Verðlaunahafinn Athöfnin fór fram í Þjóðarbókhlöðunni klukkan 16 í gær en alls voru tíu bækur tilnefndar.
Verðlaunahafinn Athöfnin fór fram í Þjóðarbókhlöðunni klukkan 16 í gær en alls voru tíu bækur tilnefndar. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Ólafur Gestur Arnalds, prófessor og doktor í jarðvegsfræði, hlaut í gær Viðurkenningu Hagþenkis 2023 fyrir Mold ert þú – Jarðvegur og íslensk náttúra sem Iðnú gefur út. Alls voru 10 bækur tilnefndar en Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt…

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Ólafur Gestur Arnalds, prófessor og doktor í jarðvegsfræði, hlaut í gær Viðurkenningu Hagþenkis 2023 fyrir Mold ert þú – Jarðvegur og íslensk náttúra sem Iðnú gefur út. Alls voru 10 bækur tilnefndar en Hagþenkir hefur frá árinu 1986 veitt viðurkenningu fyrir fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings og er það viðurkenningarráð Hagþenkis, skipað fimm félagsmönnum, sem stendur að valinu. Viðurkenningin felst í sérstöku viðurkenningarskjali en að auki fær vinningshafinn 1.500.000 kr. í verðlaunafé.

„Þetta kom á óvart, ég bjóst ekki við þessu, en þetta er óskaplega mikill heiður og mjög ánægjulegt því þessi bók er kannski að hluta til lífsstarf mitt, falið á síðunum. Að fá svona viðurkenningu síðan fyrir það getur ekki annað en yljað manni,“ segir Ólafur, inntur eftir því hvaða þýðingu viðurkenningin hafi fyrir hann.

Stórvirki með áherslu á sérstöðu íslensks jarðvegs

Í umsögnum dómnefndar segir að að ritið sé stórvirki á sviði náttúru- og umhverfisfræði, með áherslu á sérstöðu íslensks jarðvegs, þar sem fjallað sé ítarlega um mikilvægi moldarinnar í vistkerfum þurrlendis með ríkulegum gögnum og myndefni.

„Þetta er bók um mold og moldin er ein mikilvægasta auðlind jarðar sem menning okkar og lífsviðurværi byggist á. En þetta er líka bók um náttúru því moldin er hluti af vistkerfum og náttúrunni þannig að hún tekur vinkil umhverfisins á moldina,“ segir Ólafur og bætir við að þá sé þetta einnig bók um misþyrmingu vistkerfa og moldar. „Hún tekur því líka fyrir þessi margvíslegu vandamál sem steðja að vistkerfum jarðar og af hverju við lokum augunum fyrir þeim og gefur ýmsar ástæður fyrir því sem eru ræddar. En fyrst og fremst er þetta bók um íslenska mold.“

Aðspurður svarar Ólafur því til að verkið hafi verið um 25 ár í smíðum. „Með mismiklum hraða þó því hún þróaðist meðfram kennslu hjá mér á háskólastigi í jarðvegsfræði þannig að það var alltaf að bætast við hana ár frá ári en svo var tveggja ára lokaskorpa til að reka endahnútinn á hana.“

Íslensk mold einstök

Segir Ólafur Ísland sérstakt land með ákaflega sérstæða og einstæða náttúru. „Hluti af því er moldin en við erum með mold sem myndast á eldfjallasvæðum, svo sem og annars staðar á jörðinni, en hún er afar sérstök hér því hún er svo frjósöm, ein af frjósömustu jarðvegskerfum sem finnast en jafnframt afskaplega viðkvæm. Þess vegna eru kaflar í bókinni tileinkaðir því að við höfum farið og erum að fara illa með þessa auðlind en líka um alla möguleika sem við höfum til að endurheimta þessi landgæði.“

Að sögn Ólafs nálgaðist hann efnið á óhefðbundinn hátt við ritun bókarinnar. „Fyrsti hlutinn fer í grunninn en ég reyni að útskýra margt sem fólk hefur kannski ekki veitt athygli í sínu umhverfi og jarðvegsfræðina almennt. Svo er það íslenski jarðvegurinn og þessi umhverfisfræði sem ég tengi saman við moldina. Þetta er því alveg sérstök nálgun.“

Hlaut Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Ólafur er sem fyrr segir jarðvegsfræðingur, menntaður bæði í jarðfræði og jarðvegsfræði. Hann nam jarðfræði við Háskóla Íslands þar sem hann lauk BS-prófi en síðar lauk hann mastersprófi í jarðvegsfræði frá Montana State University og doktorsprófi í sömu grein frá Texas A&M University. Þá hefur Ólafur helgað sig rannsóknum á jarðvegi og náttúru landsins um langa hríð og var meðal annars prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. En hvað skyldi helst standa upp úr á farsælum ferli?

„Ja, þetta er langur ferill og margt sem stendur upp úr. Starfsævi mín er svolítið kaflaskipt og flestir þessir kaflar skila sér í bókina,“ segir Ólafur. „Mín viðfangsefni voru meðal annars að kortleggja eyðingu jarðvegs á Íslandi og búa til sérstök kerfi fyrir það og svo framvegis. Það var sjö ára verkefni og stór hópur sem vann að því en við fengum Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir það á sínum tíma. Þannig að það er svona það sem maður man vel eftir.“

Þá segir hann það að hafa verið í alþjóðlegu samstarfi við fjölhæfan og merkilegan hóp um jarðveg á eldfjallasvæðum Evrópu og víðar hafi verið ákaflega gefandi. „Ekki bara faglega heldur hefur það verið einstaklega skemmtilegt og veitt mér færi á að heimsækja ýmsa staði sem marga dreymir um að koma á,“ segir hann og nefnir í kjölfarið nokkur framandi lönd.

„Ísland er meðal rykugri landa eða svæða heimsins því það fýkur svo mikið hér upp af söndum og að koma því inn í alþjóðlegt samhengi og alþjóðlega samvinnu hefur einnig verið mjög gefandi starf.“

Formlegum starfsferli nýlokið

Ólafur fagnaði nýlega sjötugsafmæli sínu og hefur því lokið formlegum starfsferli sínum. Spurður hvað taki við, nú þegar hann sé sestur í helgan stein, segir hann næstu skref óráðin en margt koma til greina. Í þakkarræðu sinni í gær kom Ólafur inn á það hversu stórkostlegt það væri að ljúka starfsferlinum á slíkri viðurkenningu: „Við, aðstandendur útgáfu bókarinnar Mold ert þú, erum stolt og þakklát fyrir að hljóta Viðurkenningu Hagþenkis. Það er beinlínis stórkostlegt að hljóta slíka viðurkenningu við lok formlegrar starfsævi, það yljar um hjartarætur. Þegar kemur að fræðibókum með myndum, teikningum og öllu sem því fylgir þá er framsetning farin að skipta mjög miklu máli, hún hefur áhrif á það hvort efnið nái til lesandans. Þannig að hönnuður og umbrotsaðili er orðinn lykilpersóna í „sköpun“ verksins og framsetningu, sem hefur tekist ótrúlega vel í þessu tilfelli að okkar mati. Það verk vann Fífa Jónsdóttir hjá Landgræðslunni, sem nú heitir Land og skógur, en með henni deili ég hluta verðlaunanna.“