Eldur Ísidór
Eldur Ísidór
Grein vegna gagnaleka frá WPATH sem verður gerður opinber í næstu viku.

Eldur Ísidór

Fjölmiðlar og almenningur geta með réttu velt því fyrir sér hvers vegna lítil og nýorðin tveggja ára grasrótarsamtök samkynhneigðra á litla Íslandi séu þátttakandi í stóru alþjóðlegu verkefni uppljóstrana eins og á borð við það sem verður kynnt núna á miðvikudaginn, 6. mars næstkomandi.

Síðan Samtökin 22, Hagsmunasamtök samkynhneigðra, voru stofnuð höfum við barist gegn transferli barna, kynþroskabælandi meðferðum, kynstaðfestandi meðferðum, skurðlækningum og hverskyns kynjakukli því allt telst þetta til ógagnreyndra meðferða, sem nota bene urðu ólöglegar núna um áramótin, sé hægt að sanna það fyrir dómstólum að hótunum, nauðung eða blekkingum hafi verið beitt. Langstærsti meirihluti þeirra barna sem tjá einhvers konar kynama í æsku læknast af honum við kynþroska og vaxa úr grasi sem samkynhneigðir einstaklingar – oft á einhverfurófinu.

Síðustu mánuði hafa samtökin sem ég er í forsvari fyrir, ásamt fjölda annarra samtaka víðsvegar á Vesturlöndum, unnið með gagnaleka frá Alþjóðlegu translækningasamtökunum (World Professional Association for Transgender Health) WPATH.

Í gögnunum kemur fram að „fagfólk“ hafi viljandi farið í orðaleiki til þess að fá sitt fram gagnvart sjúkratryggingum hinna og þessara ríkja á Vesturlöndum, t.d. með því að hætta að tala um kynama (e. Gender dysphoria) sem er geðsjúkdómur í DSM-5 greiningarhandbókinni og tala um kynmisræmi í staðinn sem aðgerðasinnar (voru klappaðir af hástöfum upp af stóru lyfjarisunum) fengu skráð sem greiningu í ICD-11 undir kynheilbrigði.

Við þessa „breytingu“ gátu samtök á borð við Planned Parenthood í Bandaríkjunum farið að dúndra út kynþroskabælandi lyfjum og kross-hormónum án þess að spyrja kóng eða prest, og jafnvel aðeins eftir að hafa hitt sjúklinginn í örfáar mínútur. Engir varnaglar – ekkert stress. Sjúklingurinn greinir sjálfan sig og stjórnar svo ferlinu alveg sjálfur. Og það gerir meira segja ekkert til þótt viðkomandi sé þroskaheft 13 ára gamalt barn.

Já, aðgerðasinnarnir voru nytsamir fábjánar lyfjarisanna og einkareknu brjóstasláturhúsanna sem skera af ungum stúlkum brjóstin fyrir góða summu peninga, jafnvel fyrir það eitt að nenna ekki í Barbie.

Því allt er þetta jú drifið áfram af peningum. Íslenskum stúlkum allt niður í 11 ára stendur nú til boða að fara í eggheimtu. Já, á Íslandi og það virðist bara ekki vera neitt mál. Ég tel mig vita að þær konur sem hafa farið í eggheimtu myndu aldrei vilja leggja þetta á stúlkur á barnsaldri. Þær vita hvað ég meina.

En eitthvað verða Munchausen-by-proxy mömmurnar að hafa til þess að vekja athygli á hversu mikið ævintýri þessar limlestingar á börnunum þeirra sé.

Þann 15. febrúar sl. skrifaði ég opið bréf til Landlæknis vegna afstöðu embættisins til þessara ógagnreyndu, siðlausu og hættulegu meðferða. Þau sendu okkur svar í ágúst að þau „treystu sérfræðingunum og færu eftir viðmiðunarreglum SOC 8 frá WPATH.“

WPATH-translæknasamtökin og samband þeirra við Ísland

Michael Schellenberger fékk WPATH-skjölin í hendur fyrir mörgum mánuðum. Hann fékk skjölin í hendur af einstaklingum sem höfðu fylgst með verkefni hans um Twitter-skjölin svokölluðu sem hann fékk í hendur frá Elon Musk. Þau skjöl ljóstruðu upp um afskipti samfélagsmiðla af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2020 og ritskoðun sem þeim tengdist. Michael gerði sér grein fyrir að á þessi skjöl þyrfti að koma röð og reglu og gera þau aðgengileg fyrir almenning um allan heim. Við tók sú vinna að koma skjölunum í læsilegt form, en engum gögnum skjalanna hefur verið breytt. Skýrslan var gerð því að þessi gagnaleki þarf að vera skoðaður í víðara samhengi en hægt er með einhverri röð fréttagreina eða fréttaskýringa.

Það er siðferðislegt mat okkar að okkur er skylt að birta WPATH-skýrsluna og fylgigögn hennar og við hvetjum fjölmiðla til þess að taka þátt í að koma henni áleiðis til almennings og til heilbrigðisstarfsmanna. Skjölin sýna fram á að WPATH er ekki sú vísindalega sérfræðistofnun í málefnum fólks með kynama eða sem skilgreinir sig trans. Engin heilbrigðisstofnun, og hvað þá Landlæknisembætti Íslands, ætti nokkurn tímann að vitna í þessi samtök kuklara og loddara. Það er bókstaflega lífshættulegt og langt fyrir neðan virðingu okkar sem Íslendinga.

Því miður er ástandið í íslensku samfélagi þannig að lítill hávær hópur með algjört óþol fyrir funda- og skoðanafrelsi gerir allt til þess að fólk geti alls ekki hist á fundi og rætt þessi mál. Þess vegna boðum við til leynilegs fundar með fjölmiðlum og alþingismönnum, heilbrigðisráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, forsætisráðherra, landlækni og Birni Hjálmarssyni, yfirlækni Transteymis BUGL, sem er sérstaklega velkominn.

WPATH-skýrslan verður kynnt á upplýsingafundi miðvikudaginn 6. mars kl. 14.

Fundurinn er samvinnuverkefni Genspect, Environmental Progress, Sex Matters, Dansk Regnbueråd, Gay Men’s Network og fleiri. Erlendum blaðamönnum hefur einnig verið boðið á fundinn.

Nánari upplýsingar um fundinn og skráning með símanúmeri og netfangi á press@samtokin22.is.

Höfundur er formaður Samtakanna 22 – Hagsmunasamtaka samkynhneigðra.

Höf.: Eldur Ísidór