Eyja Ríkið gerir kröfu í Elliðaey samkvæmt málsmeðferðinni.
Eyja Ríkið gerir kröfu í Elliðaey samkvæmt málsmeðferðinni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu til á Alþingi í gær að óbyggðanefnd hætti málsmeðferð varðandi eyjar, hólma og sker, eða svæði 12 í kröfugerð ríkisins, sem nokkuð hefur verið fjallað um hér á síðum blaðsins

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Fimm þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu til á Alþingi í gær að óbyggðanefnd hætti málsmeðferð varðandi eyjar, hólma og sker, eða svæði 12 í kröfugerð ríkisins, sem nokkuð hefur verið fjallað um hér á síðum blaðsins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta og fór fyrsta umræða um málið fram í kjölfarið.

Að breytingatillögunni við frumvarpið standa þingmennirnir Teitur Björn Einarsson, Birgir Þórarinsson, Vilhjálmur Árnason, Jón Gunnarsson og Óli Björn Kárason en Teitur mælti fyrir tillögunni. Hún gengur í meginatriðum út á að valdsvið óbyggðanefndar verði takmarkað við landsvæði innan meginlandsins. Hafi breytingin í för með sér að öll yfirstandandi mál sem taka til landsvæða utan meginlandsins falli niður.

„Hér er einfaldlega verið að leggja það til að óbyggðanefnd hætti allri málsmeðferð um landsvæði utan meginlandsins. Þetta helgast meðal annars af þeirri umræðu sem hefur sprottið af kröfugerð ríkisins í eyjar, hólma og sker landið um kring. Kröfugerð sem augljóslega er stórkostlega gölluð bæði að efni og formi,“ sagði Teitur í þinginu í gær.

Óbyggðanefnd lögð niður

Í frumvarpi forsætisráðherra er gert ráð fyrir því að leggja niður óbyggðanefnd en íslenska ríkið lagði upp í þessa vegferð varðandi þjóðlendur árið 1997 og svæði 12 er síðasti kafli málsins.

Fram kom hjá Katrínu að óbyggðanefnd verði hins vegar skipuð ef upp koma mál á næstu þremur árum sem taka þurfi á. Föst nefnd verður ekki starfandi.

Höf.: Kristján Jónsson