Nær fjórir af hverjum tíu einstaklingum á vinnumarkaði eiga erfitt með að ná endum saman. Hlutfallið er hærra meðal kvenna en karla eða 40,8% á móti 38,4%. Alls búa 11% launafólks við skort á efnislegum gæðum og hefur hlutfallið hækkað milli ára

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Nær fjórir af hverjum tíu einstaklingum á vinnumarkaði eiga erfitt með að ná endum saman. Hlutfallið er hærra meðal kvenna en karla eða 40,8% á móti 38,4%. Alls búa 11% launafólks við skort á efnislegum gæðum og hefur hlutfallið hækkað milli ára.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum könnunar Vörðu – Rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins á lífsskilyrðum launafólks innan ASÍ og BSRB sem kynnt var í gær.

Barnafólk glímir við þyngri byrði húsnæðiskostnaðar

Könnunin var gerð í janúar sl. meðal launafólks innan ASÍ og BSRB og bent er á að almennt gefi niðurstöðurnar til kynna að staða launafólks sé heilt yfir sambærileg stöðu þess fyrir ári en verri en á árinu 2022. Í ljós kemur að fjárhagsstaða kvenna er verri en karla á alla heildarmælikvarða og að hærra hlutfall launafólks hefur nú ekki efni á grunnþáttum fyrir börnin sín en fyrir ári. Fram kemur að barnafólk glímir almennt við þyngri byrði húsnæðiskostnaðar en barnlausir.

„Tæplega tveir af hverjum tíu foreldrum hafa ekki ráð á að gefa börnum sínum afmælis- og/eða jólagjafir og lítið lægra hlutfall getur ekki greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda. Þá er barnafólk líklegra til að vera með yfirdrátt en aðrir hópar.

Staða einhleypra foreldra er mun verri en sambúðarfólks og hærra hlutfall þeirra hefur ekki efni á grunnþáttum fyrir börnin sín,“ segir í samantekt niðurstaðna.

Könnunin var lögð fyrir alla félagsmenn innan ASÍ og BSRB eða 167.900 einstaklinga. 21.095 svöruðu og var svarhlutfallið 12,6%.

Sé litið nánar á niðurstöðurnar um hversu auðvelt eða erfitt launafólk á með að ná endum saman, kemur m.a. fram að 43,5% einhleypra kvenna og 37,9% einhleypra karla eiga mjög erfitt, erfitt eða nokkuð erfitt með að ná endum saman og það sama á við um 46,6% kvenna og 46,3% karla í sambúð með börn. Meirihluti innfæddra launamanna segist eiga auðvelt með að ná endum saman eða 62,7% en hlutfallið er mun lægra eða 44,6% meðal innflytjenda á vinnumarkaði.

Þátttakendur voru einnig spurðir hvort þeir gætu mætt 80 þúsund króna óvæntum útgjöldum í dag án þess að stofna til skuldar. Svörin sýna að 41,4% kvenna og 34,2% karla segjast ekki geta mætt slíkum útgjöldum. Ef litið er á niðurstöðurnar eftir fjölskyldugerðum kemur m.a. fram að 61,5% einhleypra mæðra og 53,8% einhleypra feðra gætu ekki mætt svo háum óvæntum útgjöldum.

Þegar svarendur voru beðnir um að svara hvort fjárhagsstaða þeirra væri betri eða verri en fyrir ári kom m.a. fram að 48% einhleypra mæðra og 42,3% einhleypra karla segjast búa við nokkuð eða mun verri fjárhagsstöðu í dag. Hærra hlutfall innflytjenda metur einnig fjárhagsstöðu sína verri en fyrir ári.

„Þegar efnislegur skortur er greindur eftir fjölskyldustöðu kemur í ljós að mikill munur er á skorti eftir fjölskyldugerð. Staða einhleypra foreldra er í öllum tilfellum verst. Hæst er hlutfall einhleypra mæðra sem hafa ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldu (45,8%), hafa ekki efni á kjötmáltíð eða sambærilegri grænmetismálið annan hvern dag (17,8%), geta ekki mætt óvæntum útgjöldum (52,4%), hafa ekki efni á síma (2,8%), sjónvarpstæki (6,2%) og að kynda húsakynni nægilega (2,4%). Jafn hátt hlutfall einhleypra mæðra og feðra er í vanskilum á leigu eða lánum (10,5%) en lítið hærra hlutfall einhleypra feðra hefur ekki efni á bíl (18,5% á móti 18%),“ segir í skýrslunni. 6,7% segja fjárskort sl. tólf mánuði hafa komið í veg fyrir að þau gætu greitt fyrir mat í skóla fyrir börn sín, þar af sögðu 11,8% einhleypra mæðra að fjárskortur hefði komið í veg fyrir það.

Þriðjungur launafólks með þunga húsnæðisbyrði

Í samantekt um stöðu innflytjenda kemur m.a. fram að staða þeirra mælist markvert verri en innfæddra Íslendinga fjórða árið í röð.

„Hærra hlutfall þeirra á erfitt með að ná endum saman, getur ekki mætt óvæntum útgjöldum og hefur ekki getað greitt fyrir grunnþætti fyrir börnin sín. Auk þess er staða innflytjenda á húsnæðismarkaði gjörólík stöðu innfæddra. Innflytjendur eru í mun minni mæli í eigin húsnæði, búa við þyngri húsnæðisbyrði og hafa oftar flutt og búa í meiri mæli í húsnæði sem hentar illa.“

Þegar spurt var um húsnæðiskostnað launafólks kom í ljós að þriðjungur þess sagðist búa við þunga byrði af húsnæðiskostnaði. Er fjárhagsstaða fólks sem býr í óhagnaðardrifnu leiguhúsnæði verst og fjórðungur þess býr við efnislegan skort.

Einnig var reynt að varpa ljósi á heilsu launafólks og kemur fram í svörunum að ríflega helmingur einhleypra mæðra og ungra kvenna býr við slæma andlega heilsu. Rúm 30% launafólks segjast búa við slæma andlega heilsu.

Höf.: Ómar Friðriksson