Hallfríður Jónsdóttir fæddist á Sauðárkróki 11. júní 1951. Hún lést á heimili sínu 19. febrúar 2024. Foreldrar hennar eru Katrín Jóelsdóttir, f. 1929 og Jón Þórarinsson, f. 1917, d. 2000.

Systur Hallfríðar eru Ingibjörg Bjarklund, f. 1947, Sigurlaug Helga, f. 1952, María Hólm, f. 1953, Jónína Katrín, f. 1955, Þóra Björg, f. 1957 og Elín, f. 1959.

Árið 1973 giftist Hallfríður Sigurði Karlssyni, f. 23. apríl 1944, d. 30. desember 2023. Hallfríður eignaðist eina dóttur, Báru Steinsdóttur, 27. janúar 1969 og er eiginmaður hennar Kristinn Frímann Árnason, f. 15. desember 1968. Bára og Kristinn eru búsett í Hrísey og ólu þar upp þrjú börn og eiga þau fjögur barnabörn. Ömmu- og langömmubörn Hallfríðar eru því sjö talsins.

Hallfríður starfaði lengst af við verslunarstörf og var mikil handverkskona. Útför Hallfríðar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 6. mars 2024, klukkan 13.

Elsku mamma.

Ég á mjög erfitt með að finna orð á þessari stundu. Einungis 51 degi eftir að pabbi kvaddi, þá hvarfst þú í hans faðm. Ég reyni að trúa því að þið gangið saman um draumalandið heil og sæl og laus við sjúkdóma og böl. Líklega varstu búin með öll níu lífin þín, fáir hafa fengið jafn mörg líf. Þú reist alltaf upp alveg sama hversu útlitið var slæmt, nema núna. En ég held í minningarnar okkar. Þar ber hæst skvísuna sem þú alltaf varst. Þegar þú hafðir getu til varstu alltaf með fínt lagt hár sem þú hafðir mikið fyrir með því að setja rúllur í það og þú jafnvel svafst með þær og svafst svo næstum upprétt til rugla ekki hárinu þegar búið var að greiða það. Ég var ekki há í loftinu þegar ég byrjaði að aðstoða þig að setja í þig permanent. Þú varst alltaf vel máluð í stíl við tíðarandann áður fyrr og vaktir ávallt athygli. Það er sterkt í minningunni þegar þú og pabbi komuð að sækja mig á Krókinn þá varst þú eins og kvikmyndastjarna.

Þú elskaðir að koma til Hríseyjar með pabba og þá voru nú fjörurnar oft gengnar og tíndir fjársjóðir sem þú föndraðir allskonar úr, krakkarnir eiga margar minningar tengdar því. Þú varst líka mikil hannyrðakona og fengu barnabörnin þín að njóta þess og þú saumaðir líka mikið út á árum áður og eru nokkrar fallegar myndir til eftir þig. Því miður settu veikindi þín strik í reikninginn þannig að þú þurftir að hætta öllu slíku. Lífið var þér sannarlega ekki auðvelt en einhvern veginn fórstu í gegnum það nokkuð æðrulaus enda sagðir þú oft ekkert annað í boði.

Elsku mamma, ég vil þakka þér fyrir samfylgdina og allt og allt.

Sofðu rótt.

Þín dóttir,

Bára.

Elsku Halla tengdamamma.

Það var mikið áfall þegar dóttir þín og elsku konan mín hringdi í mig og sagði að þú værir látin. Ég á erfitt með að koma orðum að því hvernig okkur líður. Við áttum svo gott spjall á facetime kvöldið áður en þú kvaddir, barst þig nokkuð vel þrátt fyrir smá hósta og krankleika í hálsi. Þú varst alltaf í huga okkar Báru og höfðum við áhyggjur af þér þar sem við vorum fyrir norðan og þú fyrir sunnan. Heilsubrestur hafði verið að hrjá þig en erfiðast var að vita nú af þér einni eftir fráfall Sigga í desember síðastliðnum eftir erfið veikindi. Þið mæðgur tækluðuð fráfall hans eins og hetjur saman og aðdáunarvert í raun að horfa upp á hversu sterkar þið voruð saman. Þú hafðir oft orð á því að Bára væri kletturinn þinn. Það er rétt, hún er klettur okkar allra, en núna munum við sem eftir stöndum að vinna saman að því að vera klettar fyrir hana í sínu sorgarferli að missa ykkur með svo stuttu millibili.

