Sáttur Rúnar Sigtryggsson hvetur sína menn til dáða á hliðarlínunni.
Sáttur Rúnar Sigtryggsson hvetur sína menn til dáða á hliðarlínunni. — Ljósmynd/@DHfK_Handball
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þýskaland Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is

Þýskaland

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari þýska handknattleiksliðsins Leipzig, er ánægður með þá vegferð sem liðið er á undir hans stjórn.

Rúnar, sem er 51 árs gamall, tók við stjórnartaumunum hjá þýska félaginu í nóvember árið 2022, en liðið situr sem stendur í 10. sæti þýsku 1. deildarinnar.

Þá leika tveir íslenskir landsliðsmenn Íslands með Leipzig, Andri Már Rúnarsson, sem er sonur Rúnars, og Viggó Kristjánsson.

Rúnar þekkir vel til í Þýskalandi, en hann lék á sínum tíma sem atvinnumaður með Göppingen, Wallau-Massenheim og Eisenach. Þá hefur hann einnig þjálfað Eisenach, Aue og Balingen í Þýskalandi á þjálfaraferlinum.

„Ég er ágætlega sáttur við tímabilið hjá okkur hingað til,“ sagði Rúnar í samtali við Morgunblaðið.

„Heilt yfir höfum við spilað þó nokkuð vel, að undanskildum tveimur vikum í desember þar sem hlutirnir gengu alls ekki upp hjá okkur. Það var ákveðin brekka, ég get alveg viðurkennt það, þar sem við töpuðum öllum fimm deildarleikjum okkar og svo gegn Melsungen í bikarnum líka.

Við náðum heldur ekki að safna nægilega mörgum stigum í upphafi tímabilsins, þegar við fengum aðeins 3 stig af 12 mögulegum, en okkur hefur í sameiningu tekist að rétta vel úr kútnum og við erum á mjög fínu róli í dag,“ sagði Rúnar.

Gekk engan veginn upp

Rúnar tók nokkuð óvænt við stjórnartaumunum hjá Leipzig árið 2022 eftir að liðið hafði byrjað tímabilið illa.

„Það höfðu átt sér stað miklar mannabreytingar á leikmannahópnum fyrir tímabilið 2022-23. Að þeirra eigin mati voru þeir með sitt besta lið, eða allt frá því að liðið tryggði sér sæti í 1. deildinni, og markmiðið fyrir tímabilið var að berjast um Evrópusæti. Það gekk hins vegar engan veginn upp og þeir voru í fallsæti þegar ég tók við liðinu í nóvember.

Það voru ágætis möguleikar í kringum leikmannahópinn en að mínu mati voru margir leikmenn þarna líka sem voru ofmetnir. Ég benti þeim strax á það þegar ég tók við og það sem vantaði kannski helst upp á var bæði breidd og gæði í fleiri stöðum á vellinum. Það voru margir leikmenn þarna sem geta skorað mörk en handbolti snýst ekki bara um það að skora mörk og ég er að reyna að breyta þeim hugsunarhætti innan félagsins.“

Tekur tíma að búa til lið

Íslenski þjálfarinn hefur því verið að byggja upp nýtt lið hjá félaginu síðan hann tók við stjórnartaumunum.

„Það tekur tíma að byggja upp lið og þetta er ekki alveg eins og í fótboltanum, þar sem mönnum er skipt út hér og þar. Flestir hérna eru á mjög löngum samningum en þegar ég tók við tók ég ákvörðun að breyta leikstílnum umtalsvert. Við viljum spila af mikilli ákefð og hraðan handbolta. Stærsta áskorunin er að þessi tegund af handbolta henti leikmannahópnum.

Á síðasta tímabili vorum við með í kringum sjö leikmenn þar sem þessi tegund af handbolta hentaði vel. Það þurfa hins vegar fleiri að fylgja með og þá komum við aftur inn á þessa breidd sem ég nefndi áðan. Staðan á leikmannahópnum í dag er hins vegar góð og við erum með fleiri leikmenn sem geta komið inn á og haft áhrif á leikinn.“

Skýr framtíðarmarkmið

Rúnar skrifaði undir nýjan samning við Leipzig í janúar á síðasta ári og gildir sá samningur út keppnistímabilið 2024-25.

