Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fékk afar góðar viðtökur í Tíblisi í gær og búið var að hengja upp íslenska fánann meðfram öllum breiðgötum að forsetahöllinni, þar sem opinber móttaka forsetans fór fram. Þar var íslenski þjóðsöngurinn leikinn af herlúðrasveit og forsetarnir skiptust á gjöfum. Guðni forseti gaf forseta Georgíu íslenska lopapeysu og hann fékk að gjöf útgáfu af georgískum þjóðbúningi karla, samkvæmt upplýsingum frá forsetaskrifstofu. Þá lagði Guðni forseti blómsveig á minnisvarða um fallnar þjóðhetjur í höfuðborginni.
Eftir opinberu móttökuna var tvíhliða fundur þar sem Guðni forseti og Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra fóru yfir það sem er fram undan í heimsókninni, sem eru orkumálin og græn orka, og möguleikana á frekara samstarfi milli þjóðanna. Dagskránni lauk með hátíðarkvöldverði í forsetahöllinni þar sem spiluð var georgísk tónlist og móttökur voru góðar.
Í dag verður viðskiptaþing þar sem fulltrúar íslenska orkugeirans og þess georgíska skoða stöðuna, en þinginu verður stýrt af Guðlaugi Þór umhverfisráðherra og Levan Davitashvili, efnahags- og sjálfbærniráðherra Georgíu. Þá fer forsetinn í vettvangsferð að stjórnsýslumörkum Suður-Ossetíu, þar sem Rússar hafa haft hernámslið allt frá innrás sinni í Georgíu árið 2008, og farið verður yfir stöðu mannúðarmála á svæðinu.
Eftir vettvangsferðina verður annar tvíhliða fundur þar sem Guðni forseti og Guðlaugur Þór funda með Shalva Papuashvili, forseta þjóðþings Georgíu, og Irakli Kobakhidze, forsætisráðherra landsins. Guðni forseti heldur opinberan fyrirlestur í Tíblisi-háskóla um kosti og galla þjóðernishyggju í hnattvæddum heimi. doraosk@mbl.is