Stjórnunar- og skrifstofukostnaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR) hækkaði um ríflega 133 milljónir króna milli áranna 2022 og 2023, úr rúmum 450 milljónum króna í tæpar 584 milljónir. Árið 2021 nam kostnaðurinn 378 milljónum króna. Útgjaldaaukningin á þessum eina kostnaði nemur því 205 milljónum króna á þremur árum. Þetta kemur fram skriflegu svari ÁTVR til ViðskiptaMoggans.
Í svarinu kemur fram að stór hluti útgjaldaukningarinnar milli áranna 2021 og 2022 var vegna endurnýjunar tölvukerfa og starfsmannakostnaðar. Stofnunin fagnaði 100 ára afmæli árið 2022 og starfsmannakostnaðurinn hækkaði um tæpar 30 milljónir króna á milli ára, m.a. vegna veglegrar árshátíðar þar sem starfsfólki og mökum var boðið. Árið 2022 var einnig ráðist í undirbúning að viðamikilli uppfærslu á tölvukerfi, sem var síðan hrint í framkvæmd árið 2023, sem skýri aukinn kostnað á rekstri tölvukerfa milli áranna 2022 og 2023. Þá kemur einnig fram að breytingin á aðkeyptri sérfræðiþjónustu árið 2023 skýrist m.a. af ráðningu sérfræðings til að undirbúa innleiðingu á nýju tóbaksvarnarfrumvarpi sem samþykkt var á Alþingi haustið 2023. Þá jókst ferðakostnaður um tíu milljónir á milli ára í fyrra.
Óskaði ekki eftir hækkun
Aðspurð kveðst stofnunin ekki hafa óskað eftir hækkun smásöluálagningar hjá fjármála- og efnahagsráðneytinu, og bendir á fjármálaáætlun 2020-2024 til stuðnings máli sínu, en ráðuneytið setti inn eins milljarðs króna hækkun á arðgreiðslu ÁTVR í ríkissjóð. Stofnunin taldi útilokað að standa undir arðgreiðslukröfunni nema með hækkun álagningar og var ráðuneytinu gerð grein fyrir þeirri afstöðu. Í kjölfarið var hætt við áformin um hækkun arðgreiðslna. Þá áréttar stofnunin að hvorki hún né ráðuneytið ákvarði smásöluálagningu, þar sem hún er bundin við lög og þarf samþykki Alþingis með lagabreytingu.
Íbúðir í stað hótelgistingar
Einnig var óskað eftir skýringum á eignarhaldi stofnunarinnar og notkun starfsmanna á orlofsíbúðum og hvort hlunnindi hafi verið greidd vegna afnota af þeim. Stofnunin á fjórar íbúðir á landsbyggðinni, en segir þær ekki vera orlofsíbúðir heldur byggist eignarhaldið á íbúðunum á gömlum grunni, þar sem áður fyrr tíðkaðist að verslunarstjórum var útvegað húsnæði. Slíkt fyrirkomulag sé þó ekki lengur við lýði í dag. Umræddar íbúðir eru á Akureyri, Egilsstöðum, Seyðisfirði og Siglufirði. ÁTVR segir íbúðirnar fyrst og fremst notaðar í vinnuferðum og ætlast sé til þess að starfsfólk noti þær í stað hótelgistingar. Þá séu ekki greiddir dagpeningar þegar gist sé í íbúðunum né þegar þær eru notaðar í fjarvinnu. „Gisting starfsfólks í frítíma er hverfandi og undir hlunnindaviðmiði Skattsins,“ segir í svari stofnunarinnar.