„Eins og komið er inn á í greininni virðist oft á tíðum hreinlega skorta þekkingu hjá embættinu og mögulega er partur af skýringunni að embættið sé að hverfa frá áratugalangri skattframkvæmd, sem er einfaldlega vegna þess að þarna starfar fólk sem skortir þekkinguna, en vill engu að síður vinna starfið sitt vel,“ segir Garðar Gíslason hæstaréttarlögmaður í samtali við ViðskiptaMoggann, spurður nánar um breytt vinnubrögð hjá Skattinum. Hann ásamt átta lögmönnum lýsti yfir þungum áhyggjum af skattframkvæmd á Íslandi í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu á dögunum.
Tilefni greinarskrifana var sú þróun embættisins sem þeir hafa fylgst með á undanförnum árum og tekið eftir miklum breytingum til hins verra að þeirra mati, þegar kemur að skatteftirliti og -framkvæmd. Ákvarðanir Skattsins væru oftar tilviljanakenndar og ófyrirsjáanlegar og horfið hafi verið frá áratugalangri skattframkvæmd, með tilheyrandi óvissu fyrir fólk sem hafa verið fast í greipum Skattsins. Þá hefðu fæstir fjárhagslegt bolmagn til að sækja rétt sinn gagnvart stofnuninni. Einnig benda greinarhöfundar á að fréttir af bónuskerfi Skattsins, sem nær m.a. til starfsmanna sem annast eftirlit, rannsóknir og endurákvarðanir, hafi verið til þess fallið að sá enn frekari fræjum efasemda um vinnubrögð embættisins.
Skortur á samtali
Spurður um það hvað valdi þessari þróun segir Garðar það sitt mat að vandinn hafi orðið til þegar Skatturinn og Tollurinn sameinuðust. Núverandi skattstjóri gegndi áður embætti tollstjóra og svo virðist vera að toll-armurinn hafi tekið embættið yfir og með stækkandi embætti fylgja meiri erfiðleikar í að hafa yfirsýn yfir allt sem gerist innan stofnunarinnar.
„Árið 2021 var embætti skattrannsóknastjóra lagt niður og verkefni þess færð til ríkisskattstjóra. Margt gott fylgdi breytingunni t.d. varðandi málshraðann á skattrannsóknarmálum. En þetta þýðir að embættið stækkar og stækkar og það er oft á tíðum verið að setja mjög vandasöm verkefni í hendur fólks sem hefur litla sem enga reynslu, því miður,“ segir hann og bætir við að bæði samskiptin og þjónustustigið hjá Skattinum hafi farið dvínandi að undanförnum árum.
„Það er þannig að ég veit ekki hvaðan sú pólisía kemur, frá toll-armi Skattsins eða ekki. Áður fyrr var hægt að óska eftir fundum eða samskiptum með það fyrir augum að fá einhverja leiðsögn, sem hefur farið minnkandi, en starfsmenn í skattrannsókn taka frekar samtalið eftir að gerðar voru lagabreytingar,“ segir Garðar.
Vont hefur versnað
Að hans sögn hefur vont versnað hvað varðar almenna skattframkvæmd, eftirlit og vinnubrögð. Illa gangi að fá afgreiðslu og svör frá embættinu.
„Heilt yfir hafa störf embættisins verið að fara til hins verra ef eitthvað er, sem var ástæðan fyrir að skrifa um þetta málefni í greininni, en ákveðið var að fjalla ekki um einstök tilvik. Það eru þó dæmi um mjög slæma afgreiðslu hjá embættinu í dóma- og úrskurðaframkvæmd,“ segir Garðar og bendir á mál sem Skatturinn höfðaði gegn systkinum sem eru kennd við útgerðarfélagið Sjóla, en hann gætti hagsmuna systranna. Í tíu ár sátu þær, ásamt bræðrun sínum, undir ásökunum um skattsvik. Þegar málið var til lykta leitt kom í ljós að endurálagning átti ekki rétt á sér, þær voru sýknaðar fyrir dómi og kostnaður ríkisins við rannsókn og málarekstur var upp á hundruð milljóna króna.
Breyta um áherslur
Það sem Garðar vill sjá breytast er að fókusinn verði öðruvísi og ekki sé nokkur vafi á því að starfsmenn embættisins vilja gera vel í störfum sínum. Hans reynsla er að fólk vilji að langmestu leyti greiða skattana sína og gera það rétt.
„Fókusinn hjá skattyfirvöldum ætti að vera að hjálpa og leiðbeina fólki að telja fram skattana sína með réttum hætti, en ekki setja aðaláhersluna á að klekkja á fólki, sem því miður er nálgunin hjá
embættinu,“ segir Garðar að lokum.