Úlfhildur Geirsdóttir fæddist að Byggðarhorni í Sandvíkurhreppi 27. mars 1942. Hún lést á Landspítalanum 23. febrúar 2024.
Foreldrar Úlfhildar voru bændurnir Jónína Sigurjónsdóttir, f. 1911, d. 1988, og Geir Gissurarson, f. 1916, d. 2004.
Úlfhildur var næstelst fimm systkina, þau eru: Gissur Ingi, f. 1939, d. 1996, Hjördís Jóna, f. 1944, Gísli, f. 1945, og Brynhildur, f. 1951. Eftirlifandi eiginmaður Úlfhildar er Sigvaldi Haraldsson frá Brúarhóli í Mosfellssveit, þar sem þau bjuggu nær allan sinn búskap þar til fyrir rúmu ári síðan að þau fluttu að Eirhömrum í Mosfellsbæ, sem eru íbúðir fyrir aldraða.
Börn Úlfhildar og Sigvalda eru: 1) Haraldur, f. 1960. Eiginkona Haraldar er Susanna Lange. Börn Haraldar og Kolbrúnar Haraldsdóttur fv. eiginkonu eru Ragnhildur, f. 1986, sambýlismaður hennar er Helgi Þór Guðjónsson. Börn Haraldar og Lottu Berg fv. eiginkonu eru Vaka, f. 1996, sambýlismaður hennar er Fredrik Påske, Björk, f. 1998, sambýlismaður Bjarkar er Kasper Bjerregaard, og Kjartan, f. 2002, unnusta hans er Eleni Doudouxi. 2) Lárus, f. 1964, börn Lárusar og fv. eiginkonu, Sigurbjargar Kristjánsdóttur: Axel, f. 1988, sambýliskona Axels er Linda Björgvinsdóttir, þau eiga dæturnar Ylfu, f. 2018, og Klöru, f. 2021, Bjarki, f. 1995, sambýliskona Bjarka er Hrafnhildur Árnadóttir, þau eiga soninn Emil Árna, f. 2021, og Úlfhildur Tinna, f. 2002, unnusti hennar er Gunnar Pétur Haraldsson. 3) Steinunn, f. 1967, maki Kristján Maack. Börn Steinunnar og Ragnars Ólafssonar fv. eiginmanns eru Sveinn, f. 1991, sambýliskona Sveins er Hildur Þórisdóttir Kjærnested, þau eiga soninn Ragnar, f. 2022, Jón Þór, f.1994. Sambýliskona hans er Chiara Formolo.
Úlfhildur gekk í barna- og unglingaskóla á Selfossi. Hún fór ung að heiman og fékk vinnu á Álafossi. Þar kynntist hún eiginmanni sínum. Hún var í Húsmæðraskóla Suðurlands á Laugarvatni árin 1959-60. Árið 1963 gengu þau Sigvaldi í hjónaband og hófu búskap.
Úlfhildur vann við ýmis störf eftir að börnin komust á legg, m.a. á Álafossi, Vefaranum, Félagi bifreiðareigenda, síðustu vinnuárin var hún stuðningsfulltrúi í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ. Hún var mjög virk í öllu sem hún tók sér fyrir hendur, tók m.a. að sér formennsku og önnur ábyrgðarstörf. Hún var ein af stofnendum Álafosskórsins sem Páll Helgason stjórnaði og söng með kórnum um áraraðir. Mörg ár var hún formaður Kórs eldri borgara í Mosfellsbæ og söng enn í þeim kór. Einnig var hún mjög virk í starfi eldri borgara og tók að sér ýmis störf þar. Úlfhildur var mjög tónelsk og söngur var hennar líf og yndi alla ævi.
Útförin fer fram frá Guðríðarkirkju í dag, 5. mars 2024, klukkan 13.
Elsku Úlla.
Aldrei hefði mér dottið í hug að okkar síðasta samvera myndi eiga sér stað síðustu jól.
Lífið er svo óútreiknanlegt.
Ég gleymi aldrei fyrsta matarboðinu hjá ykkur þegar ég kom inn í fjölskylduna fyrir 14 árum.
Þegar allir voru sestir niður og þú sagðir strax „Ji, hvað þetta er skemmtilegt og hvenær koma svo langömmubörnin“. Við Axel sukkum alveg niður í gólf en einhvern veginn varð það minna vandræðalegt um leið og þú skelltir upp úr með þínum glaða smitandi hlátri. Og það sem við áttum eftir að hlæja saman að þessu matarboði árin á eftir.
Þarna kynntist ég ömmu Úllu á einu augnabliki, þetta lýsti þér svo vel. Sagðir alltaf það sem þú hugsaðir hreint út en á svo skemmtilegan hátt og greipst alla með þér. Þú varst ein af þessum manneskjum sem maður kynnist á lífsleiðinni sem er svo góð og hrein í gegn, sem skín eins og stjarna og smitar gleði, jákvæðni og auknum krafti til allra í kringum sig.
Ég er svo þakklát að þú hafir orðið hluti af minni lífsleið og hversu samband okkar var gott frá upphafi til enda. Þú tókst mér um leið sem hluta af fjölskyldunni og stundirnar með ykkur Silla voru alltaf ljúfar og góðar. Stelpurnar okkar Axels soguðust til þín enda alltaf svo gott að sitja í langömmufangi og hlusta á sönginn og hugmyndirnar fara á flug. Takk fyrir að vera okkur öllum svo góð og fyrir allar gleðistundirnar.
