Árni Ragnarsson fæddist 6. mars 1949 á Sauðárkróki og ólst þar upp.
Hann gekk í barna- og gagnfræðaskóla á Króknum og Menntaskólann á Akureyri og lauk stúdentsprófi þaðan árið 1969. Hann vann á sumrin við verslunarstörf og í byggingarvinnu á Sauðárkróki og aðeins í vegamælingum á Norðurlandi eystra. Árni innritaðist í Arkitektskolen i Aarhus í Danmörku og brautskráðist með meistaragráðu þaðan 1977, fyrstur Íslendinga.
Árni starfaði hjá Skipulagi ríkisins, síðar Skipulagsstofnun, frá 1977 til 1982. „Fyrst vann ég með arkitektunum Elin og prófessor Carmen Corneil frá Toronto í Kanada, í Vestmannaeyjum. Þau höfðu unnið norræna samkeppni um skipulag í Vestmannaeyjabæ í kjölfar Heimaeyjargossins 1973.“
Frá síðla árs 1979 til 1982 var Árni starfsmaður á Norðurlandsútibúi Skipulags ríkisins á Sauðárkróki. Í framhaldinu starfrækti hann eigin vinnustofu á Sauðárkróki til 2004, lengst í sambýli við verkfræðistofuna Stoð ehf., og þjónustaði sveitarfélög á Norðurlandi vestra í skipulagsmálum og Vestmannaeyjar líka, í samstarfi við Pál Zóphóníasson. Ég vann bæði aðalskipulag og ýmis deiliskipulagsverkefni fyrir sveitarfélög frá Ytri-Torfustaðahreppi í vestri til Siglufjarðar í austri, og Hveravalla á Kili í suðri og verkstýrði vinnu við svæðisskipulag fyrir Skagafjörð.“
Árni sat í fyrstu samvinnunefnd um svæðisskipulag fyrir miðhálendið á lokaspretti hennar. Hann hannaði líka hús og gerði deiliskipulag fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Frá 2004 til starfsloka 2019 starfaði hann á þróunarsviði Byggðastofnunar, m.a. við mótun byggðaáætlana ríkisstjórna og greiningar á þróun landshlutanna. „Síðan 2019 hef ég tekið í nokkur skipulagsverkefni fyrir Stoð ehf.“
Frá 1980 hefur Árni verið félagi í Rótarýklúbbi Sauðárkróks, forseti klúbbsins 1986-87 og 2020-21 og formaður undirbúningsnefndar fyrir umdæmisþing Rótarý á Sauðárkróki 1993. „Ég ritstýrði Króksbók sem gefin var út af Rótarýklúbbnum fyrir umdæmisþingið og endurgerð hennar 2014.“
Hann sat í nefndum Sauðárkrókskaupstaðar á tímabili og átti þátt í Sumarsæluviku á fyrstu árum 10. áratugarins, stofnfélagi og í ritstjórn héraðsfréttablaðsins Feykis og ritstjóri á tímabili. „Ég var formaður afmælisnefndar Sauðárkróksbæjar sem stóð fyrir mörgum og fjölbreyttum viðburðum á Sauðárkróki á 125 ára byggðarafmæli á Króknum 1996 og 97, m.a. útgáfu á fundargerðabók Ræðuklúbbs Sauðárkróks „Ráð við þögninni“. Ég fór í lið með frændum við að koma upp styttu af Jóni Ósmann ferjumanni við Vesturós Héraðsvatna, sem afhjúpuð var 2009.“
Árni spilaði fótbolta með Tindastóli og UMSS á yngri árum. „Ég hef alltaf haft gaman af því að horfa á fótbolta og raunar flestar keppnisgreinar íþrótta. Ég vann ekki til margra verðlauna en við unnum þó gullið í fótbolta á landsmóti UMFÍ á Eiðum 1968. Tindastóll er félagið mitt en í enska boltanum hef ég haldið með Manchester United síðan fréttir bárust á Krókinn af flugslysinu í München 6. febrúar 1958.“
Árni hefur gaman af sögu og mannlífslýsingum, landfræði, þróun samfélaga og skipulagi. „Mér finnst gaman að skoða útlenskar borgir og íslenskar sveitir og náttúrusvæði, finnst líka gaman að teikna og mála og hef sinnt því ögn síðustu misserin.