„Markmiðið til að byrja með var fyrst og fremst að bjarga liðinu frá falli. Staðan í dag er aðeins önnur og núna viljum við festa liðið í sessi sem stöðugt félag í efri hluta deildarinnar. Markmiðið í ár var að enda í einu af efstu tíu sætunum og við erum á góðri leið með það eins og staðan er núna. Það má samt ekki gleymast að þýska 1. deildin er mjög erfið deild og sem dæmi er Rhein-Neckar Löwen, sem var spútniklið deildarinnar í fyrra, í vandræðum núna í níunda sætinu. Persónulega langar mig til þess að koma liðinu á þann stað að við séum að berjast um Evrópusæti á hverju einasta tímabili en það er ekki eitthvað sem ég get ákveðið einn. Þetta er allavega markmið sem ég hef sett fyrir sjálfan mig en það eru líka lið hérna sem eru í sérflokki, Füchse Berlín, Magdeburg, Flensburg og Kiel. Þessi lið eru með meiri breidd en önnur lið og það sést best þegar líður á tímabilið.“

Sá fljótlega að sér

Hjá Leipzig starfar Rúnar með Karsten Günther, sem er yfirmaður íþróttamála hjá félaginu, en hann er þekkt stærð í þýskum handbolta. Günther er einnig í stjórn 1. deildarinnar og kallaði meðal annars eftir því að Alfreð Gíslason yrði leystur frá störfum sem landsliðsþjálfari Þýskalands í maí á síðasta ári.

„Samstarf mitt og Günthers hefur gengið mjög vel. Hann kom þessu liði upp um nokkrar deildir á nokkrum árum. Þú veist samt aldrei hvað kemur næst og maður er ekki alltaf sammála honum. Hann er stór persónuleiki í handboltanum hérna og mjög hvatvís líka.

Hann er uppfullur af alls konar hugmyndum en hann áttaði sig sjálfur á því að hann gerði mistök þegar hann kallaði eftir því að Alfreð yrði látinn fara. Það var ekki hans að skipta sér af því hver yrði landsliðsþjálfari og hann ræddi sjálfur við Alfreð fljótlega eftir þetta atvik og baðst afsökunar.“

Faðir og sonur heima fyrir

Andri Már, sonur Rúnars, gekk til liðs við Leipzig fyrir yfirstandi tímabil eftir frábært tímabil með Haukum þar sem liðið tapaði í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn fyrir ÍBV í Vestmannaeyjum.

„Samstarf okkar hefur gengið mjög vel. Andri þekkir til hjá félaginu og var í unglingaakademíu Leipzig í fjögur ár. Forráðamenn félagsins fylgdust vel með honum á HM U21-árs landsliða í Þýskalandi þar sem Ísland vann til bronsverðlauna. Ég var spurður álits og eftir að hafa hugsað málið vildi ég ekki standa í vegi fyrir því að hann kæmi hingað út. Hann var upprunalega hugsaður til þess að leysa aðra leikmenn liðsins af hólmi þegar þeir þurftu á hvíld að halda en hann hefur staðið sig mjög vel.

Hann býr hjá mér en ég passa mig á því að vera ekkert að fara sérstaklega yfir leikina með honum hérna heima. Ég er þjálfarinn hans á æfingum og í leikjum en þegar við erum heima fyrir er ég fyrst og fremst pabbi hans. Það er líka þannig í þessum handboltaheimi að það er nóg að gera hjá mönnum allan daginn og þetta er rúmlega full vinna. Það eru ekki bara leikir og æfingar, það eru alls kyns verkefni með styrktaraðilum og ferðalög. Þetta er enn meira hjá okkur þjálfurunum og við erum í raun alltaf í vinnunni ef þú vilt horfa á það þannig.“

Framtíðin björt

Íslenska karlalandsliðið hafnaði í 11. sæti á síðasta Evrópumóti en Rúnar er bjartsýnn fyrir hönd íslenska liðsins.

„Það er frábært fyrir Ísland í heild sinni og auðvitað íslenska landsliðið hversu margir Íslendingar spila og þjálfa í þessari deild. Reynslan sem bæði við og leikmennirnir öðlumst hérna mun sjá til þess að Ísland verður áfram á meðal fremstu handboltaþjóða heims næstu árin. Fyrir mér er umhverfið hérna í Þýskalandi það mest krefjandi sem til er. Allir leikir skipta miklu máli og það er allt undir því það er engin úrslitakeppni, liðin geta því ekki leyft sér að slaka á.

Hvað landsliðið varðar tel ég að við munum vinna til verðlauna á næstu árum. Síðasta mót gekk ekki sem skyldi og Snorri Steinn Guðjónsson fékk einfaldlega ekki nægilega mikinn tíma með liðið fyrir sitt fyrsta stórmót. Allir þjálfarar þurfa tíma og það mun gerast, fyrr en síðar, að við blöndum okkur í baráttuna um verðlaunasæti. Við erum með mjög góða leikmenn í flestum stöðum og við erum með frábæran markmann í Viktori Gísla Hallgrímssyni, en það hefur vantað. Leikmennirnir í Þýskalandi eru í stórum hlutverkum hjá sínum liðum og framtíðin er mjög björt,“ bætti Rúnar við í samtali við Morgunblaðið.