Svartsengi Varnargarðar nærri Bláa lóninu á Reykjanesskaganum.
Svartsengi Varnargarðar nærri Bláa lóninu á Reykjanesskaganum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján Jónsson Guðmundur Hilmarsson Auknar líkur eru taldar á eldgosi á Reykjanesskaganum vegna kvikusöfnunar undir Svartsengi. Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells að mati Veðurstofu Íslands og gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við hálftíma.

Kristján Jónsson

Guðmundur Hilmarsson

Auknar líkur eru taldar á eldgosi á Reykjanesskaganum vegna kvikusöfnunar undir Svartsengi. Líklegast er að gos komi upp á svæðinu milli Stóra-Skógfells og Hagafells að mati Veðurstofu Íslands og gæti hafist með mjög stuttum fyrirvara, jafnvel innan við hálftíma.

„Við teljum að það séu allar líkur á að það gerist eitthvað aftur fljótlega og þá sennilega í þessari viku. Það létti ekki á neinum þrýstingi í þessari atburðarás á laugardaginn og við búumst við öðru kvikuinnskoti,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofunni.

Hann segir að meiri líkur séu á eldgosi en kvikuinnskoti eins og var á laugardaginn en óvissuþættirnir séu margir og erfitt að spá hvað gerist.

„Fyrst þetta náði sér ekki á strik á laugardaginn hefur ekki orðið neinn þrýstingsléttir að ráði í Svartsengi. Við megum því alveg búast við því að það gerist eitthvað á næstu dögum. Við höfum alveg haldið í þann möguleika að kvikan gæti læðst upp en líkurnar á því minnka hratt með tímanum.“

Veðurstofa Íslands hefur uppfært hættumat vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Í ljósi þróunar á virkninni frá því á sunnudaginn hefur hættustig verið lækkað á tveimur svæðum, svæði 2 og 3. Hættustig er óbreytt á öðrum svæðum og er hættumatið nú það sama og var í gildi fyrir atburðarás sunnudagsins.

1,3 milljónir rúmmetra

Sérfræðingar hjá Veðurstofunni hafa reiknað út stærð kvikuhlaupsins á laugardaginn.

„Líkanreikningar sýna að það magn kviku sem hljóp á laugardaginn úr Svartsengi yfir í Sundhnúksgígaröðina var um 1,3 milljónir rúmmetra,“ segir í færslu á vef Veðurstofunnar og að sögn Benedikts er þetta magn 1/9 hluti af því sem var þegar gaus 8. febrúar síðastliðinn. Í dag er gert ráð fyrir að magn kviku nái vel yfir neðri mörkin sem miðað er við. Heildarmagn kviku hefur safnast saman í 8 til 13 milljónir rúmmetra í síðustu eldgosum.

„Áður var búið að reikna út að um hálf milljón rúmmetra af kviku safnist fyrir undir Svartsengi á sólarhring. Að öllu óbreyttu verður heildarmagn kviku undir Svartsengi orðið um 9 milljónir rúmmetra í lok dags á morgun, þriðjudag. Í fyrri atburðum hefur kvika hlaupið þegar heildarmagn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi er á bilinu 8 til 13 milljónir rúmmetra. Því eru auknar líkur á nýju kvikuhlaupi og eldgosi þegar því magni hefur verið náð,“ segir í færslunni hjá Veðurstofunni.

Minna pláss í ganginum?

Veðurstofan vekur einnig athygli á að í Fagradalsfjalli var ekki mikil skjálftavirkni þegar kvikan braut sér leið upp á yfirboðið.

„Það má hins vegar benda á að eftir endurtekin gos í Fagradalsfjalli þá voru dæmi um að kvika læddist upp á yfirborðið án mikillar skjálftavirkni. Reikna þarf með að það gæti orðið þróunin með virknina í Sundhnúksgígaröðinni.“

Benedikt Gunnar segir erfitt að segja til um það hvers vegna ekki hafi farið af stað eldgos á laugardaginn.

„Einn möguleikinn er sá að minna pláss sé fyrir kviku að komast inn í þennan gang en við getum ekki útilokað að þetta nái sér aftur á strik og að það verði stór gangur eða stórt eldgos.“

Höf.: Kristján Jónsson