Stjórnandinn „Magnús Ragnarsson hélt svo utan um allt saman og gerði það af öryggi og festu,“ segir rýnir.
Stjórnandinn „Magnús Ragnarsson hélt svo utan um allt saman og gerði það af öryggi og festu,“ segir rýnir. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Langholtskirkja Jóhannesarpassía ★★★·· Tónlist: Johann Sebastian Bach. Texti: Að mestu upp úr Jóhannesarguðspjallinu, þó í bland við aðra texta. Einsöngvarar: Jóna G. Kolbrúnardóttir (sópran), Hildigunnur Einarsdóttir (mezzósópran), Þorbjörn Rúnarsson (guðspjallamaður), Fjölnir Ólafsson (Jesús) og Ólafur Freyr Birkisson (Pílatus). Kór og Kammersveit Langholtskirkju. Konsertmeistari: Páll Palomares. Stjórnandi: Magnús Ragnarsson. Tónleikar í Langholtskirkju 25. febrúar 2024.

Tónlist

Magnús Lyngdal Magnússon

Passíurnar tvær sem varðveist hafa eftir Johann Sebastian Bach (1685-1750), Jóhannesarpassían (1724) og Matteusarpassían (1727), eru risavaxin kirkjutónverk sem tónskáldið samdi til flutnings á föstudaginn langa. Í báðum verkum er píslarganga Krists tónsett. Tónlistin í passíunum er byggð upp með svipuðum hætti og í um 200 kirkjukantötum sem Bach samdi og skiptist þannig ýmist í söngles eða aríur, kórþætti og sálmalög (kórala).

Jóhannesarpassían (eða Passio secundum Joannem) er í 40 þáttum og skiptist í tvo hluta og er sá seinni mun lengri. Verkið er Kór Langholtskirkju kært enda hefur hann flutt það margoft, fyrst árið 1984 eða fyrir sléttum fjörutíu árum. Jóhannesarpassían fagnar líka 300 ára afmæli í ár, en verkið var frumflutt á föstudaginn langa árið 1724 (sem hitti á 14. apríl) í Nikulásarkirkjunni í Leipzig. Bach gerði umtalsverðar breytingar á passíunni eftir frumflutninginn en sú gerð sem langoftast hljómar í dag er sú sem tónskáldið gekk frá á árunum 1739 til 1749.

Upphaf Jóhannesarpassíunnar, það er að segja upphafskórinn („Herr, unser Herrscher“), er mjög eftirminnilegur. Fyrstu 18 taktarnir eru leiknir einvörðungu af hljómsveitinni með löngum, ómstríðum línum í blásurunum. Svo kemur kórinn inn með þremur hljómum á orðinu „Herr“. Hér fór Magnús Ragnarsson þá leið að kórinn syngur fyrstu tvo hljómana sterkt (forte) og það þriðja veikar (mezzo forte eða jafnvel piano). Þetta kom ákaflega vel út og það sama var uppi á teningnum í hvert skipti sem þetta mótíf kom fyrir aftur í kaflanum. Þá byggði hann upp nokkra spennu (crescendo) í aðdraganda hljómanna, sem er vel.

Almennt var jafnvægið milli radda í kórnum nokkuð gott og yfirleitt heyrðist vel í karlaröddunum. Þá var líka oftast fínt jafnvægi milli kórs og hljómsveitar (sem var býsna lítil) en það kom fyrir á köflum að kraftmikill kórinn yfirgnæfði hljómsveitarleikinn. Það er kannski ekki skrítið miðað við það að kórinn var skipaður 31 söngvara en í hljómsveitinni voru aðeins 14 hljóðfæraleikarar.

Um söng kórsins má segja að hann var góður. Innkomur, sem sumar eru býsna snúnar, voru yfirleitt fumlausar og söngurinn var samhentur. Ég hefði hins vegar kosið að sálmalögin, kóralarnir, hefðu fengið að „anda“ aðeins meira milli hendinga. Tempóin voru hins vegar fín – þeir voru ekki sungnir of hægt eins og stundum hættir til í Bach. Þá var textaframburður kórsins yfirleitt fínn, en þurr hljómur kirkjunnar skilaði hins vegar nánast engum eftirhljómi og stundum voru allra hröðustu línurnar (yfirleitt sextándupartar í mjög hröðu tempói) aðeins á reiki og allra efstu tónarnir í sópraninum voru á köflum viðkvæmir upp á intónasjón að gera. Þá voru örstutt svör úr kórnum (Pétur, þerna og varðmaður) misjöfn að gæðum.

Kórinn kom hins vegar, sá og sigraði í tveimur síðustu þáttunum, „Ruht wohl, ihr heiligen Gebeine“ og sálmalaginu „Ach Herr, lass dein lieb Engelein“, sem hann söng utanbókar og af miklu öryggi. Sá hinn fyrrnefndi, þýddur sem „Hvíl í friði Drottins bein“, er í hópi fallegustu kóra sem Bach samdi nokkru sinni; geysilega fallegur en um leið átakanlegur og Kór Langholtskirkju flutti hann ákaflega vel.