Við munum sakna þín svo sárt en skærasta stjarnan mun nú skína á himninum.
Takk fyrir allt.
Linda.
Í dag kveð ég elsku ömmu mína en frá því að ég man eftir mér hefur amma Úlla alltaf verið til staðar fyrir mig, fyrir okkur öll. Ég var mikið hjá henni og afa sem barn og ég byrjaði í hestamennskunni með afa og ömmu á Brúarhóli, sem var sveitabær inn í Mosfellsbæ og þar fannst mér gott að vera. Þau voru með hesthús þar sem voru hestar og kindur. Ég kom oft til ömmu eftir skóla og það var alltaf svo gott að koma til ömmu og vinkonur mínar komu iðulega með. Það var þannig með ömmu að ef þú kynntist henni þá áttirðu stað hjá henni alla ævi. Enda var amma vinamörg og fólk sótti í samveru með henni, hún var alltaf glöð, hlý og umhyggjusöm. En amma var líka stjórinn, með stórum stöfum. Hún var með allt á hreinu þegar kom að því að stjórna heimilinu, skipuleggja viðburði hjá fjölskyldunni, halda matarboð en hún elskaði að halda matarboð og fá fjölskylduna í heimsókn á Brúarhól. Amma eldaði góðan mat og naut þess að vera með fólkinu sem henni þótti svo vænt um. Fyrir mér var amma konan sem gat allt. Hún var t.d. fljót að tileinka sér samfélagsmiðlana þegar þeir komu, þar lét hún aldurinn ekki stoppa sig. Hún var ein sú virkasta sem ég þekki á facebook, instagram og snapchat og hún elskaði að fylgjast með fólkinu sínu og sjá hvað það var að gera. Hún amma var klár og fór sínar eigin leiðir, alltaf með gleði og góðmennsku að leiðarljósi. Ég sat ótalmargar kóræfingar með þeim ömmu og afa í Þrúðvangi. Amma passaði alltaf að ég hefði nóg að gera á meðan þau sungu og í minningunni voru þetta miklar gæðastundir. Ég á ömmu og afa svo mikið að þakka. Til að mynda keyptu þau minn fyrsta keppnishest sem er grunnurinn að mínum ferli í dag. Ég hef ræktað undan þessari hryssu sem þau keyptu og afkvæmin heita öll í höfuðið á ömmu Úlf-, t.d. Úlfur, Björgúlfur, Úlfrún o.s.frv. Ömmu fannst þetta skemmtilegt en stoppaði mig af þegar ég vildi nefna eitt folaldið Varúlf, það tók hún ekki í mál. Ég á erfitt með að hugsa til þess að ég fái aldrei aftur símhringingu eða skilaboð frá ömmu. Amma ávarpaði mig yfirleitt í skilaboðum „gullið mitt“ og iðulega notaði hún minn og mín þegar hún talaði við fólk. Hún bar mikla virðingu fyrir öllum, mönnum og dýrum og vildi allt fyrir alla gera. Söngur, hestar og ferðalög eru það sem mér finnst hafa einkennt afa og ömmu. Ég fór með þeim í óteljandi hestaferðir og ferðalög út um allt land. Amma var fyrirmyndin mín og það var ekki að ástæðulausu að þegar ég var fimm ára ætlaði ég að verða hestakona á virkum dögum og söngkona um helgar þegar ég yrði stór. Ég bað iðulega um „amma syngja“ en það var spóla með ömmu og Dísu frænku að syngja Hvítir mávar, ég horfði á þetta aftur og aftur með stjörnur í augunum.
Amma var algjör gella, alltaf brún, með fallegan varalit og svo vel til höfð, alveg fram á síðasta dag. Amma barðist fram á síðustu mínútu, hún var ekki tilbúin að yfirgefa þetta partí en líklega hefur vantað gullmola og stuðbolta í sumarlandið. Takk fyrir allt elsku amma mín.
Þín ömmustelpa,
Ragnhildur.
Mínar fyrstu minningar um hana ömmu eru þegar ég var lítill snáði á þrettándabrennu í Mosfellsbæ. Þar fæ ég að vita að amma sé hvorki meira né minna en álfadrottningin sem stóð upp á sviði í fullum skrúða og söng fyrir allan bæinn. Það tók mig nokkur ár að skilja hvað ætti sér stað en eitt var ég þó alltaf viss um og það var að amma mín væri álfadrottningin.
Þannig ólst ég upp við það að amma mín væri gríðarlega mikil félagsvera, ávallt brosandi og það var eins og allir soguðust að henni. Það var svo síðar meir sem ég áttaði mig á því að þetta félagslega aðdráttarafl væri ekki eingöngu vegna þess að hún væri konungborinn álfur heldur því að fólk sótti til hennar og vildi vera nálægt henni, því þannig var einfaldlega amma. Svo hlý, góð og skemmtileg.
Amma var alltaf mikil veislukona og jafnvel hið einfaldasta matarboð varð að veislu. Heimatilbúna slátrið, kótelettur í raspi, nýveiddur fiskur úr Veiðivötnum með kleinum, pönnukökum og randalínum.
Gleði, jákvæðni og söngur einkenndi ömmu og átti hún auðvelt með að hrífa aðra með sér.
