Progg Gunnar Theodór Eggertsson féll fyrir sænsku tilraunarokki og nýtir það í skáldsögunni Vatnið brennur.
Progg Gunnar Theodór Eggertsson féll fyrir sænsku tilraunarokki og nýtir það í skáldsögunni Vatnið brennur. — Morgunblaðið/Eggert
Rithöfundurinn og tónlistarmaðurinn Gunnar Theodór Eggertsson hóf rithöfundarferil sinn með hryllilegri smásögu, Vetrarsögu, sem kom út í sérhefti Mannlífs árið 2005, og hlaut fyrir Gaddakylfuna, fyrstu verðlaun í hryllingssmásagnakeppni Hins íslenska glæpafélags

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Rithöfundurinn og tónlistarmaðurinn Gunnar Theodór Eggertsson hóf rithöfundarferil sinn með hryllilegri smásögu, Vetrarsögu, sem kom út í sérhefti Mannlífs árið 2005, og hlaut fyrir Gaddakylfuna, fyrstu verðlaun í hryllingssmásagnakeppni Hins íslenska glæpafélags. Frá þeim tíma hefur hann skrifað bækur fyrir börn og fullorðna, með hryllilegu ívafi, en lengi langað að fara alla leið að eigin sögn og skrifa hryllingsskáldsögu fyrir fullorðna. Nýjasta bók hans, Vatnið brennur, er einmitt hreinn hryllingur kryddaður sænskri þjóðlagasýru.

Gunnar hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin 2008 fyrir fyrstu bók sína, Steindýrin, og var svo tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2015 fyrir bókina Drauga-Dísa, sem sagði frá þeim Birni sem elst upp á Suðurlandi fyrir 300 árum og Dísu sem býr í nútímanum. Í bókunum um Dísu og Björn, sem urðu þrjár, sótti Gunnar innblástur í íslenskar þjóðsögur, sérstaklega í fyrstu bókinni, og þann hrylling sem þar er að finna. Á síðasta ári kom út þríleikur sem Gunnar nefnir Furðufjall, en fyrsta bókin, Nornaseiður, kom út 2021, þá Næturfrost 2022 og loks Stjörnuljós í fyrra, en í þeim þríleik eru einmitt skuggalegir hlutir á sveimi.

Í viðtali í Dagmálum segir Gunnar að hann sé nýkomin úr ferð um landið í verkefninu Skáld í skólum, þar sem höfundar heimsækja skólana til að fjalla um bókmenntir af ýmsu tagi. „Í þeim ferðum hef ég verið að tala nákvæmlega um þetta, en ég segi oft við krakka hvað þau séu heppin hvað það séu margir höfundar að skrifa fantasíur og hrylling fyrir börn og unglinga í dag. Það var ekki raunin þegar ég var strákur, en ég sótti mikið í hrylling og vildi lesa þannig bækur. Ég uppgötvaði það svo einhvern tímann að ég gat farið í þjóðsögurnar og þar voru þessar svæsnu sögur. Í ferðinni núna í skóla las ég brot úr sögunni um Vilfríði Völufegri, þar sem verið er að misþyrma ungbörnum, limlesta þau og fleygja þeim út um glugga og ásaka Vilfríði móður þeirra um að vera mannæta. Öllum börnunum og kennaranum brá hræðilega við að heyra þetta, en ég benti þeim á að fremst í bókinni sem ég var að lesa upp úr stóð að ekki væri til ákjósanlegra lesefni fyrir börn og unglinga en ævintýrin í þessari bók þar sem búið var að taka út allt hrottalegt.“

- Hvað var það sem heillaði þig við hryllinginn sem krakka?

