Gísli Freyr Valdórsson
gislifreyr@mbl.is
Nú kemur að þeim tíma ársins þar sem aðalfundir skráðra fyrirtækja eru haldnir. Yfirleitt eru þeir fundir tíðindalitlir nema fyrir þá sem eiga beina aðkomu að rekstri félaganna, s.s. starfsmenn, stjórnendur og stærstu hluthafa. Helstu undantekningarnar eru þó þegar tekist er á um stjórnarsæti í félögunum og á liðnum tveimur árum hafa komið upp fleiri og fleiri tilvik þar sem það á við. Í um áratug þar á undan heyrði það til undantekninga að tekist væri á um stjórnarsæti og í flestum tilvikum greiddu þeir hluthafar sem sóttu fundina atkvæði þeim aðilum sem tilnefndir voru af tilnefningarnefndum félaganna.
Þetta er þó ekki algilt. Fólki er heimilt að bjóða sig fram án þess að vera tilnefnt af tilnefningarnefnd og nokkur dæmi eru um slíkt. Í flestum tilvikum hafa þeir frambjóðendur þó ekki náð kjöri. Þá hefur sem fyrr segir verið tekist á um stjórnarsæti í einstaka félögum nýverið. Til að mynda þegar kosið var á ný í stjórn Festi sumarið 2022 og eins þegar nýir fjárfestar komu inn í hluthafahóp Sýnar sama ár.
Konurnar sjálfkjörnar
Að öllu óbreyttu verður tekist á um stjórnarsæti í Festi á aðalfundi félagsins á morgun. Sjö einstaklingar hafa boðið sig fram í fimm stjórnarsæti. Tilnefningarnefnd félagsins hafði skilað fimm tilnefningum en þar vakti athygli að Þórður Már Jóhannesson, fyrrverandi stjórnarformaður félagsins, var í framboði á ný – en hann sagði sig úr stjórn í byrjun árs 2022.
Tveir buðu sig fram til viðbótar, þeir Guðjón Auðunsson, fráfarandi forstjóri Reita fasteignafélags, og Gylfi Ólafsson, fyrrverandi forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Því er ljóst að þær Sigurlína Ingvarsdóttir (sem í dag er varaformaður stjórnar) og Margrét Guðmundsdóttir verða sjálfkjörnar á fundinum, en fimm manns munu keppa um þau þrjú sæti sem eftir eru. Til viðbótar við Þórð Má, Guðjón og Gylfa eru í framboði þeir Guðjón Reynisson (sem nú er stjórnarformaður) og Hjörleifur Pálsson sem þegar situr í stjórn.
Kölluðu eftir Þórði Má í stjórn
Framboð Þórðar Más kom þeim sem þekkja vel til mála í Festi ekki á óvart. Sem kunnugt er sagði hann sig frá stjórnarstörfum vegna ásakana sem lagðar voru fram gegn honum og fleiri mönnum um meint kynferðisbrot. Málið var síðar látið niður falla eftir rannsókn lögreglu og hafa mennirnir verið hreinsaðir af þeim ásökunum.
Þórður Már er einn stærsti einkafjárfestirinn í Festi, en félag hans fer með tæplega 2% hlut. Hann nýtur stuðnings annarra einkafjárfesta og tiltekinna lífeyrissjóða. Festi er sem kunnugt er að langmestu leyti í eigu lífeyrissjóða, sem eiga samtals um 70% hlut í félaginu. Flestir þeirra höfðu fundað með tilnefningarnefnd áður en nefndin kynnti tillögur sínar og í þeim samtölum kom fram almennur vilji til að fá fulltrúa úr hópi einkafjárfesta til að taka sæti í stjórn. Þar bar nafn Þórðar Más oftast á góma.
Tveir lífeyrissjóðir – Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) og Brú – hafa þó opinberlega lýst yfir andstöðu við framboð Þórðar Más.
Leituðu að frambjóðendum
Ljóst er að LSR og Brú munu því ekki fara eftir tillögum tilnefningarnefndar. Rétt er að taka fram, svo um það ríki enginn misskilningur, að lífeyrissjóðum og öðrum hluthöfum er frjálst að ráðstafa atkvæðum sínum eins og þeir vilja og tillögur tilnefningarnefnda jafngilda ekki kjöri.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hvatti LSR til þess að aðrir aðilar gæfu kost á sér í stjórn. Þannig herma heimildir blaðsins að Harpa Jónsdóttir, framkvæmdastjóri LSR, hafi átt samtöl við nokkra aðila, þ.m.t. Guðjón Auðunsson, og hvatt þá til að bjóða sig fram í þeim tilgangi að koma í veg fyrir kjör Þórðar Más.
Morgunblaðið sendi fyrirspurn á LSR og aðra lífeyrissjóði um tilurð og tillögur tilnefningarnefnda og það hvernig atkvæðum sjóðanna væri ráðstafað á aðalfundum. Í svari LSR, sem sent er af upplýsingafulltrúa sjóðsins fyrir hönd Hörpu, kemur fram að sjóðurinn taki mið af tilnefningum nefndanna, en þær fari hins vegar ekki með atkvæðisrétt hans á hluthafafundi. Því leggi sjóðurinn sjálfstætt mat á þá stjórnarmenn sem eru til kjörs.
Til eru dæmi þess að einstaklingar sem hafa eftir atvikum haft réttarstöðu sakbornings eða staðið í flóknum dómsmálum hafi setið og sitji enn í stjórnum skráðra félaga án þess að LSR eða aðrir sjóðir hafi gert athugasemd eða greitt atkvæði gegn viðkomandi. Þegar spurt er um þetta segir í svari sjóðsins að ásýnd, orðspor, traust og trúverðugleiki séu sjálfstæð hæfisskilyrði óháð öðru.
„Sjóðurinn á í margvíslegum trúnaðarsamtölum og tjáir sig ekki um samskipti við einstaka aðila,“ segir í svari sjóðsins um það hvort LSR hafi verið í sambandi við Guðjón í aðdraganda þess að framboðsfrestur rann út.
Lífeyrissjóðir stærstir
Þekkir stöðu Haga vel
Hagar eru í dag meðal stærstu leigutaka Reita. Guðjón Auðunsson, sem býður sig fram í stjórn Festi eins og fjallað er um hér á síðunni, mun sem kunnugt er láta af störfum hjá Reitum á næstu vikum. Eðli málsins samkvæmt býr hann yfir upplýsingum um viðskiptasamband Haga og Reita. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur framboð hans truflað marga í hluthafahópi Haga. Líkt og í Festi eiga lífeyrissjóðir stærstan hlut í Högum, samtals um 74% hlut.