Nú þegar við kveðjum ömmu er gott að gleðjast yfir minningunum og reyna að horfa jákvæð fram í tímann og kannski raula lítið lag í leiðinni.
Mun alltaf sakna þín elsku amma mín.
Þinn,
Axel.
Elsku Úlla systir. Það er erfitt að hugsa sér framtíðina án þess að þú sért nærri. Alltaf tilbúin í framkvæmdir og hjálpsemi með hvað sem til þín kom. Snemma byrjuðum við að syngja og bralla saman og fyrstu skrefin voru tekin kringum 1952 á „Sandvíkurböllunum“ í sveitinni okkar undir öruggri stjórn mömmu og „Bubbu í Sandvík“ (Rannveig Pálsdóttir). Sönggleðin kom snemma í ljós og hæfnin til að radda með öðrum var þér í blóð borin. Þegar Gissur bróðir stofnaði hljómsveitina Tónabræður þá var okkur skellt upp á sviðið og við urðum drottningar sveitaballa Suðurlands sumarið ´59. En þá varst þú farin að vinna á Álafossi og Silli þinn komin til sögunnar og lífið að mótast í Mosfellssveitinni.
Lífsgleðin og söngurinn hefur fylgt þér gegnum lífið og við verið samferða í lífsins baráttu með okkar fólki, fjölskyldum og vinum, þar sem þú varst alltaf ókrýndur leiðtogi. Söngurinn og gleðin hefur verið þinn rauði þráður í amstri dagsins og hefur umhverfi þitt ávallt mótast af því. Kórastúss í Mosó með hinum ýmsu kórum var þitt hugðarefni um árabil og þið Silli ferðuðust vítt og breitt um Evrópu og Kanada með Álafosskórnum. Upprifjunin á sveitaböllum Suðurlands á Hótel Selfossi 1988 var ógleymanlegt ævintýri þar sem þú slóst rækilega í gegn, og hafmeyjaævintýrið okkar með yfir 20 syngjandi konum var gefandi og skemmtilegt. En kveðjustundin kom snöggt og eftir situr minningin um lífsglaða og yndislega systur.
Elsku Silli minn og fjölskylda. Hjartans samúðarkveðja frá okkur hjónum og börnum. Minningin lifir um dásamlega konu. Þetta vísukorn varð til þegar Brúarhólshjónin fögnuðu 80 ára afmælum sínum árið 2022:
Það var á Álafossi
um miðja síðustu öld
þar hittust Úlla og Silli
eitt fallegt sumarkvöld.
Þau fóru á ball í Hlégarð,
hún var í gulum kjól,
þar stigu þau fyrsta dansinn,
sem endaði á Brúarhól.
Þar saman hafa þau dansað
í lífsins ólgusjó,
á Brúarhóli þau búa
í friði spekt og ró.
Og bjartur er barnaskarinn
og ekkert er lát þar á
í árin 64 þar ýmislegt muna má.
Og flottur er Silli bóndi
með hesta, kindur og svín
í Vefaranum hann réði
og lagði svo teppin fín
og Úlla á Álafossi
í lopa og bandið spann
með húsmóðurhlutverk í fangi
hún fögur verkin vann.
Nú hafa þau dansað saman í 64 ár
og aldurinn færist yfir
og grána nokkur hár.
Og 80 eru árin
er fagna þau hér í dag
því syngjum við fyrir hjónin
eitt lítið afmælislag.
Dísa systir,
Hjördís Geirsdóttir.
Mig langar að minnast í örfáum orðum stóru systur minnar, hennar Úllu.
Það er svo ótrúlega erfitt að hugsa sér lífið án þess að vita af Úllu einhvers staðar. Hún var alltaf til staðar. Þegar hún og Silli byrjuðu að búa var það eitthvað það skemmtilegasta sem ég vissi að fá að vera á Brúarhóli. Það var allt svo framandi og skemmtilegt. Seinna þegar ég bjó hjá Dísu systur fór ég svo stundum í heimsókn á Brúarhól og fór á böll í Hlégarði. Það endaði að lokum eins hjá mér og henni ég hitti strák úr Mosó og við höfum verið saman síðan.
Þegar ég fór svo sjálf að búa og þurfti aðstoð við eitthvað var ósjaldan sem leitað var til Úllu. Hún tók við af mömmu þegar hún féll frá og hjálpaði mér að taka slátur og þegar kom að fermingum eða einhverjum veislum var hún mætt og hjálpaði til við að gera allskonar fínar tertur sem hún var snillingur í að skreyta að ógleymdum brauðtertunum.
Við höfum gert svo margt skemmtilegt saman í gegnum tíðina. Við vorum alltaf velkomin að gista og oft var fjör og mikið sungið. Núna seinni árin þegar þau hjónin eignuðust húsbílinn sinn, hann Úlfalda, fórum við oft í útilegur saman og þá var oft tekið í spil og hún kenndi okkur Kanasta og Kínaskák og stjórnaði spilamennskunni af myndarskap og sá til þess að allir færu að reglum. Sumir sögðu að reglurnar væru svolítið breytilegar en hvað með það, það var alltaf fjör og gaman í kringum Úllu. Það er svo ótal margt sem rifjast upp þegar ég pára þetta en ég læt þessu lokið hér.
Elsku Úlla mín, það er víst komið að leiðarlokum, ég þakka þér fyrir öll árin okkar saman, ég veit að þegar þar að kemur tekur þú á móti mér með bros á vör og leiðir mig inn í Sumarlandið.