Stóru spurningarnar um lífið og dauðann

„Ég held að það hafi verið eitthvað spennandi af því það var bannað, en það er líka eitthvað við stóru spurningarnar um lífið og dauðann. Ég held að það sé stór hluti af því af hverju maður sækir í þetta og líka hugmyndir um hvað er satt og ekki satt um heiminn, og áhugi á því sem er yfirnáttúrulegt og hvort það er til eitthvað sem foreldrar og samfélagið vilja ekki segja frá. Svo er það dauðinn, maður er alltaf óbeint og beint að hugsa um hann alveg frá því að maður er lítill. Og illskan sem getur birst börnum í fréttum og í samfélaginu og á skólalóðinni.“

Titill nýútkominnar bókar Gunnars, Vatnið brennur, vísar í ímyndaða plötu sænsks þjóðlagatvíeykis sem kemur út á áttunda áratug síðustu aldar og ber með sér hrylling sem kemur smám saman í ljós. Segja má að sagan hefjist á steinöld í Svíþjóð, þ.e. um 6.000 f.Kr., staldri við á miðöldum, komi síðan við í Stokkhólmi á áttunda áratugnum og nái til Íslands á okkar tímum, en taki líka smáskref inn í framtíðina. Aðalsögupersóna bókarinnar er raftónlistarkonan Gríma, sem kemst í tæri við plötuna Vatnið brennur í Neskaupstað, en þar er hún stödd til að spila á Eistnaflugi.

Sænskt progg og tilrauna- og þjóðlagakennd sýra

Gunnar rekur aðdraganda bókarinnar svo að þegar hann fluttist til Svíþjóðar um tíma fyrir nokkrum árum kynntist hann sænskri proggtónlist, tilrauna- og þjóðlagakenndu sýrurokki, og heillaðist svo af henni að fátt annað komst að um tíma. „Ég dett oft ofan í smáatriðin og þegar ég fór að skoða þennan heim, las mér til og skoðaði myndir, fór að myndast saga um einhvern náunga sem var á sveimi í þessum veruleika með einhvers konar leyndarmál eða eitthvað á bakinu. Síðan samhliða því saga af einhverjum sem var að uppgötva þessa músík, svolítið eins og ég. Þaðan kom síðan hinn hlutinn af bókinni, íslenska samtímakonan, raftónlistarkonan, sem er að uppgötva plötuna og sogast inn í heiminn.

Það er mikil hefð í bókmenntum og hryllingssögum um forboðnu bókina eða hlutinn – ef þú lest of mikið af þessu missirðu vitið eða opnar einhvern galdur fyrir umheiminn.“

Gunnar segist hafa gengið með söguna í fimm ár eða svo, frá því að hann byrjaði að hlusta á sænska proggið. „Ég reyni alltaf að vera með nokkur verkefni í einu, það er þægilegt að geta hoppað á milli þannig að hún var að malla hægt og rólega á bak við tjöldin á meðan ég skrifaði þríleikinn um Furðufjall.“

Kaflaskiptingar í bókinni minna á hljómplötu, A1, A2 og svo framvegis, og Gunnar segist hafa haft hljómplötu í huga þegar hann fór að skrifa bókina. „Um tíma gerði ég meira að segja tilraun með það að maður gæti hoppað á milli kafla og lesið í þeirri röð sem maður vildi, en það var of flókið, kannski full tilraunakennt. Það er ákveðinn hluti af þessu að skáldsagan sé sett fram svolítið eins og plata, svolítið eins og tónlist, það er alltaf verið að vísa í ákveðin stef og það er ákveðin hringrás í gangi, það er ris á milli hluta og líka náttúrlega mikið verið að vinna með stigmögnun, sem er ákveðið bergmál frá laginu sjálfu á plötunni.“

- Það skín sterkt í gegn hvað þú hefur gaman af tónlist, því þú skrifar þannig um tónlistina.

„Það er svolítið erfitt að skrifa um tónlist, eins og þú þekkir, hvernig maður á að fara að því að lýsa henni, en ef þú tengir við það tek ég því sem miklu hrósi.“

Höf.: Árni Matthíasson