Spenna, ókyrrð og þrútið loft

Síðastliðinn þriðjudag lauk enn einum af allmörgum áföngunum keppninnar um forsetaembættið í Bandaríkjunum. Þá voru réttir átta mánuðir til kjördagsins 5. nóvember 2024.

Þar sem sitjandi forseti, í þessu tilviki Joe Biden, hefur ákveðið að verða í framboði aftur fyrir demókrata, þá þarf hann, venju samkvæmt, ekki að hafa mikið fyrir því að safna sínum kjörmönnum, sem formlega ráða því, hver verði í kjöri af flokksins hálfu. Þótt Trump hafi gegnt embætti forseta í eitt kjörtímabil þá þarf hann að etja kappi við þau flokkssystkini sín sem hafa metnað, stuðning og fjárhagslegan styrk til að bjóða sig fram gegn fyrrverandi forseta. Í þeim hópi voru núna DeSantis, vinsæll ríkisstjóri í Flórída, sem lengi var talinn líklegastur til að ógna framboði Trumps, og svo Nikki Haley, fyrrverandi ríkisstjóri og sendiherra Trumps og Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Fleiri þekktir og efnaðir frambjóðendur buðu sig einnig fram, sumir sem áttu ekki annað erindi en að slást við Donald Trump, eins og sjálfur fyrrverandi varaforseti hans, Mike Pence, sem reið þó ekki feitum hesti frá sinni baráttu við Trump, og Chris Christie sem virtist einnig hafa Trump á heilanum og hét því að láta þann karl heyra það, svo nokkrir séu nefndir.

Þessir ætluðu sér að ná í athygli almennings í allmörgum kappræðufundum frambjóðenda og þar á meðal auðvitað Trumps. En Trump hefur lengi sýnt að hann er næsta óútreiknanlegur og það gerði hann einnig nú. Hann sagðist ekkert hafa að græða á því og ekki heldur almennir kjósendur að halda þessum frambjóðendum uppi á snakki. Hinir frambjóðendurnir fordæmdu hann fyrir „að þora ekki í þá“ en Trump gerði ekkert með það, en hélt á sama tíma fjölmenna fundi, þar sem þúsundir mættu, en hinir funduðu með fámenni og töluðu illa um Trump. Nú eru þeir allir hættir og þegar þeir fóru lýstu þeir allir yfir því að þeir myndu standa við yfirlýsingar sínar um að styðja þann frambjóðanda sem endaði með sigri í prófkjörinu, sem var auðvitað Trump.

Nikki Haley ákvað þegar úrslit þriðjudagsins lágu fyrir að hætta við framboð, en segja má að það hafi verið sjálfhætt fyrir hana. Fyrirkomulagið er að formi til barátta frambjóðenda um „kjörmenn“ flokksins, en sá sem fær 1.215 kjörmenn og svo auðvitað hugsanlega fleiri er raunverulega kominn með stöðu forsetaframbjóðanda repúblikana. Trump hefur þegar fengið 995 kjörmenn, en Nikki Haley er með 89 kjörmenn.

Ýmsir áhrifamenn, meðal annars sumir þeirra sem eru fyrirferðarmiklir í fjölmiðlum og hafa alla tíð stutt demókra, hafa síðustu vikurnar verið að færa rök fyrir því hvers vegna best sé fyrir Biden og flokkinn hans að hann dragi sig í hlé. Hann er minntur á það, að hann hefði fyrir fjórum árum verið kosinn m.a. vegna yfirlýsinga hans um að hann ætlaði sér að sitja í aðeins eitt kjörtímabil. Biden ansar því ekki, enn sem komið er. Þar sem enginn alvöruframbjóðandi bauð sig fram í prófkjörsbaráttu gegn forsetanum er hann, rétt eins og Trump, að sópa til sín kjörmönnum. En munurinn er sá að Biden þarf ekkert að hafa fyrir því.

Dómsmálaráðuneyti Bidens virðist ekki hafa haft mikla trú því á að forsetinn gæti unnið á ný og voru saksóknarar ráðuneytisins látnir setja í gang ákærur og málaferli af breytilegu efni. Jafnvel hæstaréttardómarar í ríkjum sem demókratar ráða létu sig hafa það að skrifa upp á ákvörðun embættismanna demókrata þar, að Trump fengi ekki að vera í framboði í því ríki. Og önnur öpuðu eftir! Málið fór til Hæstaréttar Bandaríkjanna og var hent öfugu út með níu atkvæðum gegn engu! Fjölmiðlamennirnir, sem allir sem einn höfðu fagnað aðgerðunum, segja nú að þeir hefðu séð það fyrir og alltaf sagt að þessi hugmynd gæti ekki gengið. Forseti Hæstaréttar Bandaríkjanna heyrðist spyrja þegar málið var til meðferðar, hvort ekki væri líklegt að stuðningsríki Trumps myndu banna Biden að vera í framboði. Og hvern ætti þá að kjósa? Engan?