Þín litla systir,
Brynhildur
Geirsdóttir.
Kær frænka mín, Úlfhildur Geirsdóttir, kvaddi í gær eftir stutt veikindi. Mig hefur sett hljóðan og ég svaf ekki í nótt. Ég horfði og hlustaði á fréttatíma Ríkissjónvarpsins frá liðnum mánuðum og ég komst að raun um að óvinir okkar frömdu sjálfir þau ódæði sem þeir kenndu svo okkur heiðvirðum íbúum Íslands um og elskuleg frænka mín, Úlfhildur Geirsdóttir, leiðbeindi mér að koma auga á það. Minningar mínar um samhentu og duglegu fjölskylduna að Brúarhóli í Mosfellsbæ er bjartar og fagrar.
Við fjölskyldan frá Víðivöllum 17 á Selfossi komum oft í heimsóknir að Brúarhóli og ég man að þetta voru mikilvægir atburðir í mínu lífi. Fjölskyldan að Brúarhóli tók fjölskyldu minni fagnandi og Úlfhildur átti eftir að hafa afgerandi góð áhrif á ævi mína.
Úlfhildur Geirsdóttir var kirkjurækin kona og hún kenndi mér að varðveita barnatrúna mína frá því að ég tók þátt í æskulýðsstarfi lúthersku kirkjunnar á Selfossi. Heilbrigð gildi, kurteisi, frelsi og að eiga góð samskipti við sína nánustu og annað fólk var það sem einkenndi Úlfhildi Geirsdóttur og ég tók það mér til fyrirmyndar á ævi minni. Úlfhildur frænka kenndi mér að lífið er gjöf frá Guði sem verður aldrei frá okkur tekið. Úlfhildur talaði oft um lögun og kennileiti Íslands og hún sagði að það gæfi góð fyrirheit um gæfu í framtíðinni. Fjölskyldumeðlimirnir að Brúarhóli voru og eru í senn hetjur og boðberar friðar og kærleika. Þær voru margar samverustundirnar sem ég átti með fjölskyldunni frá Brúarhóli og hún fræddi mig um svo margt fallegt og gott sem gagnaðist mér á minni ævi. Elsku Úlfhildur hafðu þakkir fyrir það góða og fallega sem þú veittir mér og fjölskyldu minni, við sjáumst síðar.
Kristján Gissurarson.
Vinátta okkar nokkurra stúlkna héðan og þaðan af landinu tókst fyrir rúmum 60 árum, við flestar táningar sem höfðum fengið okkur vinnu í ullarverksmiðjunni á Álafossi.
Í vinahópi okkar kom snemma í ljós að frænka mín, Úlfhildur Geirsdóttir frá Byggðarhorni í Flóa, var fæddur foringi. Hún var hugmyndarík, framtaksöm, glaðvær og hláturmild.
Við vinkonurnar vorum alltaf í góðu sambandi þó hópurinn dreifðist til að stofna fjölskyldur og takast á við lífið. Vinátta okkar var þó alltaf söm, sambandið slitnaði aldrei og við höfum alltaf hist reglulega þó fækkað hafi í hópnum.
Þau voru enn ung að árum þegar þeim fór að lítast vel hvort á annað, Úllu okkar og Sigvalda Haraldssyni frá Brúarhóli í Mosfellssveit. Þau urðu strax elsk hvort að öðru og ríkti alltaf samstaða og kærleikur milli þeirra.
Úlfhildur var annáluð fyrir hjálpsemi og örlæti, frumkæði og dugnað og margir eiga henni mikið að þakka. Sigvaldi stóð við hlið konu sinnar í einu og öllu, sterkur og óbifanlegur eins og fjöllin allt í kring. Saman var þeim ekkert ómögulegt.
Leiðir okkar Úllu lágu aftur saman í sveitinni góðu þegar ég hóf langan starfsferil við sama fyrirtækið aftur. Við urðum enn nánari og unnum saman með fleiri félögum í Starfsmannafélagi Álafoss, þar sem lyft var Grettistaki í formannstíð Úllu þegar m.a. voru byggðir þrír sumarbústaðir í Biskupstungum og félagsheimilið Þrúðvangur reist. Við vorum stofnfélagar í Álafosskórnum, hann varð vinsæll og fjölmennur undir frábærri stjórn Páls heitins Helgasonar og síðar Helga R. Einarssonar og fl. Úlla var lengi lífið og sálin í starfi kórsins og oft formaður. Kórinn gerði garðinn frægan og fór víða innanlands og utan. Voru það ógleymanleg ævintýri! Seinni árin sungum við frænkurnar saman með fleiri góðum vinum í Vorboðunum.
Úlla var alveg einstök manneskja, hlý og hjálpsöm, litir og tónar tilverunnar dofna við brottför hennar
Söngurinn var Úllu uppspretta gleði, orku og ánægju. Hún hafði fallega rödd og starfaði í mörgum kórum, en tónlist er svo töm Byggðarhornsfjölskyldunni að mörg þeirra voru og eru landsþekktir músíkantar. Yndislegt var að heyra þær syngja systurnar, annað hvort einar sér eða saman tvær og þrjár. Hjördís systir hennar heldur á næstunni upp á 65 ára söngafmæli sitt.
Úlla var ein mín bezta vinkona og ég sakna hennar sárt. Hjá henni fann ég alltaf gleði, velvild og kjark.
