Lögregla Innbrot hafa verið framin í geymslur um allt höfuðborgarsvæðið.
Lögregla Innbrot hafa verið framin í geymslur um allt höfuðborgarsvæðið. — Morgunblaðið/Eggert
Full ástæða er fyrir fólk til að huga vel að læsingum á geymslum í fjölbýlishúsum og velja sér aðra staði til að geyma verðmæti. Þetta er mat Skúla Jónssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en Morgunblaðinu hafa borist …

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Full ástæða er fyrir fólk til að huga vel að læsingum á geymslum í fjölbýlishúsum og velja sér aðra staði til að geyma verðmæti. Þetta er mat Skúla Jónssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu en Morgunblaðinu hafa borist ábendingar um tíð innbrot í geymslur fjölbýlishúsa að undanförnu. Geymslur í nýjum fjölbýlishúsum virðast sérstaklega vinsælar hjá þjófum enda er algengt að fólk sé flutt inn áður en frágangi húsanna er lokið. Því kann aðgengi að vera auðveldara en ella og eftirliti ábótavant. Meðal nýlegra dæma eru innbrot í nýbyggingar við Mýrargötu í Reykjavík, Sunnusmára í Kópavogi og fjölbýli í Hlíðarendahverfinu.

Skúli segir að innbrot séu ekki fleiri í ár en verið hefur en nóg sé þó um þau. „Við erum að fást við innbrot af ýmsu tagi, á heimili, í bíla og á nýbyggingarsvæði. Og svo eru það þessi innbrot í geymslur fjölbýlishúsa. Við höfum séð þetta um allt höfuðborgarsvæðið.“

Hann segir að alls konar útgáfur séu af frágangi í geymslum. Sums staðar eru timburveggir með hurðum en annars staðar eru hlaðnir veggir með læstum hurðum. Þjófarnir noti tæki til að þvinga upp hurðirnar. „Oft áttar maður sig ekki á því hvað þjófurinn hefur verið að gera. En þó geta stundum verið verðmætir hlutir þarna sem menn ættu að hugsa sér að geyma með öðrum hætti. Fólk ætti líka að vera með góðar læsingar.“

Skúli segir að allur gangur sé á því hvort takist að upplýsa umrædd innbrot. „Við sjáum það að eftirlitsmyndavélar sem uppfylla skilyrði Persónuverndar hafa reynst mjög vel og hafa líka fælingarmátt. Þær gefast vel þegar við fáum myndir af þjófunum.“

Innbrot

Morgunblaðið hefur fengið ábendingar um tíð innbrot í geymslur á höfuðborgarsvæðinu undanfarið.

Lögregla hvetur fólk til að geyma verðmæti annars staðar og huga að læsingum.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon