Pálmi V. Jónsson
Hjúkrunarheimili eru hæsta þjónustustig fólks með alvarlegan heilsubrest vegna langvinnra sjúkdóma og færnitaps. Þar fer saman búseta og sólarhringsumönnun. Sólarhringsdvöl kostar um 46.000 krónur og ársdvöl 17 milljónir. Grundvallarforsenda fyrir slíkri dvöl er að allar leiðir til búsetu heima séu fullreyndar og einstaklingurinn hafi fengið greiningu á meinum sínum, meðferð og endurhæfingu eftir þörfum. Það ríður því á að samfélagsþjónusta sé öflug og ævinlega tímanleg, en enn sem komið er vantar talsvert upp á að öll tækifæri þar séu til staðar eða fullnýtt. Það leiðir af sér kostnaðarsama umframeftirspurn.
Þó að samfélagsþjónusta væri fullkomin kemur þó að því í mörgum tilvikum að sjúkdómar og færnitap hafa náð það háu stigi að varanleg dvöl á hjúkrunarheimili er það sem þarf. Sumir eiga enga að, aðrir eiga samhenta fjölskyldu og/eða vini sem verða að játa sig sigraða, þrátt fyrir vilja til annars. Þannig eru hjúkrunarheimili mikilvægt úrræði þegar allt um þrýtur.
Það eru síðari stig eða lokastig langvinnra sjúkdóma sem leiða til varanlegrar dvalar á hjúkrunarheimili. Annaðhvort getur verið um einn leiðandi sjúkdóm að ræða og meðvirk viðfangsefni eða fjölveikindi, þar sem enginn einn sjúkdómur stendur upp úr í veikindunum. Þegar litið er til færni, þá vegur þyngst vitræn skerðing og hreyfiskerðing.
Auk sértækra einkenna hinna sérstöku sjúkdóma sem fólk glímir við geta fylgt ýmis einkenni og meðvirk viðfangsefni, svo sem: verkir, mæði, lystarleysi, ásvelging, þvag- og hægðaheldnimál, jafnvægis- og þróttleysi, svimi, yfirlið, byltur, óráð, vannæring og margvísleg andleg vanlíðan, auk þrýstingssára. Hvers konar sýkingar eru einnig algengar. Eftirfylgd þarf að vera náin og tímanleg til að hámarka líkur á eins miklum lífsgæðum og kostur er.
Fylgjast má með gæðum þjónustu á hjúkrunarheimilum og bera þau saman þar sem leiðrétt hefur verið fyrir mismunandi samsetningu fólks og þyngd veikinda. Mikilvægt er að veita hjúkrunarheimilum aðhald og taka á gæðabrestum ef þeir greinast. Sums staðar erlendis eru gæðavísar heimila birtir opinberlega og geta þá verið leiðbeinandi fyrir þá sem leita eftir varanlegri dvöl.
Sérhæfð hjúkrunarheimili
Hjúkrunarheimili eru ætluð fólki eldra en 18 ára. Af og til hefur komið upp umræða um að ekki sé æskilegt að blanda ungum og öldnum saman, þá einkum með þarfir yngra fólks í huga. Leggja ætti meira upp úr þeim sjúkdómum sem einstaklingurinn glímir við en aldri. Á höfuðborgarsvæðinu eru forsendur fyrir því að sérhæfa hjúkrunarheimili eftir viðfangsefnum. Flokkunin gæti verið þessu lík:
Hjúkrunarheimili fyrir fólk með leiðandi heilabilunarsjúkdóm. Innan heimilis væri þjónustan útfærð þannig að þeir sem hefðu mikil geðræn einkenni eða atferlistruflanir væru á sérstakri einingu þar sem umhverfisaðlögun væri liður í umönnun.
Hjúkrunarheimili fyrir fólk með leiðandi hjarta-, æða-, lungna- eða nýrnasjúkdóma og/eða sykursýki. Skoða mætti hvort eitt heimili hefði forsendur fyrir því að bjóða upp á blóðskilun á staðnum fyrir fólk með lokastigsnýrnasjúkdóm.
Hjúkrunarheimili fyrir fólk með leiðandi lokastigsblóðsjúkdóm eða krabbamein.