Elsku vinkona, takk fyrir birtuna, bjartsýnina, kærleikann og sönginn.
Silla og fjölskyldunni sendi ég samúðarkveðjur og bið góðan Guð að styrkja ykkur í sárum missi. Takk, elsku vinkona, fyrir allt.
Þrúður Helgadóttir.
Hjartkær félagi okkar í Vorboðum, kór eldri borgara í Mosfellsbæ, Úlfhildur Geirsdóttir, andaðist 23. febrúar síðastliðinn eftir stutta baráttu við alvarleg veikindi. Um leið og við félagar hennar söknum hennar sárlega finnum við fyrir djúpu þakklæti fyrir hennar öfluga starf í þágu kórsins og einnig, í stærra samhengi, fyrir allt hennar starf fyrir eldri borgara í Mosfellsbæ. Og ekki síður fyrir vináttuna og hjálpsemina sem hún sýndi í samskiptum.
Úlfhildur, Úlla, var röggsamur formaður kórsins í nokkur ár og stóð þá fyrir áhugaverðum ferðum, bæði innan lands og utan, ásamt margs konar öðrum gleðistundum. Hún kom á fót skemmtun sem kallast „Gaman saman“, en þar kemur heimilisfólk á Eirhömrum ásamt gestum saman til að syngja og oft hafa leikskólabörn bæst í hópinn með söng og gleði. Þá hefur fátt eitt verið talið.
Hjartans þakkir fyrir þann ómetanlega félaga sem hún Úlla okkar var. Megi ljósið umvefja hana á hennar nýja stað.
Við sendum innilegar samúðarkveðjur til Sigvalda og fjölskyldu hans.
Fyrir hönd Vorboða,
Jóhanna B. Magnúsdóttir.
Úlla, mín kæra elsku vinkona, hefur kvatt, en allt of fljótt og líka svo óvænt. Ég finn það aldrei betur en núna hvað ég má þakka fyrir að hafa átt hana að vinkonu öll þessi ár, þessa traustu, óbilandi og gjöfulu vináttu hennar. Við kynntumst á Álafossi 1958 sem unglingar í sumarvinnu, hún frá Byggðarhorni í Sandvíkurhreppi, fyrir sunnan Selfoss, ég úr Vestmannaeyjum. Þá varð til vinahópur sem hefur haldið þétt saman alla tíð, bara eflst og dafnað með mökum og fjölskyldum þeirra. Úlla var gullfalleg, innan sem utan, alltaf brosandi, syngjandi og spilaði á gítar. Það voru alger forréttindi að þekkja Úllu. Og svo kom Silli inn í líf hennar og okkar. Þau kynntust líka á Álafossi. Við Úlla unnum aftur saman í Reykjavík sumarið 1959 og ég man að þá heimsóttum við fjölskyldu hennar í Byggðarhorni flestar helgar og fólkið þar, Geir og Lóa og systkini Úllu, tóku einstaklega vel á móti mér.
Svo byrjuðu Úlla og Silli að búa saman á Brúarhóli í Mosfellssveit og þótt ég væri í Vestmannaeyjum og langt á milli slitnaði vinátta okkar aldrei, þvert á móti. Að koma á Brúarhól var alltaf eins og að koma heim, þannig var tekið á móti manni. Ekki má gleyma hversu vel Úlla og Silli reyndust mér og mínum í gosinu 1973, allar dyr opnar fyrir okkur Jóa og börnin okkar. Þau fundu fyrir okkur íbúð í Mosó þannig að við gætum verið nálægt hvor annarri. Við vorum eiginlega innleidd í stórfjölskyldu þeirra og sannarlega haldið vel utan okkur.
Síðar ferðuðumst við um landið þvert og endilangt með fjölskyldum okkar og fleiri vinum, hvort sem það var hálendið eða láglendi, um hverja verslunarmannahelgi í 30 ár. Utanlandsferðir okkar á seinni árum, þegar ég var orðin ekkja, eru orðnar margar. Alltaf hringdi Úlla og spurði: „Viltu koma með?“ Hún var einstök. Það ætti að vera til ein Úlla í hverri fjölskyldu.
Það var ómetanlegt að eiga vinkonu eins og hana Úllu, sem alltaf hringdi reglulega, tók stöðuna með mér, fylgdist með hvernig mér leið og dró mig með á alls konar viðburði og gleði. Hún var svo kraftmikil kona, virk í öllu sem hún kom nálægt, söng í kórum, var öflug í félagsstarfi og naut sín svo vel. Þegar hún byrjaði að syngja ljómaði hún öll og þá var dásamlegt að horfa á hana. Það væri hægt að skrifa heila bók um Úllu. Hún var einfaldlega best í öllu.
Við sjáumst í sumarlandinu, vinátta okkar er eilíf.
Aðalbjörg Jóh.
Bernódusdóttir (Lilla).
Kær vinkona, hún Úlla mín, er látin eftir stutta sjúkdómslegu.
Ég kynntist Úllu fyrst í hestamennskunni er þau Úlla og Silli voru fararstjórar í nokkurra daga hestaferð á vegum hestamannafélagsins Harðar í Mosfellsbæ. Það var upphafið að margra ára gefandi vináttu. Þau vor dugleg og skipulögð í öllum undirbúningi sem er ærinn í svona ferð. Sjá um trússið með matinn og finna gistingu fyrir hópinn, oft 10-12 manns. Við fórum eftir þessa fyrstu ferð árlega í dásamlegar ferðir um fallega landið okkar saman. Þeim var hestamennskan í blóð borin og kunnu þetta allt.
