Ólíkar áherslur stjórnmálaflokka þurfa ekki að koma á óvart og ættu út af fyrir sig frekar að vera fagnaðarefni, enda auka þær val kjósenda. Þó eru vonbrigði að sjá að flokksfundur VG um helgina sá ástæðu til að lýsa „áhyggjum af aukinni áherslu á einkarekstur í heilbrigðiskerfinu, kerfi sem á ekki að vera gróðalind fárra rekstraraðila heldur sameiginlegt velferðarkerfi okkar allra“.
Þarna er ályktað aftan úr grárri forneskju og ekkert tillit tekið til reynslunnar af einkarekstri í heilbrigðisþjónustu eða samanburði á einkarekstri og opinberum rekstri á þessu sviði.
Skammt er til dæmis síðan greint var frá könnun á ánægju skjólstæðinga heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu með þá þjónustu sem þar er í boði. Þar fer ánægja almennt minnkandi, sem ætti að vera áhyggjuefnið, en athygli vekur að einkareknu heilsugæslustöðvarnar raða sér í fjögur efstu sætin í könnuninni. Furðulegt er að nokkrum dögum eftir að slík könnun er birt, og ekki sú fyrsta sem sýnir ánægju með einkarekstur á heilbrigðissviði umfram ríkisreksturinn, skuli stjórnmálaflokkur telja ástæðu til að álykta sérstaklega gegn einkarekstri.
Ekki er langt síðan Vinstri græn réðu heilbrigðisráðuneytinu. Þá var þeirri stefnu sem lýst er í ályktuninni fylgt mjög markvisst og með slæmum afleiðingum. Þetta birtist til að mynda í því að ríkið vildi ekki semja við einkaaðila hér á landi um brýnar aðgerðir, meðal annars liðskiptaaðgerðir, en sendi sjúklinga þess í stað utan þó að það kostaði margfalt meira. Afleiðingarnar voru lítil afköst, langir biðlistar og mikil óþægindi og jafnvel þjáningar fyrir sjúklinga.
Kreddur verða að víkja til að hægt sé að ná árangri og á það við í heilbrigðiskerfinu eins og annars staðar. Skilning á þessu mátti sjá í aðsendri grein hér í blaðinu í liðinni viku þar sem Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði áherslu á að beita þyrfti þeim ráðum sem dygðu í heilbrigðismálum, þar með talið einkarekstri, sem hún benti á að hefði gefist vel. Séu þingmenn og stjórnmálaflokkar opnir fyrir lausnum sem duga er hægt að ná árangri í heilbrigðismálum, stytta biðlista og bæta þjónustu. Leið VG felur aðeins í sér aukin útgjöld en lakari þjónustu.