef hann á leið fram og til baka fram hjá teljaranum í sömu ferðinni.
Taldi 606 á einum degi við Vífilsstaðavatn
Fram kemur að mikil umferð var einnig um önnur útivistarsvæði skógræktarfélagsins og má sjá á teljurunum að fólk stundar útivist alla mánuði ársins.
„Garðabæjarmegin Heiðmerkur eru teljarar við Vífilsstaðavatn og Búrfellsgjá. Á fyrrnefnda staðnum fóru um 107 þúsund fram hjá teljara á árinu. Starfsmenn félagsins hafa tekið eftir aukinni umferð fólks á svæðinu, líklega vegna aukinnar byggðar í nágrenninu, svo sem í Urriðaholti. Flest var fólkið föstudaginn 17. mars. Þann dag taldi teljarinn við Vífilsstaðavatn 606 vegfarendur,“ segir í umfjöllun skógræktarfélagsins.
Tekið er fram að við stutta leit á netinu hafi ekki fundist neinn sérstakur viðburður sem gæti skýrt hvers vegna svona margir voru á ferðinni þennan dag.
„Kannski var einfaldlega gott veður þennan daginn, farið að birta aftur eftir verstu vetrarmyrkrin, og margt fólk sem langaði að fara í gönguferð í náttúrunni,“ segir ennfremur á vef skógræktarfélagsins.
Á göngu um Búrfellsgjá allan ársins hring
Einnig eru birtar tölur um fjölda þeirra sem ganga í Búrfellsgjá. Teljari þar taldi ríflega þrjátíu þúsund vegfarendur á seinasta ári.
„Í raun voru þeir eitthvað fleiri, þar sem mælirinn bilaði um nokkurn tíma. Að meðaltali eru það því hátt í 100 manns sem ganga í Búrfellsgjá á hverjum degi allt árið. Að vetrarlagi er vegurinn að Búrfellsgjá oft lokaður við Maríuhella. Fólk sem teljarinn skráir hefur því gengið talsverða leið. Samt er greinilegt að fólk gengur á svæðinu allan ársins hring,“ segir í frétt Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, segir að umferð fólks um útivistarsvæðin fari vaxandi.
„Við sem dveljum í Heiðmörk alla daga upplifum að ásókn í útivist og lýðheilsugildi útivistar er sífellt að aukast,“ segir hún. omfr@mbl.is