En allt hefur sinn tíma og eftir að við hættum hestamennsku tóku við húsbílaferðirnar. Við fórum þá saman ýmist tveir eða fleiri bílar. Leið varla sú helgi yfir sumartímann að ekki væri farið. Og svo í lengri ferðir í fríum. Alltaf gaman og tekið í spil á kvöldin.
Úlla var lengi formaður eldri borgarakórs Mosfellsbæjar, Vorboðunum, og hélt styrkri hönd um starfið, skipulagði kóramót og utanlandsferðir til Ítalíu og Suður-Englands. Og við nutum okkar vel í söngnum.
Silli og Örn sungu saman í Karlakór Kjalnesinga og þar var heilmikið félagsstarf sem við áttum sameiginlegt og nutum vel.
Ég er þakklát að hafa átt Úllu að traustum vin gegnum árin. Hún hafði svo góða nærveru, forystuhæfileika og dugleg að drífa í hlutunum.
Ég sakna góðs ferðafélaga, kórfélaga og umfram allt góðrar vinkonu.
Við Örn sendum Silla og fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur og kveðjum góða konu og traustan vin með söknuði.
Halla M. Hallgrímsdóttir.
Pönnukökuilminn leggur út á hlað, það þýðir að krakkaskarinn tekur sér hlé frá leik og inn í hús er haldið. Frá eldhúsinu berast svoleiðis hlátrasköllin að maður heldur að þakið ætli af Byggðarhorni. Eftir að kræsingunum voru gerð góð skil tóku Gissur og amma Lóa upp nikkurnar og nú var sko sungið af hjartans lyst. Svona voru ófáar samverustundirnar í Byggðarhorni og minntu stundirnar á Brúarhóli hjá Úllu og Silla óneitanlega á þær. Allir alltaf svo hjartanlega velkomnir á Brúarhól. Úlla með faðminn opinn og elsku Táta, sem var þar sem Úlla var, fagnaði okkur ekki síður. Ævintýraveröld að vera á Brúarhóli, þar sem allt mátti. Nóg af dóti og kruðeríi og nálægð við dýrin. Flott hefð hefur verið hjá Byggðarhornsfjölskyldunni að fara saman í útilegu einu sinni á ári. Þar voru Úlla og Silli fastagestir á Úlfalda sínum. Skálað og sungið, hlegið og spjallað frá sér allt vit. Og ef ættmóðirin Úlla þurfti að fá orðið, þá þögðu allir. Hún hélt vel utan um ættlegginn og var með allar upplýsingar af öllum á kristalstæru. Það verður söknuður að langafa- og langömmubarnakeppninni á milli þeirra Gísla. Þetta var nefnilega æsispennandi keppni að þeirra mati og ekki síður okkar hinna. Húmorinn og glettnin sem einkenndi Úllu var dásamlegur. Alltaf stutt í brosið og glettið augnaráðið var hreinlega hennar svipur. Úlla var með tónlistina í hverri frumu. Hún var ekki bara stórkostleg söngkona, heldur gat hún raddað öll lög eins og ekkert væri. Það var algjör unun að fá að syngja með henni í frænkukórnum sem tróð upp við hvert tækifæri. Systkinin frá Byggðarhorni mynduðu líka einn besta kórinn sem innihélt tenór, bassa, alt, millirödd og sópran. Það gat komið sér vel þegar við skýrðum börnin okkar.
Samhent fjölskylda hefur misst mikið við fráfall elsku Úllu okkar, en við yljum okkur við minningu af magnaðri konu. Ef eitt orð ætti að lýsa henni best þá væri það „kærleikur“. Úlla var kærleikurinn uppmálaður í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Umvafði allt og alla og alltaf fylgdi með „mín“ eða „minn“ á eftir nafni sem gaf hlýtt í hjartað. Við frænkur þínar og fjölskyldur sendum Silla, Halla, Lárusi, Steinunni og fjölskyldum ykkar okkar innilegustu samúðarkveðjur og þökkum fyrir yndislega samfylgd.
Kolbrún Ylfa, Bára Kristbjörg, Jónína Lóa, Vigdís Rós og Guðbjörg Sigríður.
Úlfhildur Geirsdóttir hefur kvatt þennan heim og haldið í Sumarlandið. Þegar ég var að hefja störf sem kennari haustið 2007 kynntist ég Úllu fyrst, þá var hún stuðningsfulltrúi í Lágafellsskóla. Síðar lágu leiðir okkar saman á ný þegar við skipuðum sæti á lista Vina Mosfellsbæjar í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Ég í fyrsta sæti, hún í heiðurssætinu. Úlla var ein þeirra sem kom að stofnun Vina Mosfellsbæjar. Hún var góður liðsmaður, áhugasöm, bóngóð og jákvæð. Í kosningabaráttunni mættu þau hjón á skutlunum sínum hvar sem við vorum og oftar en ekki voru einhverjir vinir með í för. Það var lýsandi fyrir Úllu og þau hjónin, það var gaman í kringum þau.
