Miðjubarnið Frankie Muniz leikur Malcolm.
Miðjubarnið Frankie Muniz leikur Malcolm. — Ljósmynd/Getty Images/AFP
Ég tel mig ótrúlega lánsama að eiga son á fjórtánda ári sem nennir enn í annríki unglingsáranna að eiga gæðastundir með móður sinni fyrir framan sjónvarpið. Á meðan við mæðgin bíðum spennt eftir nýjustu þáttaröðinni af Cobra Kai og Stranger Things…

Anna Rún Frímannsdóttir

Ég tel mig ótrúlega lánsama að eiga son á fjórtánda ári sem nennir enn í annríki unglingsáranna að eiga gæðastundir með móður sinni fyrir framan sjónvarpið. Á meðan við mæðgin bíðum spennt eftir nýjustu þáttaröðinni af Cobra Kai og Stranger Things höfum við verið dugleg að vafra um streymisveiturnar í leit að frábæru efni til að horfa á.

Við höfðum nýlokið við Young Sheldon, sem við skemmtum okkur konunglega yfir, þegar ég mundi eftir þáttunum Malcolm in the Middle sem voru geysivinsælir í kringum aldamótin. Ég var hreint ekki viss um hvort unglingurinn tæki í mál að horfa á nærri aldarfjórðungsgamla þætti en viti menn, hann féll fyrir þáttunum svo skemmst er frá því að segja að við erum nú komin á fjórðu þáttaröð af sjö.

Um er að ræða gamanþætti með dökkum húmor sem fjalla um sex manna fjölskyldu og daglegt líf þeirra, sem er oft og tíðum ansi skrautlegt. Þættirnir snúast að mestu um undrabarnið Malcolm, sem er þriðja barn foreldra sinna, en hann er einnig nokkurs konar sögumaður þáttanna. Malcolm og bræður hans þrír lenda oftar en ekki í alls kyns klandri og eru duglegir að halda miðaldra foreldrum sínum við efnið. Hér eru því frábærir þættir á ferð.