Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, var á dögunum valinn markaðsmanneskja ársins 2023 hjá ÍMARK, samtökum markaðsfólks á Íslandi. Bogi hefur verið forstjóri frá 2018. Í niðurstöðum dómnefndar kom meðal annars fram að Icelandair hefði gengið í…

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, var á dögunum valinn markaðsmanneskja ársins 2023 hjá ÍMARK, samtökum markaðsfólks á Íslandi. Bogi hefur verið forstjóri frá 2018.

Í niðurstöðum dómnefndar kom meðal annars fram að Icelandair hefði gengið í gegnum mikla umrótatíma undanfarin ár en þrátt fyrir að flugstarfsemi hefði dregist mikið saman á tímum heimsfaraldurs hefðu stjórnendur fyrirtækisins lagt áherslu á mikilvægi markaðssetningar. Þannig hefði fyrirtækið haldið markaðsstarfi sínu áfram og verið tilbúið að blása til sóknar um leið og færi hefði gefist.

Spurður um þýðingu verðlaunanna fyrir hann persónulega segist Bogi, í samtali við Morgunblaðið, vera mjög ánægður með þann heiður sem sér sé sýndur.

„Ég lít samt fyrst og fremst á þetta sem verðlaun til Icelandair-teymisins, hvort sem það er fólkið í markaðsteyminu eða starfsfólk fyrirtækisins almennt. Við erum í þjónustuhlutverki við að uppfylla þarfir viðskiptavina okkar. Um það snýst þetta allt. Verðlaunin eru líka staðfesting á að það er tekið eftir félaginu og því er treyst. Það sem við erum að gera í markaðsmálum er greinilega að falla í góðan jarðveg,“ segir Bogi í samtali við ViðskiptaMoggann.

Framúrskarandi vara

Aðspurður segir Bogi verðlaunin hafa komið sér á óvart, enda sé hann með bakgrunn úr fjármálum og endurskoðun.

„Það kemur mér þó ekki á óvart að Icelandair fái verðlaun fyrir markaðssetningu á vöru sinni og þjónustu. Við erum að bjóða framúrskarandi vöru. Við fylgjumst mjög vel með öllum helstu mælikvörðum. Þeir eru allir á eina lund og við fáum góða endurgjöf frá viðskiptavinum okkar. Fólk vill fljúga með okkur og vörumerkið er sterkt á mörkuðum okkar.“

Spurður út í hvort ekki geti verið erfitt fyrir lítið félag að afla sér trausts í harðri alþjóðlegri samkeppni segir Bogi að auðvitað sé margt sem hafi áhrif á flugrekstur og flugfélög.

„Við finnum að það skiptir máli að hafa langa og sterka sögu. Við erum þekkt um allan heim þrátt fyrir smæðina. Það hjálpar mjög í öllu sem við erum að gera. Það tekur langan tíma og kostar mikla fjármuni og vinnu að byggja upp sterkt vörumerki. Það höfum við verið að gera um áratugaskeið. Þessi staða kemur ekki af sjálfu sér.“

Spurður að því hve mikill tími og orka fari í það hjá forstjóranum að sinna markaðsmálunum segist hann njóta góðs af hæfu samstarfsfólki.

„Markaðsmálin eru í gríðarlega góðum höndum og mér finnst erfitt að nefna eitthvert ákveðið hlutfall af mínum tíma. Á hverjum einasta klukkutíma erum við að þjónusta og fljúga með fjölda fólks og uppfylla þarfir og væntingar viðskiptavina. Flugrekstur er í eðli sínu flókinn og samstilling og samvinna eru mikilvægir þættir þannig að upplifun viðskiptavina sé góð. Hér á Íslandi geta verið margar áskoranir við að reka öflugt leiðakerfi. Allra veðra er von og oft gefst stuttur tími til að snúa vélunum í Keflavík. Allt þarf að ganga upp. Fjárfesting í markaðsmálum og upplýsingagjöf getur verið fljót að fjúka út um gluggann ef við stöndum ekki við það sem við lofum. Allt tengist þetta. Það þjónar litlum tilgangi að fjárfesta verulega í auglýsingum ef við náum ekki að uppfylla væntingar viðskiptavina okkar.“

Minna haft samband

Bogi segir að félagið hafi markvisst bætt upplýsingagjöf sína.

