Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur auglýst lausa til umsóknar stöðu forstjóra Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna (FSRE). „Leitað er að framsýnum og öflugum forstjóra FSRE, með brennandi áhuga á að stýra og þróa stærsta fasteignasafn…

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur auglýst lausa til umsóknar stöðu forstjóra Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna (FSRE).

„Leitað er að framsýnum og öflugum forstjóra FSRE, með brennandi áhuga á að stýra og þróa stærsta fasteignasafn landsins og vera í leiðandi hlutverki varðandi opinberar framkvæmdir,“ eins og segir í auglýsingunni.

FSRE varð til árið 2021 við sameiningu Framkvæmdasýslunnar og Ríkiseigna. Stofnunin hefur umsjón með aðstöðusköpun fyrir starfsemi ríkisins og heldur utan um rekstur 530 þúsund fermetra fasteignasafns ríkisins og rekstur jarðasjóðs ríkisins (300 jarðir), að því er fram kemur á heimasíðu stofnunarinnar.

Í því felst að byggja nýja aðstöðu, skilgreina þarfir stofnana ríkisins og útvega húsnæði, ýmist úr fyrirliggjandi eignasafni eða á einkamarkaði með framleigusamningum.

Meðal tegunda aðstöðu sem FSRE skapar eru skrifstofur, menntastofnanir, heilbrigðisstofnanir, menningarstofnanir, lögreglustöðvar, fangelsi og aðstaða á fjölsóttum ferðamannastöðum.

Alls starfa 72 manns hjá FSRE. Settur forstjóri er Óskar Jósefsson.

Umsóknarfrestur er til og með 21. mars. Fjármála- og efnahagsráðherra skipar forstjóra Framkvæmdasýslu – Ríkiseigna til fimm ára. sisi@mbl.is