Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði í gær einróma að einstök ríki hefðu ekki rétt til þess að meina fólki sem hefði orðið bert að uppreisn gegn alríkinu að bjóða sig fram til embætta á vegum alríkisins

Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði í gær einróma að einstök ríki hefðu ekki rétt til þess að meina fólki sem hefði orðið bert að uppreisn gegn alríkinu að bjóða sig fram til embætta á vegum alríkisins.

Hæstiréttur Colorado hafði áður reynt að meina Donald Trump fyrrverandi forseta að bjóða sig fram í forvali Repúblikana í ríkinu, þar sem dómurinn taldi að aðkoma hans að árásinni á þinghúsið 6. janúar 2021 væri þess eðlis að samkvæmt 3. grein 14. viðbótar stjórnarskrárinnar mætti Trump ekki bjóða sig fram.

Hæstiréttur Bandaríkjanna komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að einstökum ríkjum væri heimilt að beita greininni þegar kæmi að embættum innan ríkjanna, en að alríkið sjálft yrði að beita greininni á alríkisembætti. Fimm dómarar af níu voru á því að Bandaríkjaþing yrði að setja reglur um beitingu greinarinnar, en fjórir dómarar skiluðu minnihlutaáliti þar sem þeir sögðu að með því væri gengið of langt.