Ingólfur Ómar sendi mér póst og sló á létta strengi með þessari vísu:
Sígur nátt að beði brátt
bráðum háttum saman.
Ástin máttug örvar dátt
æðaslátt og gaman.
Gunnar Hólm Hjálmarsson yrkir á Boðnarmiði:
Á miðlum netsins margur getur
meinum heimsins lýst.
Ýmsir vita öðrum betur
um hvað málið snýst.
Hallmundur Guðmundsson yrkir Kanaríljóð á Degi 21:
Ef rautt er í glasi ég réttlæti finn
með rífandi stemmu í hausnum.
Sólin er risin og roðar mitt skinn
og reddar mér tilverulausnum.
Ólafur Stefánsson skrifar: „Nú flýgur tíminn og fyrr en varir verður farið að spá og spekúlera í páskaveðrinu og hvort hann geri hret.“
Það var um páska að pikkað fannst mér og barið,
í prýðisveðri, rólegt var skýjafarið
Svo rauk hann upp, rétt svo að næmi ég svarið:
hér ráfaði vorið um garða – búið og farið.
Guðjón Jóhannesson skrifar: „Nýjan formann Bændasamtakanna, Trausta í Austurhlíð, þekki ég ekki neitt en í fyrirsögn á mbl.is er haft eftir honum „Vill auka samtalið við grasrótina“!“:
Óska honum alls hins besta.
Algengt mun það í Austurhlíð
arkið um grasvellina
sér í lagi um sumur blíð
en sagt er þeim gott til vina.
Hvort sem er bág eða betri tíð
beðjugras eða sina,
Trausti bóndi tefst um hríð
á tali við nýræktina.
Nú úti á túni mun ár og síð
á auknu spjalli við grasrótina.
Sigrún E Hákonardóttir yrkir „Væringavísu!“:
Mér finnst sem hún gangi á glóð,
glannalega feti slóð.
Hvert mun stefna þessi þjóð,
þóttafull, í vígamóð?
Halldór Guðlaugsson svarar:
Kristalkúlu ekki á
er því rétt að svara:
varlega ég verð að spá
vonlaust kannske bara?
Sigrún E. Hákonardóttir um hæl:
Vakir í mér vonarglóð
og vissan um að rétta slóð
aftur finnur þessi þjóð
þegar tíðin verður góð.