Kastali guesthouse Gestir komu að lokuðum dyrum þegar lögregla sinnti aðgerðum á gistiheimili í miðborginni.
Kastali guesthouse Gestir komu að lokuðum dyrum þegar lögregla sinnti aðgerðum á gistiheimili í miðborginni. — Morgunblaðið/Eggert
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stýrði afar umfangsmiklum aðgerðum sem fjögur lögregluembætti komu að í gær. Lögregla segir aðgerðirnar tengjast því að rökstuddur grunur leiki á að mansalsbrot, peningaþvætti og brot á atvinnuréttindum útlendinga hafi verið framin

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stýrði afar umfangsmiklum aðgerðum sem fjögur lögregluembætti komu að í gær. Lögregla segir aðgerðirnar tengjast því að rökstuddur grunur leiki á að mansalsbrot, peningaþvætti og brot á atvinnuréttindum útlendinga hafi verið framin. Eins grunar lögreglu að um skipulagða brotastarfsemi hafi verið að ræða. Aðgerðirnar hófust á hádegi í gær og stóðu enn yfir síðla kvölds í gær.

Með stærstu aðgerðum

Elín Agnes Kristínardóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknarsviði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að aðgerðirnar hafi verið afar umfangsmiklar og að á sjöunda tug lögreglumanna hafi komið að þeim. „Varðandi þennan málaflokk er þetta með þeim stærstu eða stærsta aðgerðin sem lögreglan hefur staðið í,“ segir Elín.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn á rannsóknarsviði lögreglunnar, segir nokkra hafa verið handtekna í tengslum við aðgerðirnar en vildi ekki staðfesta hversu margir það voru.

Aðgerðir utan Reykjavíkur

Aðgerðum lögreglu utan höfuðborgarsvæðisins var lokið í gærkvöldi og sneru þær að þremur bæjarfélögum sem lögreglan á Suðurlandi, Suðurnesjum og Norðurlandi eystra stóð að. Hjá lögreglunni á Suðurlandi fengust þær upplýsingar að 4-5 lögreglumenn hefðu sinnt aðgerðum á tveimur stöðum í umdæminu.

Aðgerðirnar munu í mörgum tilfellum hafa áhrif á fólk sem hefur atvinnu- og dvalarleyfi og hefur haft atvinnu á þeim stöðum sem aðgerðir lögreglu beindust að.

Fá tímabundið dvalarleyfi

Grímur segir að þessi hópur muni fá viðeigandi aðstoð. „Þar sem grunur leikur á að fórnarlömb mansals séu til staðar þá eru ákveðin úrræði sem eru virkjuð. Þetta fólk fær tímabundið dvalarleyfi og er hjálpað með öðrum hætti hér á landi á meðan málið er skoðað,“ segir Grímur. Hann segir að ekki liggi fyrir um hversu stóran hóp sé að ræða á þessari stundu. Fjöldi stofnana var virkjaður í aðgerðunum. Þannig höfðu velferðarsvið Reykjavíkurborgar, barnaverndaryfirvöld í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði hlutverk, auk þess sem félagsþjónustan í Hafnarfirði, Kópavogi og Bjarkarhlíð á að grípa þá einstaklinga sem verða óbeint fyrir aðgerðum lögreglu. Auk áður greindra stofnana koma einnig embætti ríkislögreglustjóra, tollgæslan, Útlendingastofnun, Vinnumálastofnun, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu og ASÍ að aðgerðunum.

Húsleitir gerðar

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu að meðal annars hafi víða verið gerðar húsleitir. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins snúa aðgerðirnar að veitingastöðum, gistiheimilum og heimilum fólks. Að minnsta kosti hluti eignanna er í eigu Davíðs Viðarssonar. Hann er eigandi Vy-þrifa ásamt Wok On, Kastala Guesthouse og Pho Vietnam auk fleiri veitingastaða. Veitingastaðir Wok On á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði voru lokaðir í gær. Þá lokaði lögregla Kastala guesthouse sem er á mótum Suðurgötu og Kirkjustrætis í miðborg Reykjavíkur. Gestum gistiheimilisins var gert að hringja í neyðarlínuna til að nálgast farangur sinn á gistiheimilinu.

Eins og fram hefur komið var matvælalager í Sóltúni eigu Davíðs lokað á síðasta ári og nokkrum tonnum af matvælum fargað. Í skýrslu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um lokunina sagði að grunur lægi á því að fólk hefði dvalið á lagernum.

Höf.: Viðar Guðjónsson