Atli Steinn Guðmundsson
atlisteinn@mbl.is
Rússneska varnarmálaráðuneytið greindi frá því á sunnudagsmorgun að loftvarnakerfi landsins hefðu skotið niður 38 úkraínska árásardróna sem lagt hefðu til atlögu þá um nóttina.
Lét ráðuneytið þess ekki getið hvar drónarnir hefðu verið skotnir niður eða hvort eitthvert tjón hefði orðið af völdum þeirra. Á samfélagsmiðlinum Telegram var sagt frá sprengingum nálægt hafnarborginni Feódósíu snemma sunnudags en borgin er um eitt hundrað kílómetra frá hinu mikla umferðarmannvirki milli Krasnódar-héraðsins á meginlandi Rússlands og Krímskagans sem Kertsj-brúin er.
Hafa Úkraínumenn ítrekað reynt að gera brúna ónothæfa með árásum bæði árin sem stríðið hefur staðið og beitt til þess langdrægum flugskeytum sem Vesturlönd hafa útvegað þeim, en brúin er rússneska innrásarliðinu lífsnauðsynleg aðfangaleið.
Brúnni lokað fyrir umferð
Þá komst myndskeið í dreifingu á samfélagsmiðlum sem sýnir sprengingu verða nærri eldsneytisbirgðastöð í Feódósíu en Kertsj-brúnni var lokað fyrir allri umferð á meðan Rússar töldu hana í hættu.
Úkraínumenn knýja um þessar mundir mjög á um vopnasendingar frá vestrænum bandalagsþjóðum og bera við skorti í eigin ranni. Hafa Rússar sent þúsundir dróna til höfuðs skotmörkum í Úkraínu síðan þeir réðust á nágrannalandið í febrúar fyrir tveimur árum. Á laugardaginn flaug rússneskur dróni á íbúðabyggingu í úkraínsku hafnarborginni Ódessu og varð tólf manns að bana, þar af fimm börnum.
Rússar liggja vesturveldunum nú á hálsi fyrir beina íhlutun í Úkraínu eftir að 38 mínútna langri upptöku af tali yfirmanna í þýska hernum var lekið og hún í kjölfarið gerð heyrumkunn á rússneskum samfélagsmiðlum á föstudaginn.
Snerist umræðuefnið þar meðal annars um hvert hentugt væri að beina flugskeytum og töldu þeir Kertsj-brúna meðal ákjósanlegra skotmarka. Sagði Dmítrí Peskov, talsmaður Kremlverja, í gær að ljóst væri að þýski herinn legði á ráðin um „skýra og hnitmiðaða“ árás á rússneskt yfirráðasvæði og greindu rússneskar ríkisfréttastofur frá því í gær að sendiherra Þýskalands í Rússlandi hefði verið kallaður á teppið í utanríkisráðuneytinu til að útskýra málið.