Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Borgarfulltrúinn Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir mun leggja til á fundi borgarstjórnar í dag að lóðin og húsnæðið á Ægisíðu 102 verði nýtt undir leikskólapláss en þar hefur verið bensín- og smurstöð í áraraðir.
„Ég er í raun að leggja til að borgin leiti samninga við lóðarhafa með það að markmiði að leysa til sín lóðina í samráði við lóðarhafa og nýta lóðina og húsnæðið undir leikskólastarfsemi og um leið að varðveita húsnæðið. Þetta er einstakt tækifæri enda er framboð á leikskólaplássum mikið vandamál í Vesturbænum eins og í fleiri af þéttari hverfunum,“ segir Ragnhildur og bendir á að mikil eftirspurn sé eftir leikskólaplássi. Telur hún að á þessari einu lóð mætti koma fyrir 150 leikskólabörnum.
„Auk þess væri þetta ódýrari leið fyrir borgina að nýta þetta svæði í stað þess að leita að nýrri lóð. Hægt væri að samnýta svæðið með Ægisborg. Ég tel því að þetta gæti haft mjög góð áhrif á leikskólamálin í hverfinu en einnig yrði húsið varðveitt,“ segir Ragnhildur og færir rök fyrir því að varðveita skuli húsið.
„Borgarsögusafn Reykjavíkur segir húsið hafa hátt varðveislugildi og byggingasögulegt gildi. Húsið er stórt og í laginu eins og kuðungur en maður áttar sig ekki endilega á því þegar húsið er í þessum bensínstöðvarham. Ég held að með hamskiptum myndi húsið fá að njóta sín vel,“ segir Ragnhildur sem mun tala fyrir hugmyndinni fyrir hönd borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.