„Við erum afskaplega ánægð með hvernig til tókst, þetta er fyrsta sérhannaða heilsugæslustöðin sem tekin er í notkun á Akureyri og var kominn tími til,“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, HSN, en ný heilsugæslustöð var tekin formlega í notkun í Sunnuhlíð á Akureyri í gær. Hafði stöðin tekið á móti skjólstæðingum frá 19. febrúar sl.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var viðstaddur opnun stöðvarinnar og lýsti einnig yfir ánægju með hversu vel verkið hefði tekist.
HSN fær til umráða bróðurpartinn af efri hæð Sunnuhlíðar, samtals um 1.700 fermetra. Nýbygging var reist til norðurs og er hún sambyggð við fyrri byggingu. Nýbyggingin er ríflega 800 fermetrar að stærð. Fasteignafélagið Reginn á það pláss sem heilsugæslustöðin hefur til umráða. Voru fulltrúar Regins einnig viðstaddir athöfnina í gær, auk starfsfólks og fleiri gesta.
Útkoman stórglæsileg
„Ég neita því ekki að ég varð mjög hugsi eftir að Reginn bauð okkur þetta pláss undir heilsugæslustöð, við höfðum verið í svonefndu Amarohúsi í miðbæ Akureyrar þar sem var verslun. Það hélt fyrir mér vöku heila nótt að hugsa hvernig það endaði að fara úr einni verslunarmiðstöð yfir í aðra,“ segir Jón Helgi. „Ég þurfti ekki að óttast neitt, útkoman er stórglæsileg og allir ánægðir með þessa niðurstöðu.“
Nýja heilsugæslustöðin er vel búin. Þar er veitt öll almenn læknaþjónusta, húkrunarmóttaka, mæðravernd, ungbarnavernd sem og önnur þjónusta við íbúa Akureyrar og nærsveitarfélög.
Þakklátur starfsfólkinu
Jón Helgi segir að fyrra húsnæði stöðvarinnar hafi ekki lengur verið boðlegt en vonar að umskiptin yfir í bjarta og fallega heilsugæslustöð verði til þess að efla starfsandann og laða að nýtt fólk til starfa.
„Við erum okkar starfsfólki mjög þakklát fyrir þolinmæðina við bið eftir betri aðstöðu. Við heyrum ekki annað en starfsfólkið sé ánægt og það hefur allt farið vel af stað fyrstu dagana sem stöðin hefur verið starfandi,“ segir hann.
Bílastæðamál þurfi þó að skoða betur og á þeim verði fundin viðunandi lausn áður en langt um líður.