Kampakát Tónlistarkonan Raye tekur við verðlaunum fyrir plötu ársins ásamt ömmu sinni.
Kampakát Tónlistarkonan Raye tekur við verðlaunum fyrir plötu ársins ásamt ömmu sinni. — AFP/Henry Nicholls
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Söngkonan og lagahöfundurinn Raye hlaut flest verðlaun, sex alls, á Bresku tónlistarverðlaununum, Brit Awards, og setti með því met í fjölda verðlauna, en mest hafa listamenn aðeins hlotið fjögur verðlaun á hátíðinni

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Söngkonan og lagahöfundurinn Raye hlaut flest verðlaun, sex alls, á Bresku tónlistarverðlaununum, Brit Awards, og setti með því met í fjölda verðlauna, en mest hafa listamenn aðeins hlotið fjögur verðlaun á hátíðinni. Hátíðin var haldin í O2-höllinni í London um helgina.

Hin 26 ára Raye, eða Rachel Keen, var valin besti tónlistarmaður ársins, besta R&B-atriðið og besti nýi tónlistarmaðurinn. Þá var lag hennar „Escapism“ valið besta lag ársins og platan My 21st Century Blues valin besta plata ársins. Sjöttu verðlaunin voru í flokki bestu lagahöfunda, en þau verðlaun höfðu verið tilkynnt fyrir fram.

„Hvað er eiginlega að gerast?“ sagði Raye þegar hún tók við verðlaununum í flokki besta nýja listamanns, skv. AFP.

Áður en Raye fór að gera tónlist undir eigin nafni hafði hún samið lög fyrir listamenn á borð við Beyonce, Jennifer Lopez og Little Mix. „Listamaðurinn sem ég var fyrir þremur árum myndi ekki trúa eigin augum,“ sagði hún einnig þegar hún tók við verðlaunum.

Raye hafði strax sett met þegar tilnefningarnar voru tilkynntar, en hún er fyrst til að hljóta sjö tilnefningar á einni og sömu hátíðinni. Hún var einnig tilnefnd í flokknum besta poppatriðið en þar var það Dua Lipa sem hlaut verðlaunin.

Jungle var valin besta breska hljómsveitin. Bandaríska tónlistarkonan SZA var valin alþjóðlegi listamaður ársins og bandaríska sveitin Boygenious var valin alþjóðlega hljómsveit ársins. „Flower“ eftir Miley Cyrus var valið besta alþjóðlega lagið.

Ástralska söngkonan Kylie Minogue var heiðruð með sérstökum verðlaunum ætluðum alþjóðlegum stórstjörnum, Brit Awards Global Icon Prize, og tróð hún upp af því tilefni. Fleiri listamenn stigu á svið, svo sem Calvin Harris, Ellie Goulding, Dua Lipa og sjálf Raye.

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir