Vinátta Vinirnir kynntust í Skagafirðinum og segjast þeir vera dásamlega eins.
Vinátta Vinirnir kynntust í Skagafirðinum og segjast þeir vera dásamlega eins.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarmennirnir Halldór Gunnar Pálsson og Sverrir Bergmann voru að gefa út plötuna Varmilækur, en nafnið kemur frá bóndabæ móður Halldórs í Skagafirði. Þeir vönduðu sig svo mikið við plötuna að gerð hennar tók þrjú ár

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Tónlistarmennirnir Halldór Gunnar Pálsson og Sverrir Bergmann voru að gefa út plötuna Varmilækur, en nafnið kemur frá bóndabæ móður Halldórs í Skagafirði. Þeir vönduðu sig svo mikið við plötuna að gerð hennar tók þrjú ár. „Við ákváðum að gera svona kósíplötu. Við byrjuðum á henni í skúrnum heima og það var erfitt að velja lögin,“ segir Sverrir. „Hann fór að eignast börn og vildi gera hugljúfa plötu. Sverrir vildi gera svefnplötu en mig langaði að gera plötu sem fullorðnir gætu hlustað á líka, svo að við ákváðum að blanda þessu saman og gera hvort tveggja. Þetta er svona vögguvísnaplata í felulitum,“ bætir Halldór við.

Lög plötunnar eru þekkt að þeirra sögn og koma alls konar þekkt hugtök úr íslenskum popplögum til sögunnar, eins og ævintýri, álfar, englar, vinátta og ástin. Það er enn ekki farið að reyna á vináttuna á milli þeirra, en þeir hafa unnið saman í um fimmtán ár. Þeir kynntust í Skagafirðinum en fyrsta giggið var á Dönsku kránni.

„Fjallabræður voru að syngja með hljómsveit pabba Sverris, Karlakórnum Heimi,“ segir Halldór Gunnar frá. „Þeir fóru eitthvað að rífa kjaft og ég varð svo heillaður af því að einhver skyldi voga sér í Skagafjörðinn og komast upp með að rífa kjaft við Karlakórinn Heimi, svo að ég varð að athuga betur með þessa gæja,“ bætir Sverrir við hlæjandi.

„Það var auðvitað allt gert með hlýju,“ segir Gunnar og brosir. „En það hefur ekki reynt á vináttuna enn. Við erum svo dásamlega alveg eins en samt ekki, við höfum ekki rifist.“

Tók myndina úti á náttsloppnum

Plötuna segja þeir rómantíska og kósí og vera bæði fyrir fullorðna og börn. Þeir mæla jafnvel með því að spila plötuna fyrir börnin áður en þau fara að sofa.

Forsíðumynd plötunnar tók móðir Halldórs, sem býr á Varmalæk í Skagafirði. Myndin er af læknum sem rennur í gegnum bæjarstæðið og er heitur.

„Ég hringdi í mömmu einn morguninn og spurði hana út í veðrið. Hún svaraði að það væri ofboðslega fallegt í Skagafirði svo að ég bað hana að fara út og taka mynd af læknum,“ segir Halldór frá.

„Hún fór út á náttsloppnum í frostinu og sendi mér myndina. Það er frost og heitur lækurinn rennur í gegn og haustroðinn er enn. Það hefur ekkert verið átt við þessa mynd, svona er þetta bara.“

Félagarnir hafa ákveðið að næsta plata verði frá heimaslóðum Sverris, Drekahlíð. „Hún verður af sama meiði en við reynum að taka hana ekki upp á þremur árum. Frekar á þremur dögum,“ segja þeir hlæjandi.

„Við erum að búa til ástæður svo að við getum haldið áfram að hanga saman,“ segir Gunnar að lokum.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Halldór Gunnar og Sverri á K100.is.

Höf.: Edda Gunnlaugsdóttir