Vin Svona á Mermaid – Geothermal Seaweed Spa að líta út við sjávarsíðuna í Garði. Rómantískur veitingastaður með asískum áhrifum verður í næsta húsi.
Vin Svona á Mermaid – Geothermal Seaweed Spa að líta út við sjávarsíðuna í Garði. Rómantískur veitingastaður með asískum áhrifum verður í næsta húsi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er loksins að ganga í gegn eftir fimm ára ferli. Ég er bjartsýnn á framhaldið,“ segir Bogi Jónsson athafnamaður. Félag á hans vegum fékk á dögunum úthlutað lóð á Garðskaga undir heilsulind sem hefur verið í nokkur ár í undirbúningi. „Sveitarfélagið stóð við allt sitt en skipulagsmálin voru þungt ferli. Ég hef sagt í gríni að þetta sé orðið svo langur tími að þetta sé varla nýsköpun lengur,“ segir Bogi.

Umrædd heilsulind kallast Mermaid – Geothermal Seaweed Spa. Reist verður 1.200 fermetra mannvirki undir lindina auk úti- og laugasvæðis. Reiknað er með að fjárfesting í þessari uppbyggingu nemi um 1,5 milljörðum króna.

Silkimjúkur eftir þaraböðin

Fjallað var um þessi áform í Morgunblaðinu síðla árs 2021. Þar kom fram að Bogi hefur síðustu ár verið búsettur á Garðskaga og sér mikil tækifæri þar. Á Mermaid er stefnan að bjóða upp á sérhæfðar heilsu- og vellíðunarmeðferðir á borð við þaraböð, jurtagufuböð, hefðbundin gufuböð, nudd, hvíldarsvæði, heita potta og laugar. Þar verður einnig rekinn rómantískur sjávarréttaveitingastaður undir austurlenskum áhrifum.

„Þaraböðin verða okkar sérstaða en þau hafa mjög slakandi og góð áhrif á líkamann, maður verður allur silkimjúkur eftir þau. Þaraböðin hafa líka verið notuð sem lækningameðferð í gegnum tíðina, til dæmis fyrir fólk með exem og þurra húð,“ segir Bogi.

Leitar að erlendum fjárfesti

Hann segir að næstu skref séu að hefja viðræður við fjárfesta. „Við höfum verið að uppfæra allar áætlanir. Óskastaðan væri að fá erlendan kjölfestufjárfesti með tengsl í þennan spa- og heilsugeira. Og með honum sterkan íslenskan fjárfesti, helst af svæðinu. Svo verður bara að koma í ljós hvernig áhuginn á þessu verður,“ segir Bogi en tafir vegna skipulagsmála hafa þýtt að viðræður við fjárfesta hafa í þrígang verið settar á ís. Félag Boga fékk á sínum tíma fimm milljóna styrk úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja og segir hann að sá styrkur hafi gert kleift að klára allar rannsóknir og áætlanir vegna þessara áforma. „Og hjálpaði okkur að missa ekki móðinn,“ segir hann.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon