Helga Þórisdóttir
Helga Þórisdóttir
Viðskiptavinir, a.m.k. erlendis, eru farnir að meta heiðarleika í auglýsingamennsku. Þeir vilja vita hvernig fyrirtæki vinna upplýsingar þeirra.

Helga Þórisdóttir

Á tímum mikillar reglusetningar fyrir fyrirtæki, hlýtur besta niðurstaðan að vera sú að geta snúið hlutum sér í vil. Í Cisco-skýrslu frá 2020 er því haldið fram að fyrir hvern dollara sem fyrirtæki fjárfesta í persónuvernd, fái þau 2,70 dollara í staðinn. Því er haldið fram að það eitt ætti að duga til þess að fyrirtæki líti í eigin barm og hugi að því að verja betur sín gögn og persónugreinanlegar upplýsingar. Auk þessa liggi fyrir að frekari reglusetning og aukin meðvitund viðskiptavina muni leiða til þess að þau fyrirtæki sem hugi ekki að þessu reki lestina. Bent er á að þau fyrirtæki sem hugi að góðum viðhorfum á þessu sviði haldi betur í viðskiptavini sína, auki arðsemi sína og þurfi síður að reiða sig á gögn frá þriðju aðilum til að taka mikilvægar viðskiptalegar ákvarðanir.

Harvard-háskóli gerði könnun árið 2018, sem sýndi einnig fram á að þau fyrirtæki sem upplýstu viðskiptavini sína um hvernig þau nýttu gögn um þá á grundvelli auglýsinga, náðu að auka auglýsingasmelli viðskiptavina um 11% og juku sölu sína um 38%.

Af þessu má sjá að þó svo að fyrirtæki hafi hér áður fyrr reynt að afla eins mikilla upplýsinga og hægt er um viðskiptavini til að taka síðan ákvörðun um vöru og markaðssetningu, þá eru að verða breytingar á því, og viðskiptavinir, a.m.k. erlendis, eru farnir að meta heiðarleika í auglýsingamennsku. Þeir vilja vita hvernig fyrirtæki vinna upplýsingar þeirra. Fyrirtæki sem huga að persónuvernd viðskiptavina sinna hafa þannig fengið samkeppnisforskot.

Mörg fyrirtæki hérlendis starfa í alþjóðlegu umhverfi. Þau fyrirtæki sem vinna með gögn eða vöru, sem vinnur persónuupplýsingar, eiga nú öll að vita að í því umhverfi þarf varan að samræmast gildandi lögum, og þar með uppfylla reglur persónuverndarlaga. Mikilvægt er að íslensk fyrirtæki geri sér grein fyrir þessu. Hefur í þessu sambandi verið bent á að ekki einungis er samkeppnishæfni fyrirtækja að veði heldur geti samkeppnishæfni einstakra landa verið að veði, ef þarlend fyrirtæki huga ekki að þessum reglum.

Höfundur er forstjóri Persónuverndar.

Höf.: Helga Þórisdóttir