Hjúkrunarheimili fyrir fólk sem hefur menjar eftir alvarleg heilaáföll.
Hjúkrunarheimili fyrir fólk með leiðandi taugahrörnunarsjúkdóma sem trufla hreyfifærni, svo sem parkinsonsjúkdóm, hreyfitaugungahrörnun (MND) og MS-sjúkdóm.
Hjúkrunarheimili fyrir fólk með leiðandi viðvarandi alvarlegan geðsjúkdóm sem ekki ræðst við með meðferð heima og stuðningi sjúkrahúss. Nauðsynlegt er að opna sérhæfða göngudeild og legudeild fyrir eldra fólk með geðsjúkdóma, svo að fólk þurfi ekki að fara á hjúkrunarheimili, þegar meðferð gæti skilað bata og lengri búsetu heima.
Hjúkrunarheimili fyrir fólk með leiðandi ólæknandi fíknisjúkdóm vegna áfengis, verkja og róandi lyfja eða eiturlyfja. Þeir sem verst eru settir eru á götunni og nýta sér gistiskýli. Sumir þessara einstaklinga eru langt leiddir í fíknisjúkdómnum og samtímis með aðra virka sjúkdóma og viðfangsefni þurfa nána eftirfylgd og öryggi. Opna mætti heimili, þar sem horfst er í augu við raunveruleikann, fólki búinn samastaður, þar sem eftirfylgd og meðferð er í boði, en að fólk geti farið út að deginum og í þann félagsskap sem það kýs vitandi að það á öruggt skjól að kvöldi. Í þessum efnum er akurinn óplægður og við sem samfélag getum gert betur.
Auk hinna sérhæfðu hjúkrunarheimila fyrir fólk með skilgreindan leiðandi sjúkdóm væru almenn hjúkrunarheimili fyrir fólk með fjölveikindi án slíks leiðandi sjúkdóms. Þetta fólk er oftar en ekki í eldri kantinum, 85-90 ára og eldra, með marga sjúkdóma þar sem enginn einn sker sig sérstaklega úr, t.d. heyrnarskerðingu, blindu og stoðkerfisvanda. Hreyfiskerðing getur verið allnokkur en vitræn skerðing, ef hún er til staðar, fremur væg.
Hvað ynnist með sérhæfingu?
Þar sem verkefni hvers heimilis væri afmarkað má aðlaga húsnæði og sérhæfa umönnun og hjálpartæki til að mæta íbúum betur en ella. Einnig opnast forsendur fyrir því að læknar sem sinna heimilinu séu sérfræðingar á því sviði sem heimilið er sérhæft í. Fjöldi annars fagfólks færi einnig eftir sérhæfingu. Þannig væru sérfræðingar á sviði atferlistruflana á heimili fyrir fólk með heilabilun og aukinn fjöldi sjúkraþjálfara á heimilum þar sem hreyfiskerðing er ríkjandi, svo að dæmi séu nefnd.
Það getur reynst stuðningur að því að fólk heimilis glími við sambærileg viðfangsefni. Fyrir það fólk sem er skýrt og er á sama heimili, þá vaxa líkur á því að fólk nái félagslega saman og þannig geta lífsgæði þess vaxið. Ættingjar geta myndað félagsskap og beitt sér fyrir því að nýjungar séu teknar upp og þjónustan aðlöguð sértækt að þörfum tiltekins hóps skjólstæðinga. Þá gætu félagasamtök sem hefðbundið starfa til stuðnings samfélagsþjónustunni, eins og Alzheimerfélagið, Parkinsonsfélagið eða Heilavernd, svo að dæmi séu tekin, einnig horft á markvissari hátt til þjónustunnar og lífsgæða fólks á hjúkrunarheimilum. Loks gætu slík félög spurt sig og heilbrigðisyfirvöld spurningarinnar: Hvað mætti bæta eða styrkja í samfélagsþjónustunni svo að einstaklingar með tiltekið viðfangsefni geti dvalið lengur heima? Og beita síðan heilbrigðum þrýstingi, svo að það megi verða.
Höfundur er lyf- og öldrunarlæknir, prófessor emeritus við læknadeild Háskóla Íslands.