Vegurinn í dag Dæmigerður íslenskur malarvegur sem ekki er hægt að halda opnum að vetri til. Nýr vegur með bundnu slitlagi verður mikil samgöngubót.
Vegurinn í dag Dæmigerður íslenskur malarvegur sem ekki er hægt að halda opnum að vetri til. Nýr vegur með bundnu slitlagi verður mikil samgöngubót. — Ljósmynd/Vegagerðin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Vegagerðin hefur lagt fram til kynningar ný- og endurbyggingu Uxahryggjavegar (52) og Kaldadalsvegar (550) á samtals 23 kílómetra löngum kafla í Lundarreykjadal og á Uxahryggjum í Borgarbyggð og Bláskógabyggð.

Baksvið

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Vegagerðin hefur lagt fram til kynningar ný- og endurbyggingu Uxahryggjavegar (52) og Kaldadalsvegar (550) á samtals 23 kílómetra löngum kafla í Lundarreykjadal og á Uxahryggjum í Borgarbyggð og Bláskógabyggð.

Tilgangur framkvæmdarinnar er að bæta vegasamgöngur milli uppsveita Borgarfjarðar og Þingvalla, einkum að vetrarlagi. Þær eiga að stuðla að því að mögulegt verði að halda Uxahryggjavegi opnum yfir vetrarmánuðina nema í aftakaveðri.

Samkvæmt tillögu að samgönguáætlun, sem nú er til meðferðar á Alþingi, verður ekki ráðist í þessar framkvæmdir í bráð. Þar kemur fram að Uxahryggjavegur er á 3. tímabili áætlunarinnar, eða á árunum 2034-2038. Áætlaður framkvæmdakostnaður er 3.800 milljónir króna. Óvissubilið er -30% til +70% því verkefnið er enn á frumdragastigi. Vestlendingar hafa þrýst á að verkefninu verði flýtt.

Endar við þjónustumiðstöð

Uxahryggjavegur er rúmlega 60 kílómetra langur. Hann liggur af Borgarfjarðarbraut við mynni Lundarreykjadals, inn dalinn að sunnanverðu, framhjá Brautartungu og liggur svo upp á Uxahryggi í botni dalsins. Þegar komið er yfir Uxahryggi tengist vegurinn Kaldadalsvegi. Frá vegamótunum liggur Kaldadalsvegur til norðurs en Uxahryggjavegur til suðurs, í átt að Þingvöllum. Vegurinn endar við Þingvallaveg (36), við þjónustumiðstöð þjóðgarðsins á Leirum.

Jákvæð umhverfisáhrif framkvæmdarinnar eru töluverð að mati Vegagerðarinnar. Þau felast í bættum samgöngum og meira umferðaröryggi. Með nýjum vegi með bundnu slitlagi um Uxahryggi verður leiðin milli Þingvalla og uppsveita Borgarfjarðar greiðfærari og öruggari.

Þegar framkvæmdum við kaflann lýkur verður komið bundið slitlag á allan Uxahryggjaveg.

Umferð um þessa vegi hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Segir Vegagerðin að leiða megi líkur að því að stór hluti þeirrar aukningar sé til kominn vegna fjölgunar ferðamanna til landsins.

Vegirnir eru báðir hluti af grunnkerfi samgangna en núverandi vegir eru með malaryfirborði og uppfylla ekki öryggiskröfur Vegagerðarinnar. Enn fremur telst hæsti hluti Uxahryggjavegar til fjallvega og er ekki haldið opnum að vetrarlagi.

Á þeim hluta vegarins er útilokað að endurbyggja núverandi veg. Innan byggðarinnar í Lundarreykjadal fylgir endurbygging að mestu núverandi vegi en ofan byggðarinnar er sums staðar vikið frá núverandi vegi til að bæta öryggi vegarins.

Ekki er um eiginlega styttingu að ræða, heldur fyrst og fremst vegabætur sem ættu að stuðla að aukinni greiðfærni samgangna því mögulegt yrði að halda Uxahryggjavegi opnum yfir vetrarmánuðina, með einhverjum undantekningum þó.

Fyrirhugað framkvæmdasvæði vegar, vegtenginga og náma er í landi Lundar, Snartarstaða, Hóls, Brautartungu, Tungufells, Brennu, Iðunnarstaða, Englands, Reykja og Þverfells í Borgarbyggð. Nýr vegur og náma verða einnig á norðanverðu Þingvallakirkjulandi í Bláskógabyggð. Að auki er ein náma í landi Efstabæjar í Skorradalshreppi.

Efnistaka er fyrirhuguð úr skeringum meðfram vegi og úr 13 námum, þar af er ein í Skorradalshreppi og ein í Bláskógabyggð. Efnistaka úr námum verður 330-340 þúsund rúmmetrar.

Kynningarskýrsla Vegagerðarinnar vegna könnunar á matsskyldu framkvæmdarinnar er aðgengileg á skipulagsgatt.is. Athugasemdafrestur er til og með 27. mars.