Nú þegar komið er að því að líta yfir farinn veg eru mér minnisstæðastar umræðurnar við eldhúsborðið í Bláhömrunum og síðar Þórðarsveignum þar sem þjóðmálin voru oftar en ekki rædd. Þú hafðir skoðanir á málunum og þrátt fyrir að við værum ekki alltaf sammála þá gátum við séð skoplegu hliðarnar á öllu og átt góðar stundir. Þá eru mér minnisstæðar kjötbollurnar í brúnu sósunni og kartöflustöppunni sem þú barst æði oft fram þegar við vorum að koma suður til ykkar. Þú vissir að ég væri mikill kjötbollukall og fékk ég hvergi betri kartöflumús en hjá þér svo ég tali nú ekki um brúnuðu kartöflurnar með lambasteikinni í hádeginu áður en við fórum norður, alger veisla svo mikið er víst. Þú varst mikill sælkeri rétt eins og ég og höfðum við líka svipaðan tónlistarsmekk en þú hafðir gaman af því að hlusta á tónlist.Elsku Halla mín, nú er komið að leiðarlokum, ég trúi því að þið Siggi séuð nú sameinuð á ný, þið voruð samrýnd hjón svo þið gátuð líklega ekki verið lengur hvort án annars.

Á sama tíma og ég kveð þig elsku tengdamamma þá þakka ég þér fyrir allt. Hvíl í friði.

Nú ertu leidd, mín ljúfa,

lystigarð Drottins í,

þar áttu hvíld að hafa

hörmunga' og rauna frí.

Við Guð þú mátt nú mæla,

miklu fegri' en sól

unan og eilíf sæla

er þín hjá lambsins stól.

(Hallgrímur Pétursson)

Unnur Inga Kristinsdóttir.

Elsku Halla amma, það er óhætt að segja að lífið hafi boðið þér upp á allskonar misskemmtilegt og þegar erfiðleika bar að garði stóðstu alltaf sem sigurvegari. Mánudagurinn 19. febrúar var okkur því afar erfiður þegar svo var komið að nú var allt búið. Það er svo ótrúlega sárt, sérstaklega þar sem ekki eru nema tæplega tveir mánuðir síðan við vorum hér á sama stað að fylgja afa síðustu sporin. Það gerir allt svo extra sárt að þurfa kveðja þig líka. Við vorum ekki tilbúin í það.

Amma, þú varst svo ljúf, vildir allt fyrir okkur gera og varst alltaf til staðar. Við eigum með þér góðar minningar þegar þið afi komuð í Hrísey. Öll okkar barnæskuár komu jólin ekki nema þið væruð mætt á svæðið. Og engin voru jólin nema handmálað jólaskraut frá þér væri komið upp. Allar fjöruferðirnar með þér að tína bobba, skeljar og steina sem þú tókst svo með þér heim og föndraðir eitthvað fallegt og leyfðir okkur jafnvel að föndra með þér. Það var erfitt að setjast niður og rifja upp þessar dýrmætu minningar sem við eigum með þér í bland við sorgina og þakklætið sem við upplifum. Þessar minningar eiga eftir að glitra í hjörtum okkar eins og stjörnurnar á himninum. Við munum halda minningunni um þig á lofti svo langömmubörnin þín sem þú elskaðir svo heitt og dáðist að á hverjum degi gleymi þér ekki. Við munum kenna þeim að tína bobba og plokka skelfiskinn úr þeim og kenna þeim að prjóna og sauma eins og þú kenndir okkur. Amma, þú varst einstök kona, farðu í friði, við elskum þig og eigum eftir að sakna þín sárt.

Þín barnabörn,

Unnur, Andrea og Árni.