Við eigum helmingshlut í sumarbústað á æskustöðvum Addý í Tunguskógi inn af Skutulsfirði. Þar bjó fjölskylda hennar að sumrinu og þar hefur okkur þótt mjög gott að vera á sumrin og njóta vestfirskrar náttúru og veðursældarinnar í Skóginum.“
Afmælisbarnið verður einhvers staðar á afmælisdaginn og heldur svo upp á sameiginlegan áfanga ásamt nánustu fjölskyldu undir skagfirskum bláhimni í sumar.
Fjölskylda
Eiginkona Árna er Ásdís Sigríður Hermannsdóttir (Addý), f. 10.11. 1949, kennari. Foreldrar hennar voru hjónin Áslaug Jónsdóttir (Bíbí), húsfreyja, f. 5.1. 1922, d. 23.7. 1994, og Hermann Björnsson, póstafgreiðslumaður og ökukennari, f. 4.12. 1917, d. 14.5. 1994, búsett á Ísafirði.
„Við Addý kynntumst í MA, stúdentar þar 1969 og giftum okkur í Ísafjarðarkirkjunni gömlu 6. júní 1970. Börnin okkar þrjú eru öll stúdentar frá MA. Við höfum búið í Reykjavík, Árósum í Danmörku, Vestmannaeyjum og síðustu 42 árin í gamla bæjarhlutanum á Sauðárkróki.“
Börn Árna og Addý eru 1) Áslaug Sigríður, arkitekt í Árósum, f. 16.12. 1971, gift Michael Sloth, sviðsstjóra í sveitarfélaginu Vejle, f. 13.3. 1963. Börn þeirra eru Solbjørg, f. 15.2. 2006, og Sven Magnus, f. 2.6. 2009. Börn Michaels af fyrra hjónabandi eru Andreas, f. 23.2. 1991, og Sebastian, f. 23.7. 1995; 2) Ragnar Páll, sérfræðingur í upplýsingatækni hjá Össuri í Reykjavík, f. 7.4. 1976, giftur Arnlaugu Borgþórsdóttur hjúkrunarfræðingi, f. 4.2. 1976. Börn þeirra eru Árni Magnús, f. 1.2. 2004, Hermann Þór, f. 15.2. 2005, og Embla Katrín, f. 10.1. 2013; 3) Björn Magnús, landfræðingur á Stoð ehf. verkfræðistofu á Sauðárkróki, f. 16.3. 1985, giftur Evu Maríu Sveinsdóttur sjúkraliða, f. 27.1. 1986. Börn þeirra eru Ragnhildur Emma, f. 13.4. 2015, og Hólmfríður Addý, f. 3.8. 2016. Börn Evu Maríu af fyrra hjónabandi eru Sveinn Kristinn Jóhannsson, f. 11.11. 2006, og Eyþór Ingi Jóhannsson, f. 2.10. 2008.
Systkini Árna: Leifur, fyrrverandi flugumsjónarmaður í Reykjavík, f. 31.12. 1944; Páll, tannlæknir á Sauðárkróki, f. 20.5. 1946, d. 29.1. 2021, Hólmfríður (Día), sjúkraliði í Kópavogi, f. 23.9. 1950, Ólöf Sigríður (Lolla), kennari á Egilsstöðum, f. 21.6. 1956, Örn, læknir á Sauðárkróki, f. 13.3. 1959, og Úlfar, málarameistari í Mosfellsbæ, f. 16.2. 1965.
Foreldrar Árna voru hjónin (Jón) Ragnar Pálsson, útibússtjóri Búnaðarbanka Íslands á Sauðárkróki, f. 16.4. 1924, d. 29.9. 1987, og Anna Pála Guðmundsdóttir, f. 2.9. 1923, d. 24.12. 2018, húsfreyja á Sauðárkróki.