Einsöngurinn skiptist að langmestu leyti milli fimm einsöngvara og er guðspjallamaðurinn (Evangelist) fyrirferðarmestur; hann er nánast alltaf á sviðinu að kórköflum slepptum. Til stóð að Benedikt Kristjánsson færi með hlutverkið en hann forfallaðist á síðustu stundu og Þorbjörn Rúnarsson hljóp í skarðið með nokkurra klukkustunda fyrirvara. Ég vil hrósa Þorbirni fyrir framtakið, enda hefði sjálfsagt þurft að aflýsa tónleikunum ef stáltaugar hans hefðu ekki borið hann í gegnum hlutverkið. Þorbjörn hefur bjarta, fallega tenórrödd en eins og gefur að skilja stóð ekki til að hann syngi þetta erfiða hlutverk á tónleikunum í Langholtskirkju. Í sem stystu máli má segja að sumt hafi gengið upp hjá honum, annað ekki. Fyrsta innkoma hans, strax eftir upphafskórinn, var fumlaus (ég tók meðal annars eftir því að hann leit aldrei í nóturnar þarna í upphafi) en almennt má segja að sönglesin hafi verið betur sungin en aríurnar tvær, einkum sú fyrri. Textaframburður hans var góður og á köflum býsna leikrænn. En þó að ekki hafi allt gengið upp vil ég sérstaklega hrósa Þorbirni, hann gerði það að verkum að tónleikarnir voru yfirleitt haldnir.

Hildigunnur Einarsdóttir (alt) söng „Von den Stricken meiner Sünden“ (fyrri hluti) og „Es ist vollbracht!“ (seinni hluti). Báðar aríurnar voru mjög vel fluttar en hljómsveitin var ívið of sterk í þeirri fyrri. Seinni arían er meðal þess fallegasta sem Bach samdi og minnti mig á að margt af því besta sem tónskáldið samdi nokkru sinni er einmitt skrifað fyrir altröddina (t.a.m. „Erbarme Dich“ úr Matteusarpassíunni og „Agnus dei“ úr h-moll messunni). Dökk og falleg rödd Hildigunnar naut sín vel í þessum aríum, ekki hvað síst í „Es ist vollbracht!“. Bjartur sópran Jónu G. Kolbrúnardóttur kom líka vel út í „Ich folge dir gleichfalls mit freudigen Schritten“ (fyrri hluti) og „Zerfließe, mein Herze, in Fluten der Zähren“ (seinni hluti). Aríurnar söng Jóna af öryggi og var flutningur hennar mjög músíkalskur. Þeir Fjölnir Ólafsson (Jesús) og Ólafur Freyr Birkisson (Pílatus) skiluðu líka sínu mjög vel og voru mjög leikrænir á köflum, ekki hvað síst í samtölum sínum í seinni hluta verksins. Þeir sungu aríurnar sínar líka vel og ég vil sérstaklega nefna aríu Fjölnis í seinni hlutanum, „Eilt, ihr angefochtnen Seelen“ og hvernig hann söng orðin „nach Golgatha!“ Svörin hjá kórnum, „Wohin?“, voru hins vegar ekki alltaf „hrein“ (intónasjón).

Fáliðuð Kammersveit Langholtskirkju lék vel undir forystu Páls Palomares. Ég vil sérstaklega hrósa einleik þeirra Páls og Hrafnkels Orra Egilssonar. Leikur hljómsveitarinnar var samhentur en strengirnir hefðu mátt vera fjölmennari, einkum til að vega upp á móti kórnum á hljómmestu stöðunum.

Magnús Ragnarsson hélt svo utan um allt saman og gerði það af öryggi og festu eins og hann á vanda til. Oftast voru tempóin nokkuð gangandi en eins og ég nefndi að ofan hjálpaði þurr hljómur í þéttsetinni kirkjunni ekki flutningnum, þ.e.a.s. verkið fékk lítið að „hljóma“ og hefði sjálfsagt skilað sér að einhverju leyti „betur“ á stað með ríkulegri eftirhljómi.

Það er snúið að flytja Jóhannesarpassíuna og jafnvel þó að verkið skorti „þá formfestu sem einkennir Matteusarpassíuna“, eins og Jón Ásgeirsson nefnir í inngangi í tónleikaskrá, er hún gullfallegt verk sem á erindi við okkur á öllum tímum. Það gekk kannski ekki allt upp í Langholtskirkju sunnudaginn 25. febrúar síðastliðinn. Það sem á annað borð tókst vel var einkar smekklega gert og þá ekki hvað síst þegar kórinn bað undir lokin (blaðlaust) heilög bein Drottins að hvíla í friði, þ.e.a.s. þau sem „græta mig ei meir“.