Nýsköpun Áslaug Arna segir að skattaívilnun hafi aukið nýsköpun.
Nýsköpun Áslaug Arna segir að skattaívilnun hafi aukið nýsköpun. — Morgunblaðið/María Matthíasdóttir
Hvati til nýsköpunarstarfsemi hefur aukist og vel er fylgst með vexti starfseminnar. Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við fyrirspurn frá Aðalsteini Hauki Sverrissyni, Framsóknarflokki, um ábata af nýsköpunarstarfsemi hér á landi

Hvati til nýsköpunarstarfsemi hefur aukist og vel er fylgst með vexti starfseminnar. Þetta kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við fyrirspurn frá Aðalsteini Hauki Sverrissyni, Framsóknarflokki, um ábata af nýsköpunarstarfsemi hér á landi.

Áslaug Arna segir að skattafrádráttur undanfarin ár vegna rannsóknar- og þróunarverkefna sé mikill hvati fyrir nýsköpun í landinu. Þá styðji nýleg úttekt OECD, sem unnin var að beiðni ráðuneytis hennar og fjármála- og efnahagsráðuneytis, þá niðurstöðu. Sérstök áhersla var á að styðja smærri og meðalstór fyrirtæki, sem var gert með breytingu á lögum 2020, þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki fá 35% af kostnaði við rannsóknir í skattaafslátt en stærri fyrirtæki 25%.

Að sögn Áslaugar Örnu nam framlag ríkisins vegna skattahvata um þremur milljörðum króna árið 2018 en á sama tíma vörðu fyrirtæki 37 milljörðum króna í fjárfestingu í rannsóknum og þróun. Árið 2021 nam framlag ríkisins 10 milljörðum kr. og fjárfesting fyrirtækja í rannsóknum var rúmlega 65 milljarðar króna. Þá tvöfölduðust útflutningstekjur hugverkaiðnaðar á fimm árum, en árið 2022 voru þær 240 milljarðar króna og á síðasta ári stefndi í að þær yrðu 280 milljarðar króna og greinin þrefaldaðist þannig á áratug. Heildarútflutningstekjur af hugverkaiðnaði gæti þá orðið 17% af útflutningstekjum þjóðarinnar 2024. Þá eru ótalin störf sem hafa skapast, sem eru a.m.k. 15 þúsund.

Á árunum 2014-2018 kom fram í áhrifamati Tækniþróunarsjóðs, um áhrif styrkja á vöxt nýsköpunar, að styrkir leiddu til framleiðslu nýrrar vöru eða þjónustu hjá 91% styrkþega og ný störf sköpuðust hjá 82% umsækjenda. Stuðningur við nýsköpun, í formi skattahvata og styrkja, er að skila sér í ört vaxandi atvinnugrein hérlendis. doraosk@mbl.is