Sebastiaan Boelen
Sebastiaan Boelen
Marel hefur komist að samkomulagi við Stacey Katz, fráfarandi fjármálastjóra félagsins, um starfslok hennar hjá félaginu. Sebastiaan Boelen hefur verið ráðinn í hennar stað í stöðu fjármálastjóra frá og með deginum í gær

Marel hefur komist að samkomulagi við Stacey Katz, fráfarandi fjármálastjóra félagsins, um starfslok hennar hjá félaginu. Sebastiaan Boelen hefur verið ráðinn í hennar stað í stöðu fjármálastjóra frá og með deginum í gær.

Í tilkynningu frá Marel kemur fram að Sebastiaan búi yfir 25 ára reynslu á sviði fjármála og rekstrar í alþjóðlegum fyrirtækjum og hann hefur bæði hollenskt og breskt ríkisfang. Reynsla hans spannar mismunandi svið iðnaðar, þar á meðal framleiðslu, matvæla, drykkjarfanga og tækni. Sebastiaan var áður hjá Southern Water í Bretlandi þar sem hann var fjármálastjóri samstæðunnar í fjögur ár. Fyrir það starfaði hann við fjármálastjórn og rekstur, meðal annars hjá Arrow Global, SPI Group og Black & Decker.

Fram kemur að Stacey hafi starfað hjá Marel í tíu ár. Hún mun vera félaginu innan handar sem ráðgjafi út fjárhagsárið, samkvæmt tilkynningunni.

„Ég vil bjóða Sebastiaan innilega velkominn til Marel. Hann er afar reynslumikill fjármálastjóri og ég hlakka til að fá hann til starfa. Alþjóðleg og yfirgripsmikil reynsla Sebastiaans mun nýtast félaginu vel til að grípa þau viðamiklu tækifæri sem í félaginu búa og tryggja áframhaldandi vöxt og viðgang í takt við fjárhagsmarkmið félagsins,“ segir Árni Sigurðsson, forstjóri Marel, í tilkynningunni.

„Fyrir hönd Marel vil ég þakka Stacey Katz fyrir vel unnin störf og mikilvægt framlag hennar í gegnum árin, þá sérstaklega í áskorunum síðustu ára. Við óskum henni alls hins besta og farsældar í framtíðarverkefnum,“ er jafnframt haft eftir Árna.