Færibandið Félagsmenn VR í farþegaþjónustu greiða atkvæði í næstu viku.
Færibandið Félagsmenn VR í farþegaþjónustu greiða atkvæði í næstu viku. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Samninganefnd Verslunarmannafélags Reykjavíkur samþykkti í gær að efna til atkvæðagreiðslu hjá félagsfólki sínu í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Mun atkvæðagreiðslan standa yfir á vef félagsins frá kl

Samninganefnd Verslunarmannafélags Reykjavíkur samþykkti í gær að efna til atkvæðagreiðslu hjá félagsfólki sínu í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Mun atkvæðagreiðslan standa yfir á vef félagsins frá kl. 9 mánudaginn 11. mars og fram til hádegis fimmtudaginn 14. mars.

Verði vinnustöðvun samþykkt er gert ráð fyrir að verkföll hefjist 22. mars. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði í samtali við mbl.is í gær að ákvörðunin væri þrautalending til að þrýsta á um að VR komist aftur að samningaborðinu í Karphúsinu og reyna að ná kjarasamningi sem fyrst. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, sagði hins vegar við mbl.is í gær að vinnubrögð VR væru með algerum ólíkindum þar sem einungis einn fundur hefði verið haldinn á milli Icelandair og VR, og þar hefði ekki verið afhent kröfugerð. Það væri því ekki tímabært að boða til atkvæðagreiðslu.

Bogi sagðist telja að menn myndu sjá að sér og vinna málið með hefðbundnum hætti. „Að farið sé í viðræður og reynt að komast að niðurstöðu. Annað er óásættanlegt, því þetta eru ekki vinnubrögð sem eru nokkrum manni sæmandi.“