Tækni Theódór R. Gíslason hefur lifað og hrærst í heimi netöryggismála í meira en tvo áratugi. Hann stofnaði fyrirtækin Mótherja og Syndis.
Tækni Theódór R. Gíslason hefur lifað og hrærst í heimi netöryggismála í meira en tvo áratugi. Hann stofnaði fyrirtækin Mótherja og Syndis.
Stafrænar almannavarnir skipta miklu máli í samfélaginu. Á þetta bendir Theódór Ragnar Gíslason, stofnandi Defend Iceland, í athyglisverðu viðtali í Dagmálum. Hann stofnaði fyrirtæki í samfloti við fleiri á liðnu ári og hefur nú þegar fengið til…

Stafrænar almannavarnir skipta miklu máli í samfélaginu. Á þetta bendir Theódór Ragnar Gíslason, stofnandi Defend Iceland, í athyglisverðu viðtali í Dagmálum. Hann stofnaði fyrirtæki í samfloti við fleiri á liðnu ári og hefur nú þegar fengið til liðs við sig stóran hluta íslenska fjármálakerfisins sem sér tækifæri í nálgun hans á netöryggisvarnir. Hann bendir á að óprúttnir aðilar geti lamað mikilvæga innviði með netárásum, ekki aðeins á sviði fjármála heldur einnig veitukerfa og orkuframleiðslu, svo dæmi séu nefnd.

Fyrirtæki hans byggir á þeirri hugmynd að fá heiðarlega tölvusérfræðinga til þess að leita uppi kerfisgalla hjá fyrirtækjum og stofnunum og greiða þeim sem þá finna þóknun fyrir viðvikið. Samhliða slíkum greiðslum renni ákveðnar fjárhæðir í samfélagspott sem ætlað er að greiða fyrir frekari gallaleit hjá minni fyrirtækjum og félögum sem ekki hafi sömu burði og stærri fyrirtæki til þess að verja sig.

Sú aðferð sem þarna er um að ræða nefnist á íslensku villiveiðigátt (e. bug bounty platform) og fullyrðir Theódór að ekki sé til það stórfyrirtæki í heiminum í dag sem ekki nýti sér hana með einum eða öðrum hætti. Athygli veki að aðeins einn af stóru bönkunum var með slíka þjónustu á sínum snærum áður en Defend Iceland var stofnað, þ.e. Kvika banki. Nú séu flestar fjármálastofnanir landsins komnar á vagninn og sjái ótvíræða kosti þess að styrkja varnir sínar með vinsamlegum „árásum“ á stafræna innviði sína.

Í viðtalinu, sem aðgengilegt er áskrifendum Morgunblaðsins á mbl.is, upplýsir Theódór Ragnar hvernig hann fékk áhuga á öryggisgöllum á netinu. Það er dramatísk saga sem hófst með því að hann varð fyrir strætó fyrir utan Melaskóla í Vesturbænum.