Páll segir fyrirsjáanleika og stöðugleika ábótavant í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja. Sköttum og gjöldum sé breytt með engum fyrirvara, oft í óskiljanlegum bandormum.
Páll segir fyrirsjáanleika og stöðugleika ábótavant í rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja. Sköttum og gjöldum sé breytt með engum fyrirvara, oft í óskiljanlegum bandormum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Gaman verður að fylgjast með störfum Páls Rúnars M. Kristjánssonar hjá nýstofnaðri lögmannstofu hans, Advisor, en Páll hefur m.a. unnið merkilega sigra í skattamálum gegn íslenska ríkinu og staðið í strembinni baráttu á sviði tolla- og gjaldamála,…

Gaman verður að fylgjast með störfum Páls Rúnars M. Kristjánssonar hjá nýstofnaðri lögmannstofu hans, Advisor, en Páll hefur m.a. unnið merkilega sigra í skattamálum gegn íslenska ríkinu og staðið í strembinni baráttu á sviði tolla- og gjaldamála, barist fyrir réttindum lántakenda og ábyrgðarmanna gegn Lánasjóðnum, barist fyrir auknu viðskiptafrelsi o.m.fl.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Helstu áskoranir eru grunnþættir í efnahagskerfi okkar. Við þurfum að afnema höft, auka frelsi og bæta skilvirkni. Vinnumarkaðsmódelið okkar er ekki að virka og peningamálin þarf augljóslega að laga.

Hvað lögfræðina varðar eru okkar helstu áskoranirnar síaukið virðingarleysi fyrir réttarríkinu. Það virðist sem að ákveðin grunngildi séu að glatast, bæði hjá hinu opinbera, sem veður áfram án aðhalds frá dómstólum, og hjá almenningi sem virðir ekki lengur dómstóla og treystir þeim ekki, hvorki í einkamálum né sakamálum. Það þarf að endurvekja traust til dómstóla en það gerir enginn nema dómstólarnir sjálfir, með því að sýna í verki tryggð sína við lög og rétt en ekki fylgispekt við ríkisvaldið. Þá þurfa stjórnvöld almennt að dusta rykið af virðingu sinni fyrir réttindum einstaklinga, leggja til hliðar sérhagsmuni og vinna störf sín í samræmi við lög og ekkert annað.

Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?

Ég sótti fund Félags atvinnurekenda, „Er ríkið í stuði?“. Þar var vakin athygli á því hvernig opinber fyrirtæki hafa ruðst inn á rafhleðslumarkaðinn, þar sem ekki er nokkur þörf á að þau séu, og úr verður glórulaus ríkisrekstur á þýðingarmiklum markaði. Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og okkur gengur ekkert að leysa núverandi vandamál séum við önnum kafin við að búa til ný vandamál til að taka með okkur inn í framtíðina.

Hvaða hugsuður hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Það eru margir sem hafa mótað mig sem lögmann, eða þá að ég hef reynt að líkja eftir. Þar má helst nefna Hákon Árnason heitinn sem var besti málflytjandi sem ég hef kynnst, ótrúlega vandaður maður, fróður, réttsýnn og hógvær. Einnig Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður sem minnir mann stanslaust á að trúa á það sem er rétt og gefast ekki upp.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Ég les fræðirit á sviði lögfræði og flesta markverða dóma sem falla. Ég glugga líka reglulega í það helsta sem er að gerast hjá Evrópudómstólnum og Mannréttindadómstól Evrópu, þar fær maður oft góðar hugmyndir.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég fer í ræktina 4-5 sinnum í viku, skíða alla daga sem ég get, fer í golf eða golfhermi eins oft og ég get. Til að vega upp á móti þessu þá borða ég bragðaref í Huppu í Spönginni minnst einu sinni í viku (mulið smartís, mulið Snickers, Oreo og hvítt súkkulaði) og þess á milli borða ég allt annað sem mér þykir gott. Með þessu móti næ ég að koma í veg fyrir allan sjáanlegan árangur af íþróttaiðkun minni.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Draumastarfið mitt er að vera leiðsögumaður hjá Viking Heliskiing. Í því felst að fara með skíðaáhugamenn í þyrlu upp á stórfenglega tinda Tröllaskagans og skíða með þeim niður í hinu ótakmarkaða frelsi. Líklega það besta sem hægt er að hugsa sér.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Mér finnst helsti gallinn við rekstrarumhverfi fyrirtækja vera sá að það vantar allan kúltúr fyrir því að skapa fyrirsjáanleika og stöðugleika. Skattar og gjöld eru ákveðin með engum fyrirvara í óskiljanlegum bandormum. Gullhúðuðum lagabreytingum er skellt á með litlum fyrirvara og rekstrarumhverfi kollvarpað eins og ekkert sé. Það skortir allt skipulag og alla þolinmæði.

Fyrirtæki og fjölskyldur verða að geta gert sínar áætlanir og hafa eins skýra sýn á framtíðina og hægt er. Þetta á við á öllum sviðum samfélagsins en auðvitað skiptir þetta hvað mestu í grundvallaratvinnugreinum okkar, helst hvað varðar sjávarútveg og orkumál, en þar er heimatilbúinn óstöðugleiki til mikils tjóns, og svo auðvitað á vinnumarkaðinum þar sem tilefnislaus óvissa er óþolandi.

Það mikilvægasta í mínum rekstri er að finna sér rétta viðskiptavini. Að vinna við málaflokka sem höfða til manns og sérhæfa sig á því sviði. Ég er svo heppinn að ég er að vinna með fólki og fyrirtækjum sem ég hef mikla ástríðu fyrir. Ef lögmenn ná að gera það þá eru þeim allir vegir færir.

Ævi og störf

Nám: Stúdent frá MH; BA- og ML-gráða í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík; LLM-gráða í lögfræði frá Háskólanum í Nottingham; hdl. 2008 og hrl. 2015.

Störf: Hóf störf hjá Félagi atvinnurekenda (þá FÍS) 2008. Stofnaði Málaflutningsstofu Reykjavíkur árið 2010, en sá rekstur sameinaðist síðar Lögmönnum Höfðabakka undir nafninu MAGNA lögmenn. Stofnaði svo lögmannsstofuna Advisor haustið 2023 og starfa þar í dag.

Áhugamál: Skíði, golf, bridds, fluguveiði og íþróttir.

Fjölskylduhagir: Kvæntur Láru Rún Sigurvinsdóttur mannauðsstjóra og saman eigum við þrjú börn: Dagmar Guðrúnu, Rúnar Loga og Kristján Orra.