„Við hjá Icelandair höfum það sameiginlega markmið að skapa ánægjulega og áreynslulausa ferðaupplifun. Eitt það allra mikilvægasta er að halda viðskiptavinum vel upplýstum allt ferðalagið. Við finnum jákvæða endurgjöf hvað það varðar. Fólkið okkar er að gera frábæra hluti. Þetta birtist meðal annars í því að það er mun minna haft samband við þjónustuver okkar. Það þýðir að okkur er að takast að veita upplýsingar á réttum tímapunkti þegar viðskiptavinurinn þarf á þeim að halda. Þetta er hluti af þróun sem við höfum lagt áherslu á. Það er mjög ánægjulegt og eykur ánægju viðskiptavina.“

Í niðurstöðum dómnefndar markaðsverðlaunanna segir að Bogi hafi orðið sýnilegri í fjölmiðlum og hafi tekið á sig ábyrgð sem forstjóri með því að flytja tíðindi sem oft voru ekki góð og komið flóknum upplýsingum til farþega og almennings af auðmýkt og virðingu. Þar hafi Bogi stigið fastar inn í hlutverk sitt sem leiðtogi og talað beint til viðskiptavina sinna.

Blaðamaður innir Boga eftir því hvort hann eigi sér fyrirmyndir meðal annarra forstjóra flugfélaga.

„Ég fylgist mjög vel með þessum geira og les mikið af viðtölum við stjórnendur og forstjóra flugfélaga. Ég hlusta einnig á hlaðvörp og svo hittir maður þessa aðila í ýmsum samtökum í fluggeiranum, oft forstjóra sem maður horfir til. En ég er ekki með neina eina ákveðna fyrirmynd. Ég veg og met ýmsa punkta sem koma upp og reyni að tileinka mér það sem vel er gert. Það er mikilvægt fyrir stjórnendur félaga, ekki síst þegar mikið gengur á, að koma fram og upplýsa um hlutina fyrir fram og segja þá eins og þeir eru. Það er mikilvægt að vera með gagnsæja upplýsingagjöf og taka ábyrgð.“

Það að hann hafi orðið sýnilegri segi kannski allt um það hversu mikið hafi gengið á í geiranum og hversu mikill áhugi sé á bransanum.

Aðspurður segir hann að hlutfallslega sé meiri áhugi á flugrekstri á Íslandi en víða annars staðar. „Ísland er mikil flugþjóð, það er ekki spurning. Það er mikill áhugi á bransanum, sem er mjög gaman og gerir það skemmtilegt að starfa í honum. Það setur líka auka pressu á okkur að standa okkur vel.“

Háönn á næsta leiti

Spurður um árið fram undan hjá Icelandair segir Bogi að spennandi mánuðir fari nú í hönd.

„Háönnin er á næsta leiti. Samkeppnin er mikil og við ætlum að standa okkur í henni hér eftir sem hingað til.“

Bogi nefnir sem dæmi að í febrúar hafi, þegar mest lét, verið 14 flug á dag til Lundúna og tuttugu og fjögur flug til Englands og Skotlands.

„Það sýnir vel hvað samkeppnin er gríðarlega mikil í flugi til og frá Íslandi. Við erum í góðri stöðu að vera með sterka innviði á tekjuhliðinni. Við erum með mjög sterkar dreifileiðir og öflugt vörumerki og frábæra vöru og þjónustu. Leiðakerfið er mjög öflugt með mikla tengimöguleika. Þarna eru mörg stærstu flugfélög heims að keppa við okkur. Yfir sumarið fljúga í kringum þrjátíu flugfélög hingað og stór hluti þeirra kemur einnig á heilsársgrunni. Eins og við höfum margoft sagt áður getur lítið flugfélag á Íslandi aldrei keppt í verðlagningu við miklu stærri flugfélög sem gera út frá mun ódýrari löndum. Við verðum að vinna leikinn á tekjuhliðinni og þá koma allir þessir sterku tekjuinnviðir sér mjög vel. Það eru dýnamískir og spennandi tímar fram undan og við erum full bjartsýni.“

Aukin notkun á appi

Um það hvert Icelandair muni beina markaðsfé sínu á árinu, hvort einhverjar breytingar séu þar í farvatninu, segir Bogi að haldið verði áfram á sömu vegferð og á síðasta ári. Félagið sé til dæmis stöðugt að styrkja eigin miðla, samfélagsmiðla, fréttabréf, Vildarklúbb og smáforrit.

„Það er aukin notkun á því síðasttalda og sífellt meiri endurgjöf að koma í gegnum appið.“

Þrír nýir áfangastaðir bætast við á vormánuðum og segir Bogi að markaðsfé verði til dæmis varið á þeim mörkuðum.

„Við erum að byrja að fljúga aftur til Halifax í Kanada og til Færeyja. Svo erum við að byrja að fljúga til Pittsburgh í Bandaríkjunum í fyrsta sinn, sem er mjög spennandi,“ segir Bogi að lokum.