Ég vil sérstaklega þakka fyrir góð ráð og hlýju í kosningabaráttunni. Fyrir einn fundinn hringdi ég í Úllu og bað um ráð. Hún þagði eitt augnablik og sagði svo með sinni léttu röddu, „Dagný mín, þetta er nú ekki mikið mál, vertu bara heiðarleg og þú sjálf.“ Þar með var þetta útrætt, ég steig í pontu og sagði frá því að þetta góða ráð hefði ég fengið, mín kona sat á fremsta bekk, brosti í kampinn og hvatti mig áfram.
Fyrir hönd Vina Mosfellsbæjar færi ég fjölskyldu Úllu einlægar samúðarkveðjur.
Dagný Kristinsdóttir.
Það var gott að alast upp í Mosfellssveitinni þegar ég var barn. Umhverfið magnað og góðir nágrannar.
Mín allra besta æskuvinkona var Steinunn, dóttir Silla og Úllu sem við kveðjum í dag. Á Brúarhóli, heimili þeirra, eyddi ég löngum stundum og góðum. Þar var oft margt um manninn og mörg börn í heimsókn, þar sem er hjartarúm er alltaf húsrúm.
Mig langar til að minnast hennar með fáeinum orðum. Úlla var mér einstaklega kær enda stórkostleg manneskja. Það vita allir sem hana þekktu og urðu á vegi hennar. Glaðværð hennar og hláturinn smitaði út frá sér og þegar ég hugsa til hennar núna, sé ég hana fyrir mér á ferðinni, syngjandi og hlæjandi – hún hafði alltaf eitthvað fyrir stafni. Gestrisni hennar og þolinmæði áttu sér engin takmörk. Það vita sjálfsagt fáir betur en ég, sem á unglingsárum gisti stundum hjá Steinunni dögum saman og sat til borðs með fjölskyldunni hvern dag með að minnsta kosti 2-3 vinum Lalla og Halla til viðbótar. Þetta fannst Úllu allt saman sjálfsagt og eðlilegt að elda fyrir allan hópinn hvern dag. Hún naut þess að dekra við okkur enda stjörnukokkur og ég leyfi mér hreinlega að efast um að það hafi ekki alltaf verið minnsta kosti 1-2 aukamunnar við kvöldverðarborðið á Brúarhóli flesta daga. Ég á eina sterka minningu þessu tengda sem lýsir henni vel. Við Steinunn höfðum verið saman á næturvakt á Álafossi og vorum að koma heim á Brúarhól dauðþreyttar eftir vaktina klukkan 8 að morgni. Úlla hafði haft fyrir því að fara á fætur fyrir allar aldir áður en hún þurfti sjálf að fara til vinnu, til að steikja kleinur handa okkur sem biðu ylvolgar á disk ásamt ískaldri mjólk með. Ég man enn bragðið af kleinunum sem eru þær bestu sem ég hef smakkað og það voru saddar og sælar vinkonur sem svifu inn í draumalandið í kjölfarið. Svona var Úlla, alltaf að hugsa um aðra, gefa af sér, án þess á nokkurn hátt ætlast til einhvers til baka.
Það er skrítin tilhugsun og þungbær að eiga ekki aftur eftir að eiga fleiri stundir með Úllu og hugur minn leitar til fjölskyldunnar allrar og elsku Silla.
Guð styrki ykkur í sorginni.
Úlla á Brúarhóli var einstök manneskja.
Með þakklæti og eftirsjá,
Sara Lind
Þrúðardóttir.
Mín elskulega vinkona og fyrrverandi tengdamóðir hefur nú kvatt.
Úlla var einstök kona, hún var litríkur karakter, umvefjandi, jákvæð, dugleg og svo einstaklega hlý. Hún var alla tíð söngfugl mikill og fylgdi henni ávallt fjör og gleði hvert sem hún fór. Úlla var amma af guðs náð og alltaf var hún stolt af hópnum sínum, sem hún sinnti af einstakri hlýju og natni. Úlla hefur alltaf átt stóran stað í hjarta mínu enda hef ég verið svo lánsöm að hafa hana í lífi mínu mestan hluta ævi minnar. Ég kynntist henni þegar við Steinunn urðum vinkonur í æsku, síðar varð hún tengdamóðir mín þegar við Lalli fórum að vera saman.
Úlla var sannarlega ekki bara tengdamóðir mín heldur varð hún trygg vinkona og þó svo að leiðir okkar Lalla skildu áttum við áfram okkar innilega vinkonusamband. Ég gat alltaf leitað í hennar ríka viskubrunn, þegið góð ráð og við hlegið og grátið saman í gegnum árin, fyrir það vil ég þakka þér elsku Úlla.
Farðu í friði vina mín kær.
Faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær.
Aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens)
Elsku Silli, Steinunn, Lalli, Halli og aðrir ástvinir, ég votta ykkur öllum mína dýpstu samúð.
Það er sárt að kveðja en við eigum margar fallegar og góðar minningar sem ylja á erfiðum stundum.
Farðu í friði, elsku yndislega Úlla mín.
