Upphlaup Starfsmenn þingsins sýndu snarræði við að stöðva manninn eftir að hann kleif yfir handriðið.
Upphlaup Starfsmenn þingsins sýndu snarræði við að stöðva manninn eftir að hann kleif yfir handriðið. — Ljósmynd/Ásmundur Friðriksson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gera þurfti hlé á þingfundi í gær eftir að þrír aðgerðasinnar hófu háreysti á þingpöllum, en einn þeirra klifraði yfir handrið þeirra og gerði sig líklegan til þess að stökkva niður í þingsalinn. Starfsmenn þingsins og lögregla sýndu snarræði við að stöðva manninn, en Jón Gunnarsson, fv

Andrés Magnússon

Viðar Guðjónsson

Gera þurfti hlé á þingfundi í gær eftir að þrír aðgerðasinnar hófu háreysti á þingpöllum, en einn þeirra klifraði yfir handrið þeirra og gerði sig líklegan til þess að stökkva niður í þingsalinn. Starfsmenn þingsins og lögregla sýndu snarræði við að stöðva manninn, en Jón Gunnarsson, fv. dómsmálaráðherra, kom jafnframt til aðstoðar við að koma manninum aftur inn á þingpallana.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði þingheim að vonum sleginn vegna þessa atburðar, en vonar að hann verði ekki til þess að þingpöllum verði lokað fyrir almenningi. Þeir séu ríkur þáttur í íslenskri lýðræðishefð.

Lögregla fjarlægði mennina, en Ásmundur Rúnar Gylfason, stöðvarstjóri lögreglunnar í Reykjavík, sagði að maðurinn sem mest hafði sig í frammi yrði ekki fangelsaður.

„Við munum ekki vista hann í fangageymslu, en erum þess í stað að reyna að greiða götu hans,“ sagði Ásmundur í samtali við mbl.is. Sagði hann reynt að finna manninum viðeigandi úrræði.

Truflaði framsögu dómsmálaráðherra

Atvikið átti sér stað kl. 15.48 í gærdag, þegar Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra var nýgengin í pontu til þess að mæla fyrir frumvarpi sínu um breytingar á útlendingalögum. Hún náði þó ekki að segja meira en nokkrar setningar þegar hróp voru gerð að henni af þingpöllum og maðurinn fór yfir handriðið.

Dómsmálaráðherra gerði þegar hlé á máli sínu og beið þess sem verða vildi í ræðustóli. Þingheimi brá skiljanlega mikið, flestir spruttu á fætur og leituðu sumir skjóls í hliðarsölum. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, hélt ró sinni, sló í bjölluna og frestaði þingfundi þegar í stað. Jón Gunnarsson fór hins vegar úr þingsalnum til þess að aðstoða á þingpöllunum.

Fáir og tók fljótt af

Á þingpöllunum var ekki margt manna, en bæði þingvörður og lögregluþjónn, sem gátu því haft hraðar hendur og innan skamms kom annar þingvörður til hjálpar. Þrátt fyrir háreystina og óróann sem af hlaust varði ástandið ekki lengi.

Eftir því sem næst verður komist eru aðgerðasinnarnir þrír allir hælisleitendur, en óstaðfestar heimildir herma að sá sem fór yfir handriðið sé Íraki sem dvalist hefur hér á landi um nokkurn tíma. Annar hinna hafði sig mikið í frammi á þingpöllunum með hrópum og köllum, en sá þriðji hélt sér að mestu til hlés.

Þingfundur hófst á ný skömmu upp úr klukkan fjögur og tók dómsmálaráðherra til við að mæla fyrir frumvarpinu þar sem frá var horfið. Hálftíma síðar hófst umræða um það og lauk fyrstu umræðu málsins rétt fyrir kl. tíu í gærkvöld.

Má ekki verða til þess að þingpöllum sé lokað

„Svona atburðir gera þingmönnum skiljanlega hverft við,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið, en hún var nýfarin úr þingsalnum þegar rósturnar hófust.

„Slíkar uppákomur mega samt ekki verða til þess að þingpöllum sé lokað. Það er mikilvægt að þeir séu opnir kjósendum; það er mikilvægt fyrir okkar lýðræðishefð,“ segir Katrín og bætir við að það sé þakkarvert hve skjótt og örugglega starfsmenn Alþingis og lögreglulið hafi brugðist við.

Forsætisráðherra segir þennan atburð til marks um hversu viðkvæmur málaflokkurinn sé. „Þarna býr bersýnilega örvænting að baki og mikilvægt að við vöndum okkur í umfjöllun um þessi mál.“

Aðrir þingmenn sem blaðið ræddi við tóku í sama streng. Öllum hafði brugðið við og margir ekki áttað sig á því hvaðan á þá stóð veðrið.

Flestir, sem áttuðu sig á því hvað var á seyði, nefndu að þeir hefðu óttast um manninn og að hann kynni að skaða sjálfan sig. Eftir sem áður þyrfti að tryggja öryggi Alþingis og að það gæti ráðið ráðum sínum í friði. » 10

Hróp á Alþingi

Hótaði að drepa sig

Erfitt var að greina orðaskil hjá aðgerðasinnunum á Alþingi þegar þeir hófu hrópin á þingpöllunum. Svo segja þingmenn sem voru í salnum og upptökur eru ekki heldur greinilegar, auk þess sem vald aðgerðasinnanna á ensku er misgott.

Þó heyrðu menn greinilega þegar maðurinn, sem fór yfir handriðið kallaði „Ég drep mig!“

Ennfremur var hrópað á Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra að hana skorti allt réttlæti og eins að hún væri hjartalaus.

Annar aðgerðasinninn, sem hélt sig á pöllunum hrópaði m.a.: „Þið eigið ekki til réttlæti, þið gerið allt eins og ykkur sýnist“ og einnig: „Þið haldið fólki hér í fjögur ár. Til hvers?“

Höf.: Andrés Magnússon