Kolbrún Bergþórsdóttir
kolbrun@mbl.is
Systurnar Lilja og Ingibjörg Birgisdætur sýna saman í Þulu, Marshallhúsinu. Á sýningunni, sem hefur titilinn Hlutskipti, eru handmálaðar ljósmyndir, resinverk og vídeóverk. Systurnar hafa sýnt bæði hér og erlendis, venjulega hvor í sínu lagi. Þær sýndu síðast saman árið 2010 en segjast stanslaust vera að skapa saman.
„Við unnum verkin á þessari sýningu saman. Við stóðum báðar í mismunandi flutningum og vorum að drukkna í drasli. Þegar fór að gjósa inni í Grindavíkurbæ var ég að flytja kassa úr geymslunni minni í aðra geymslu. Það var þessi þvílíki viðburður í gangi og ég fylgdist bara með því meðan ég var að bera dót. Allt í einu fannst mér svo tilgangslaust að vera að bera þetta dót úr einni geymslu í aðra. Þá komst ég að því að þetta er það sem við gerum alla okkar ævi, við erum stöðugt að bera drasl á milli staða og svo deyjum við,“ segir Ingibjörg um leið og hún hlær og bætir við: „Við Lilja ákváðum bara að gefast upp fyrir draslinu og skapa eitthvað fallegt úr því. Þannig varð þessi sýning til. Við erum ekki að boða neitt, ekki að hvetja til mínimalísks lífsstíls. Við erum bara að sýna hlutina eins og við sjáum þá.“
Hugleiðingar um hlutskipti
„Blóm er hin fullkomna táknmynd fegurðar. Við bjuggum til blóm úr þessu drasli sem við höfðum sankað að okkur. Sem dæmi er eitt blóm búið til úr snýtupappír, annað úr hárteygjum. Eitt blóm heitir „Óskilamunir“ og samanstendur af stökum hönskum,“ segir Lilja. „Það má segja að við höfum sett ruslið í glansbúning með því að mynda það. Við tókum gullfallegar filmumyndir, handmáluðum þær í gömlum stíl þannig að þær sveipuðust hulu. Í raunveruleikanum voru þessi blóm kannski ekkert óskaplega falleg en í þessum búningi urðu þau að einhverju fallegu.“
Um titil sýningarinnar, Hlutskipti, segir Ingibjörg: „Við erum að velta fyrir okkur hlutskipti okkar í þessu umhverfi þar sem við vinnum hörðum höndum og kaupum okkur hluti sem við felum svo með því að setja þá inn í skáp, niður í kassa eða í geymslu. Titillinn á líka að minna á að stundum eru hlutir verðmætir og stundum missa þeir verðgildi sitt. Við erum að breyta því sem hefur misst verðgildi sitt í eitthvað verðmætt.“
Dáleiðandi geymsla
Vídeóverkið á sýningunni sýnir stórt blóm. „Við bjuggum til þrívíddarverk, stórt blóm, úr alls kyns drasli sem var í geymslunni okkar. Fólk hefur lítinn áhuga á að eyða tíma sínum inni í geymslum en okkur fannst eitthvað skemmtilegt við það að fólk setjist niður og fylgist með þessari geymslu og láti hana dáleiða sig,“ segir Lilja.
Systurnar eiga hlut í fjölskyldufyrirtækinu Fischersund sem er ilmgerð og listasamsteypa. Í haust verður fyrirtækið með einkasýningu í Norræna safninu í Seattle.
Sýning þeirra Lilju og Ingibjargar Birgisdætra í Þulu stendur til 31. mars.