Þín Sibba
Sigurbjörg
Kristjánsdóttir
Okkar kæra vinkona, kórfélagi og ferðafélagi Úlfhildur Geirsdóttir, Úlla eins og hún var kölluð, er fallin frá eftir stutta sjúkralegu. Fyrir utan ánægjuleg ferðalög með þeim hjónum Úllu og Sigvalda, Silla eins og hann er kallaður, voru samskipti okkar Úllu mest í sambandi við veru okkar í Vorboðum, kór eldri borgara í Mosfellsbæ og kirkjukórnum. Úlla söng alt-rödd og var góð og örugg söngkona enda hafði hún verið í kórum til margra ára, hún spilaði á gítar og söng líka á skemmtunum áður fyrr. Við vorum saman í stjórn Vorboða um árabil, hún var formaður kórsins en ég gjaldkeri. Þetta samstarf okkar var mikið og mjög ánægjulegt. Úlla var fyrirmyndar formaður, skipulögð, framkvæmdaglöð og fylgin sér, hún var ákveðin en samt ljúf og elskuleg. Úlla var mjög áhugasöm um velferð kórsins og hugmyndarík varðandi verkefni kórsins, til dæmis varðandi uppákomur og ferðalög fyrir kórinn. Vorboðarnir voru í samstarfi við fjóra aðra kóra, en kórarnir halda kóramót á hverju ári. Sem dæmi um eitt slíkt kóramót sem við héldum má nefna að hér í Mosfellsbæ er ekki aðstaða fyrir svona stóra hópa, hvorki til tónleika eða skemmtana, þannig að við urðum að finna aðstöðu utan Mosfellsbæjar. Úr varð að tónleikarnir voru haldnir í Langholtskirkju í Reykjavík og kvöldskemmtunin í Félagsheimili Seltjarnarness. Þessu fylgdi mikill kostnaður og skipulag, en kostnaður fyrir kórfólk varð að vera á svipuðum nótum og á fyrri kóramótum. Farin var herferð í öflun auglýsinga í tónleikaskrána, það gekk mjög vel. Tónleikarnir tókust vel og auglýsingatekjurnar dugðu fyrir kostnaði og vel það. Þarna komu forystuhæfileikar Úllu vel í ljós. Samstarf okkar í stjórn kórsins var gefandi og skemmtilegt. Úlla var einstaklega umhyggjusöm um vini sína í kórnum. Ef einhvern vantaði far á kóræfingar eða einhverjar aðrar uppákomur á vegum kórsins sóttu Úlla og Silli viðkomandi eða sáu til þess að aðrir gerðu það. Stjórnarfundir voru oft haldnir á Brúarhóli, heimili þeirra hjóna, og var sérstaklega til þess tekið hvað veitingarnar voru góðar, Meðlæti oftar en ekki heimagert, enda voru þau hjón búsældarleg og unnu afurðir úr eigin fjárstofni. Þau hjónin voru gefin fyrir ferðalög. Á síðari árum áttu þau húsbíla. Síðasti bíllinn þeirra var glæsilegur fjögurra drifa MB Sprinter kallaður Úlfvaldi eins og sá fyrri, hann var keyptur nýr og smíðuð inn í hann flott nýtískuleg innrétting með öllum þægindum. Við hjónin höfum verið í félagi sem ferðast um landið á húsbílum og með húsvagna. Úlla og Silli gengu í þetta félag ásamt nokkrum öðrum úr Vorboðum. Þessar stundir með þeim, jafnvel nokkrum sinnum á ári, voru ómetanlegar. Úlla var máttarstólpi í samfélagi okkar hér í Mosfellsbæ með þátttöku sinni í kórum og félagsstarfi og hinum ýmsu stjórnum, m.a. FAMOS, félagi aldraðra í Mosfellsbæ. Við vottum okkar góða vini Silla og fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur á þessari erfiðu stundu.
Jón Þórður og Stella.
Að heilsast og kveðjast, það er lífsins saga. Nú kveðjum við hana Úllu okkar með miklum söknuði. Úlla var lengi formaður Álafosskórsins, mikill leiðtogi og sannur gleðigjafi. Silli eiginmaður Úllu var einnig í kórnum og var það mikill fengur fyrir kórinn að hafa þau, hana með sinni fylltu altrödd og hann með sinn fallega bassa. Þau hjón voru ævinlega til í að skipuleggja bæði starf kórsins og ýmsar uppákomur utan kórastarfsins. Ógleymanlegir eru útreiðartúrarnir úti í náttúrunni þar sem ilmandi kjötsúpa beið reiðmanna á Brúarhóli eftir útivistina. Á heimili Úllu og Silla að Brúarhóli var ævinlega opið hús fyrir kórfélaga fyrir raddæfingar og aðrar skemmtanir. Úlla var einstaklega lagin við að afla styrkja fyrir kórinn þannig að hann gæti gengið. Enginn gat sagt nei við þessa hressu og jákvæðu konu sem var svo einstaklega kappsöm um að láta kórastarfið ganga vel. Úlla var í afmælisnefnd kórsins og tók að sér að skrá og flytja sögu Álafosskórsins, með leikrænu ívafi, á 40 ára afmæli hans. Þetta var mikil vinna og sannarlega kominn tími til. Úlla var sannur vinur og fólki leið vel í návist hennar, hún var alltaf til í spjall og var alltaf eins við alla – gerði aldrei mannamun. Við kveðjum nú þessa einstaklega jákvæðu konu sem við eigum margt að þakka. Elsku Úlla, við vitum að það verður vel tekið á móti þér í sumarlandinu.
Silli og fjölskylda, sendum ykkur innilegar samúðarkveðjur.
Bestu þakkir fyrir allar samverustundirnar.
Fyrir hönd félaganna í Álafosskórnum,
Katrín
Ragnarsdóttir.